Þaulkunnugur gatinu

Ég veit ekki hvort við teljumst auðugri eða fátækari að eiga afar opinská bréf James Joyce til ástkonu sinnar og síðar eiginkonu, Noru Barnacle, sérstaklega í ljósi þess að Joyce var kannski ekkert sérstaklega klúr maður en bréfin eru auðvitað eins persónuleg og hugsast getur. Á hinn bóginn blasir við að hefðu bréfin ekki varðveist hefðum við allt aðra sýn á Joyce og Noru og hún væri ekki sönn þó að það megi líka rökstyðja að yfirþyrmandi klúrheit bréfanna sem mörg snúast um hljóð sem ýmis neðri göt líkamans gefa frá sér (sjá að neðan) hljóti að draga til sín alla athygli og auðvitað hefðu ekki allir það vald á orðunum að skrifa annað eins þó að kannski hljóti öll sambönd allra para sem eiga mök að fela eitthvað svipað þessu í sér.

Eins má skilja nákvæmar lýsingar bréfanna á vindgangi ástkonunnar í ljósi þess bókmenntalega framlags skáldsins Joyce að lýsa einum degi af hömlulausri nákvæmni og reyna þannig að nýta bókmenntirnar til að lýsa fjölbreytni heimsins og mannlegrar reynslu sem var sannarlega nýstárleg hugmynd þegar hann og Proust og fleiri breyttu skáldskapnum fyrir rúmri öld. Í því ljósi geta klúrheit Joyce aldrei orðið eins og klúrheit sérfræðinga í klámi. Fretandi holur Nóru geta aldrei verið aðalpersónur í klámfenginni lýsingu einvörðungu því að allt starf mannsins hennar fólst í að ná utan um það sem áður var ósagt og kannski líka um hvernig tungumálið lýsir hlutskipti okkar. Bréf hans sýna að Ulysses og fleiri skáldverk hans urðu ekki til í tómarúmi þegar kom að glímunni við orðin.

Fyrir um þrjátíu ár las leshringur sem ég var í margt um „hinn helga safa heiðna“ í íslensku skáldverki frá um 1950 en þar var sennilega verið að tala um brund. Í samanburðinum eru grófyrði Joyce skemmtilega prósaísk og um leið persónuleg. „Hinn helgi safi heiðni“ á heima í bókmenntaverki en í einkabréfi er kannski eðlilegra að tala um „cockstand“ því að hitt gæti auðveldlega misskilist og vegna þess að milli pars þarf ekki hátíðleika eða skrauthvörf, til þess eru náin sambönd að eyða slíkum óþarfa í mannlegum samskiptum. En komin á prent lenda þau vitaskuld í þeirri ógæfu að vera tekin óþarflega hátíðlega og draga að sér athygli flissandi bókmenntanema.

Previous
Previous

Drukknaður drengur varð guð

Next
Next

Jón Árnason á Ítalíu og í Langholti