Mömmudrengur heillar konunglegan bastarð

Eins og áður kom fram hef ég áform um söngleik um Elagabalus Rómarkeisara, ekki endilega til sýninga á Íslandi því að ég er orðinn hundleiður á Íslendingum líkt og hóran Kleópatra í Atómstöðinni, þeirri tiltölulega vanmetnu skáldsögu, „sem taka í nefið og lemja mann og vilja ekki borga; þessir helvítis eyðisandar og kátir voru kallar“. En þó að mínir söngleikir verði fyrir heiminn en ekki molbúana er samt óneitanlega býsna margt íslenskt efni sem ætti vel heima í söngleik. Eitt slíkt er Oddur Sigurðsson lögmaður (1681–1741) sem Sverrir afi skrifaði eftirminnilega um í bókinni Með vorskipum (1970) og er þeim vorkunn sem ekki hafa lesið þann þátt eða aðra sem afi heitinn sendi frá sér árin 1964–1973.

Vinur Sverris afa Björn Th. Björnsson var líka áhugasamur um Odd og skrifaði um hann í bókinni Í plógfari Gefjunar (1996) en Oddur er ekki aðeins gott efni í fróðleiksþætti heldur líka í söngleik og mér finnst ég og tónskáldið vinur minn réttu mennirnir til að setja hann saman. Oddur var forríkur mömmudrengur sem komst ungur til metorða, varð varalögmaður aðeins 25 ára enda sigldur og Hafnarmenntaður. Síðan hugðist hann giftast til fjár en varð fyrir því áfalli að heitkonan dó í Stórubólu. Fátt er þó svo með öllu illt að ekki boði nokkuð gott því að öll systkini hennar dóu líka og pabbinn ákvað að gefa honum jarðir og gera hann að erfingja sínum. Sá var einn þeirra lánsömu Íslendinga sem kallaður var Guðmundur ríki og varla tilviljun að Oddur hugðist verða tengdasonur hans!

Oddur giftist aldrei en fór um landið með sveina sína sem þóttu róstusamir. Kannski var hann Elagabalus síns tíma! Að minnsta kosti reyndu andstæðingar hans að dreifa þeirri sögu að hann hefði verið geltur af enskum hvalveiðimönnum sem höfðu rænt honum. Það er sem sé heilmikið efni i söngleik í þessari sögu. Þó að Oddur væri varalögmaður og síðar lögmaður voru metorð hans ekki sótt í það embætti heldur hafði Gyldenløve stiftamtmaður fengið mikið álit á honum í Danmörku og líkt og Oddur var bastarður sá sem einnig var greifi af Sámsey líklega hið ágætasta piparsveinsefni sem að vísu giftist að lokum til fjár konu sem dó skömmu síðar en átti engin börn frekar en Oddur. Þessi greifi og flotaforingi var mikilvægur maður í konungsríkinu, óekta sonur sjálfs konungsins og því ákveðinn heiður fyrir Ísland að hann var gerður hér stiftamtmaður fimm ára gamall þó að aldrei gengi hið gullna ljón svo langt að koma til landsins. En árið 1708 kom Oddur til landsins með umboð stiftamtmanns og fór sínu fram hér á landi næsta áratug. Voru hann og umboðsmaður amtmanns kallaðir „hinir fullmektugu“ og þótti mörgum hart að búa við ríki þeirra.

Oddur komst ungur á toppinn en eins og títt er um söngleikjahetjur var frami hans skammvinnur. Hátt að klífa, lágt að falla. Fuhrmann nokkur kom til landsins sem amtmaður 1718 og var nýtt eftirlætisgoð stiftamtmannsins og Oddur var þannig búinn að vera aðeins 37 ára þó að hann hengi nokkur ár enn á lögmannsembættinu. Til að strá salti í sárið náði Fuhrmann auk heldur að verða eftirlætisgoð Guðmundar ríka og stal arfinum þar með frá Oddi. Síðan lenti hinn hrokafulli fallni engill í deilum við nepóbarnið Jóhann Gottrup og deildu þeir um Stapaumboð árum saman uns báðir voru fullkomlega auðmýktir — sem sagt afar gott efni í söngleik. Bæði Oddur og Gottrup voru með ribbaldaflokka og hin eftirláta mamma Odds mun víst lítið hafa bætt úr. Á seinustu árum sínum bjó þessi aldraði mömmudrengur á Leirá í Borgarfirði sem friðsamur auðkýfingur, hættur öllum illdeilum. Samtímalýsingar á Oddi eru til og var hann sagður myndarlegur maður sem hentar vel þeim sem vilja láta myndarlega leikara fara með hlutverk hans í söngleik. Undir lokin var hann víst illa haldinn af þvagsýrugigt og öðrum fótarmeinum og hugsanlega get ég samið söngleikjanúmer um það enda óhræddur við hið líkamlega eins og ættingjar og nánir vinir geta vitnað um.

Previous
Previous

Fuglinn sem vekur skáldið

Next
Next

Djöfull ertu minniháttar!