Djöfull ertu minniháttar!

„Sjáðu til, Hekla, ég trúi á mátt hinna mörgu“ segir Frímann Flygenring í Með allt á hreinu. Líkt og leikarinn Jakob Frímann Magnússon er Frímann Samvinnumaður að ætt og uppruna og þaðan er kjörorðið sótt en þessi sérkennilega sundurlausa mynd sem er eins og hrúga af samanklipptum tónlistarmyndböndum hefur líka orðið eitt af því fáa sem Íslendingar hafa sameinast um síðan á dögum þorskastríðsins og geirfuglsins. Kannski er það einkum mín kynslóð og næstu tvær á undan sem fóru á myndina í bíó á sínum tíma og skemmtum okkur enn konunglega yfir henni alla þjóðhátíðardaga, horfum kannski ekki síst til að sjá Ísland sem er ekki lengur til en er samt ívið raunverulegra fyrir okkur en það Ísland sem við búum við nú. Hvað mig varðar er það til dæmis að sjá Ebba í bankanum (föður Páls Óskars og Diddúar) leika löggu. Útvegsbankinn var lagður niður sjö árum síðar og þar með rofnuðu mikilvæg tengsl við bernsku mína og fortíð en ég fór að sjá myndina í bíó með pabba (og allri fjölskyldunni) og sá Ebba líka oft í bankanum.

Með allt á hreinu var líklega myndin sem gerði Eggert Þorleifsson að ástmegi þjóðarinnar þó að hann hafi áður verið Tarzan konungur apanna í söngleiknum Gretti og sungið á Lögum unga fólksins með Hrekkjusvínunum. Þegar ég sá myndina var Eggert tiltölulega nýlega orðinn venslaður mér og því einboðið að standa með honum og persónu hans Dúdda í myndinni. En það var fleira sem hægt var að tengja við, systir mín birtist til dæmis í stuttu atriði (tekið í Reykjavík en sviðsett á Akureyri) sem mig minnir að sé nálægt 79. mínútu og ég var auk heldur alinn upp við plötur Stuðmanna og Spilverks þjóðanna sem við á heimilinu kunnum nánast utanbókar („Tékkar og víxlar, skattar og skuldir og algengar duldir“). Búktalaraatriðið í myndinni var iðulega endurtekið í skemmtunum okkur systkina á heimilinu en þá lék systir mín (ekki sú sama og nefnd var fyrr í efnisgreininni) búktalaradúkkuna, ég hélt á henni og bróðir mín var í felum og talaði fyrir dúkkuna. Ekki man ég hvort handritin voru jafn skemmtileg og sennilega ekki minnst á „rass úr rekaviði“, til þess vorum við allt of pen. Fleyg setning um rútu og langferðabíl fór líka framhjá mér þegar ég var tólf ára þó að ég hafi sannarlega ekki verið seinasti Íslendingurinn að fatta þennan.

Hin listræna blekking í myndinni er að Harpa Sjöfn og Stinni stuð (Ragnhildur og Egill) væru par en í raun vissu allir Íslendingar að utan myndar var Harpa Sjöfn kona Frímanns og hin raunverulega kona Stinna birtist líka í myndinni. Konan í „Haustið ‘75“ var ekki barnsmóðir neins Stuðmanna og enn veit ég ekki hvað lagið var að gera í myndinni en samt er það eitt besta lagið í henni og mjög Spilverkslegt. Það er engin bygging eða spenna í myndinni heldur, Grýlurnar (eða Gærurnar) taka fram úr Stuðmönnum snemma og þrátt fyrir lágkúrulegar hefndaraðgerðir karlanna situr við það. Þær eru framtíðin og þeir eru fortíðin sem þrátt fyrir allan sinn sjarma er ævinlega á útleið — í kjölfarið tókst Stuðmönnum að gera hartnær 30 ára karríer úr þessari hnignun sinni. Samt ná hljómsveitirnar saman í lokin við að lífga upp á gamlan slagara um Einsa kalda úr Eyjunum og parið ætlar að byrja saman í öldungardeild — þaðan er setningin sem er titill greinarinnar tekin og er beint gegn einni helstu sönnu hetju Íslandssögunnar, íslensku fegurðardrottningunni sem vann það ótrúlega og glæsilega afrek að koma einum helsta glæpaforingja Bandaríkjanna, Whitey Bulger, undir lás og slá.

Íslenskir sendikennarar segja mér að það þýði ekkert að sýna útlendingum þessa mynd; hana skilji engir nema Íslendingar („Karlakórinn Hekla“ er hins vegar sú íslenska gamanmynd sem þýðist best). Ef litið er kalt á málið er ekkert hægt að færa rök fyrir því að Með allt á hreinu sé neitt hlutlægt betri en hinar myndir Stuðmanna sem floppuðu illa, Hvítir mávar eða Í takt við tímann, en sjarmi verður ekki auðveldlega útskýrður og þessi mynd hefur svo mikinn sjarma að það skiptir engu máli hversu vel hún er fléttuð og hún fangar líka ákveðið móment í jafnréttissögu Íslendinga þegar konurnar tóku í fyrsta sinn fram úr körlunum og aðallega Ragnhildur Gísladóttir sem aldrei hefur selt sig sem áberandi feminista eða þegið laun fyrir að kenna feminisma (öfugt við sumar minniháttar) en er hins vegar í eigin persónu feminisminn holdi klæddur.

Previous
Previous

Mömmudrengur heillar konunglegan bastarð

Next
Next

Drukknaður drengur varð guð