Fuglinn sem vekur skáldið

Kannski er það vinna John Keats í apóteki sem ber ábyrgð á öllum þessum lyfjamyndlíkingum í frægu kvæði hans, „Óði til næturgala“ sem snýst um dauðann og drauminn en er samt á einhvern hátt upplífgandi. Eins og við öll þurfti Keats að glíma við tilgang lífsins og þann óminnishegra dauðans sem vomir yfir okkur öllum. En dauðinn er þó ekki nálægur hinum venjulega nútímamanni ár hvert. Öðru máli gegndi um Keats sem missti bróður sinn 19 ára áður en hann orti þetta kvæði og átti þá sjálfur eftir tvö ár ólifuð, lést á þrítugsaldri furðu ungur en þó einkennilega þroskaður. Í kvæðinu yrkir skáldið um næturgala sem hann heyrir í en sér ekki og óskar þess að hann gæti verið rödd án holds eins og fuglinn — sem hann er auðvitað núna. Og hvílíkt skáld var þessi smávaxni maður.

Ég þekki ekki næturgalasöng sjálfur en orðkynngi skáldsins er mikil, t.d. í næstseinasta erindi þegar hann segir: „Charmed magic casements, opening on the foam / of perilous seas, in faery land forlorn.“ Orðið „forlorn“ verður eins og vekjaraklukka fyrir skáldið sem hefur týnt sér í fuglasöngnum: skáldið er týnt en skýrir aldrei hvers vegna og ekki heldur hvers vegna hann kallar fuglinn „darkling“. Ósk hans er að hverfa og gufa upp og þannig heimta ódauðleika fuglsins sem ekki er undir sama dauðadómi og hann sjálfur. Við búum öll við þessi sömu örlög en höfum ekki sömu hæfileika til að færa þau í orð en Keats var eitt þeirra skálda sem dreymdi um ódauðleika orðsins og náði því takmarki að færa heiminum ódauðleg orð.

Ég las nýlega merkt rit bókmenntafræðingsins Helen Vendler (1933–2024) um Keats ásamt kvæðinu en áberandi var að sú gáfaða fræðikona spyr allt annarra spurninga en ég og svarar ekki neinum af mínum. Meðal félaga minna í að ræða Keats var þekkt skáldkona sem hafði hitt Vendler og fannst hin rúðustrikaða nálgun dæmigerð fyrir þá merku fræðikonu og kannski marga sem stunda bókmenntafræði. Mér var skemmt enda ekki viðkvæmur fyrir skensi í garð minnar fræðigreinar sem ég ann þó heitt.

Previous
Previous

Strandamálarinn

Next
Next

Mömmudrengur heillar konunglegan bastarð