Strandamálarinn
Henry Scott Tuke (1858–1929) var nokkurn veginn algerlega gleymdur málari í 40 ár en yfirgnæfandi meirihluti mynda hans eru af ungmennum að baða sig á ströndinni eða í bátum. Ást hans á sjónum leiddi til þess að þar í grennd bjó hann mestalla ævina, lengst í Kornbretalandi. Áður hafði hann lært í Frakklandi og Ítalíu og var um hríð í vinfengi við Oscar Wilde og gengi hans. Tuke varð mjög umdeildur um 1900 vegna nektar í málverkum sínum en naut þó einnig talsverðrar viðurkenningar meðan hann lifði enn en féll síðan í gleymsku fram á 8. áratug seinustu aldar. Gömul orðræða um málarann sem pervert vegna þess að margar fyrirsæturnar voru táningar hefur tekið sig upp aftur seinni ár, undir nýjum en líklega ekki svo nýstárlegum formerkjum en ekkert bendir til að Tuke hafi notað fyrirsætur sínar til neins annars en listsköpunar. Eins hefur Tuke verið gagnrýndur, kannski af ívið meiri alvöru, fyrir að allt sé einum of fagurt í verkum hans: ungmennin, steinarnir, sandurinn, sjórinn. Einn sá bitrasti hefur fullyrt að þær minni á myndir í Ladybird-bókum!
Mikil hefð var fyrir nekt í sögulegum og trúarlegum myndum og málarar höfðu sínar leiðir til að koma henni á framfæri en fyrirsætur Tuke eru hins vegar ekki að leika Davíð, Krist, Ísak eða heilagan Sebastian heldur eru aðeins þeir sjálfir, venjuleg ungmenni að baða sig og njóta sólarinnar og vegna fjarlægðar hins yfirlýsta sögulega eða andlega tilgangs fóru myndirnar fyrir brjóstið á sumum þó að flestir hafi ekki tengt þær við erótík á sínum tíma sem Íslendingar og aðrar baðmenningarþjóðir ættu að skilja vel. Það var vinur Tuke, skáldið John Addington Symonds, sem hvatti hann til að flytja list sína til nútímans og mála einfaldlega það sem fyrir augun bar. Tuke reyndist einungis langa til að mála unga karlmenn; konur eru fáséðar eins og geirfuglinn á myndum hans. Raunar urðu flestar fyrirsæturnar að sögn Lundúnastrákar því að þó að heimamenn önduðu fyrst léttara yfir áhugaleysi hans á hinu kyninu fóru einhverjir síðar að túlka hann sem perra og erfitt var að fá unga menn í sveitinni til að sitja fyrir hjá honum. Tuke málaði flest verkin í sjávarþorpinu Falmouth þar sem hann bjó löngum. Einnig hafa varðveist eftir hann ljósmyndir með afar svipuðum þemum og stundum urðu þær að málverki síðar.
Það er mikil lífsgleði og kyrrð yfir málverkum Tuke sem eru flest sárasaklaus frá sjónarhorni Íslendings sem vanist hefur hérlendri sundlaugamenningu og ekki er alinn upp við að leggja nekt og kynlíf að jöfnu eins og Bandaríkjamenn og stundum Bretar komnir af enskum púrítönum og að lokum tóku íbúar Falmouth hann í sátt og nefna stúdentagarða háskólans þar eftir honum. Þar skipti máli að Tuke varð vinsæll hjá ýmsum þekktum Bretum á 8. áratugnum (t.d. safnaði Elton John. myndum hans) og skyndilega var hægt að selja myndir hans fyrir stórfé. Eins eiga Kornbretar mikið safn málverka Tuke enda var hann feykilega afkastamikill og af nógu að taka, enn frekar þegar ljósmyndir bætast við.
Eitt það merkilega við Tuke er að hann nær utan um samfélagsbreytingar síðustu ára 19. aldar og upphafs 20. aldar. Með tilurð frítímans og nýrri fagurfræði fór fólk að flykkjast á sólarstrandir og til varð glæný strandmenning. Um leið fór það að þykja hraustleikamerki að vera sólbrunninn en á tíma hins langa Evrópufriðar þóttu næpuhvítir fegurstir allra. Á þessum tíma var lítil vitund um húðkrabbamein þannig að til varð í örskamma stund í upphafi 20. aldar saklaus strand- og baðmenning þar sem fólk gat notið lífsins og sólarinnar án áhyggju og samviskubits og þetta er tíðarandinn sem Tuke fangar í verkum sínum.