Drukknaður drengur varð guð
Rómverski guðinn Antinóus er engan veginn jafn þekktur og Júpíter, Satúrnus, Mars eða Júnó en á sínum tíma var hann mikið dýrkaður um allt rómverska heimsveldið og styttur um hans bera því vitni en þær hafa fundist víða um víðlent Rómarríkið. Líkt og sumir aðrir rómverskir guðir (og raunar Guð kristinna) var Antinóus upphaflega maður. Hann mun hafa verið Grikki fæddur á svæðinu þar sem nú er Tyrkland, hugsanlega í nóvember 111. Tólf ára gamall komst hann í hirð Hadríanusar Rómarkeisara og fimm árum síðar var hann orðinn ástmaður keisarans. Líkt og margir rómverskir karlmenn var Hadríanus giftur en hafði að sögn engan rómantískan eða fysískan áhuga á konum, þar á meðal ekki sinni eigin konu. Fyrir utan að vera sterkur stjórnandi og farsæll herforingi var Hadríanus meðal gáfuðustu Rómarkeisara og talið er að hann hafi ort bæði ljóð og samið rit um þá ungu menn sem hann hélt mest upp á en Antinóus var þar í sérflokki.
Antinóus mun hafa verið gáfaður og sjarmerandi og samband þeirra Hadrianusar snerist nær örugglega ekki aðeins um kynlíf enda er sá tími vonandi liðinn að fólk haldi að samkynja samband séu ekkert nema það og gátur þess séu allar leystar þegar upplýst er hvor er „botninn“. Báðir voru þeir áhugasamir um veiðar og mun keisarinn hafa bjargað lífi eftirlætisins á ljónaveiðum árið 130 og voru margar styttur til um það afrek fyrir utan auðvitað þekkt kvæði eftir gríska skáldið Pankrates. Þetta varð þó skammvinnur léttir því að sama haust féll Antinóus í Nílarfljót og drukknaði en sögusagnir voru uppi um að honum hefði verið hrint af öfundarmönnum þó að enginn viti hið sanna um það og kannski vantar tilefni til þess morðs. Hitt er vitað að keisarinn var óhuggandi eftir það og lét reisa borg nálægt dánarstað Antinóusar sem kölluð var Antinoopolis. Að lokum lýsti hann Antinóus guð og lét reisa honum styttur um allt Rómaveldi.
Flestir hefðu kannski búist við að áköf og öfgafull Antinóusardýrkunin entist ekki mikið lengur en keisarinn lifði og jafnvel væri flissað að henni í laumi en önnur varð raunin. Þvert á móti breiddist hún hratt út og lifði síðan góðu lífi fram undir lok 4. aldar þrátt fyrir að margir ömuðust raunar líka við dýrkun drengsins. Flestir Antinóusarfræðimenn rannsaka stytturnar og deilt er um hvort þær séu af Antinóusi 13-14 ára eða 19 ára, þ.e. þegar hann lést. Ég sá eina í apríl í Berlín (þessa efstu sem fylgir greininni); þær er víða að finna. Ekkert bendir til að neinn höggmyndarinn hafi beinlínis séð Antinóus en oft er hann alvarlegur og harmþrunginn á svip. Sumar styttur af unglingnum tákna líka aðra guði jafnframt, t.d. rennur hinn nýi guð iðulega saman við Osiris og Bakkus og er það viljandi gert.
Hadrianus lést árið 138 og hafði löngu áður ættleitt vin sinn og hjálparmann, Antonínus Pius, sem varð svo keisari að honum látnum. Flestir telja þá tvo af fremstu Rómarkeisurunum ásamt Trajanusi sem áður hafði ættleitt Hadrianus. Ekki er vitað til þess að Antinóus hafi ógnað stöðu Antonínusar Píusar og þó að margar fáránlegar samsæriskenningar séu til um andlát unglingsins telja fáir fræðimenn að lát hans hafi verið samsæri sprottið af ótta hirðarinnar við unglinginn. Hadríanus einfaldlega hélt opinberu lífi sínu og einkalífi aðskildu og mun aldrei hafa ætlað Antinóusi mikið hlutverk í stjórnkerfi Rómar, aðeins í eigin lífi og að lokum í trú Rómverja. Þar af leiðandi hafði enginn ástæðu til að myrða ungmennið sem engum ógnaði og lát hans gerði Antinóus raunar margfalt meira áberandi en áður. Hann reyndist óvænt vera guðinn sem næstu aldir þörfnuðust.