Fyrirmyndir á hverfanda hveli

Núna í haust fengu afburðanámsmenn styrk frá Háskólanum og hlutu hann 27 stúlkur og fjórir drengir. Þessu var slegið upp í öllum blöðum — það sem hefði venjulega talist gleðifrétt var greinilega sorgarfrétt í þetta sinn sem átti að setja í samhengi við bága stöðu drengja í skólakerfinu sem miðað við umfjöllun er öllum öðrum en þeim sjálfum að kenna, sennilega aðallega kellingum. Í þeirri umræðu hefur mér fundist ráðandi tvíhyggja heftandi. Nú eru vissulega flestir nemendur annað hvort líffræðilega kynið en þeir eru líka svo ótal margt annað og það er takmarkandi að ræða um flókin kerfi út frá allt of stóru mengi eins og t.d. kyni. Mig minnir óljóst að stöku sinnum á grunnskólaárunum hafi ég látið kerfið hrífa mig með til að ræða um stráka og stelpur en annars hefur þessi tvíhyggja ekki verið áberandi í mínu lífi því að mér finnst hún afar takmarkandi.

Þetta gerir að verkum að ég les bækur eins og Þú ringlaði karlmaður: Tilraun til kerfisuppfærslu eftir Rúnar Helga Vignisson alltaf með ákveðnum kvíða þó að í þessu tilviki hafi hann verið minni þar sem ég þekki manninn og hæfileika hans. Raunar er heldur meiri tvíhyggja í verkinu en ef ég hefði skrifað það en það er líka ótvíræður kostur vegna þess að bókin er skrifuð inn í tvíhyggjuumræðu og rímar þannig að einhverju leyti við hana sem eykur slagkraftinn. Helsti kostur bókarinnar er annars afvopnandi einlægni höfundar sem er persónulegur frá upphafi til enda, áttar sig greinilega á að það er enginn annar möguleiki fyrir hann en að nálgast málið sem málsaðili og gerir það líka svikalaust og heldur þeirri línu allt verkið í gegn. Þannig nær hið persónulega að varpa ljósi á hið almenna. Hitt sem gefur bókinni gildi er „kerfisuppfærslan“, raunverulegur vilji höfundar til að átta sig á nýjum tíma, hinni eitruðu karlmennsku og hugsanlegri ábyrgð alls karlkynsins á henni. Hann lýsir eigin „tregðulögmáli“ og hiki gagnvart málefninu rækilega og fer í gegnum allar forsendur sínar, frá frumbernsku til nútímans. Bæði þessi persónulegi þráður og leit höfundar að uppfærslunni gera bókina skemmtilega ólíka hefðbundnum debattbókum og tryggir að hún hefur gildi óháð því hversu sammála maður kann að vera höfundi eða hve reynslunni svipar saman.

Forsíðumyndin af höfundi ungum innan um verðlaunaða jakkafatakarla sem holdgera hinar eldri karlmennskuhugmyndir í sér nær að mörgu leyti utan um tilraun bókarinnar á snjallan hátt. Samfélagið breytist núna svo hratt að á einni kynslóð er staða einstaklingsins gjörbreytt því sem hann hefði kannski átt að eiga von á. Þessi drengur á myndinni er umkringdur fyrirmyndum en þær eru kannski ekki jafn gagnlegar í nútímanum og búast hefði mátt við. Að því leyti er lýsandi að einn þeirra snýr við okkur bakinu. Skemmtilegt punctum í snjallri mynd í áhugaverðri bók sem er innlegg í mikilvæga umræðu.

Previous
Previous

Olía og ógeð

Next
Next

Strandamálarinn