Olía og ógeð

Skyndiauður Osage-indíánanna í Oklahoma sem höfðu selt olíuvinnslu á landsvæði sem þeim hafði verið úthlutað löngu fyrr og þá talið mun minna virði leiddi af sér hræðilega glæpaöldu upp úr 1920 þar sem samviskulausir kaupahéðnar myrtu nærfellt 20 og kannski allt að 60 manns. Löggæsluyfirvöld hunsuðu lengi öll dauðsföllin en að lokum tókst Osage-ættbálknum að ná eyrum yfirvalda og FBI (sem þá hét raunar BOI) sendi rannsóknarlögreglumenn sem tókst að upplýsa málið að hluta. Langflestir illræðismennirnir sluppu væntanlega við dóm en tveir voru þó dæmdir í fangelsi eftir langan aldur og miklar lagaflækjur en sátu þó ekki inni nándar nærri jafn lengi og til stóð. Það voru frændurnir Charles King Hale og Ernest Burkhart. Um þetta hefur sjálfur Martin Scorsese nú gert langa og mikla mynd með Robert De Niro, Leonardo DiCaprio og tugum annarra misþekktra leikara. Ég hef aðeins séð myndina einu sinni og það í flugvél en mig grunar að hér sé hugsanlega á ferð mynd sem þolir mörg áhorf og verði jafnvel lengi í minnum höfð.

Hið óhugnanlega umfjöllunarefni er sem sé sönn sakamálasaga sem er sögð á listrænan hátt með sérstökum ellilegum litum sem minna á 7. áratuginn og er afar trúverðug enda í stórum dráttum sönn þó að skáldaleyfi muni tekið þegar kemur að Ernest Burkhart sem er eins konar vitundarmiðja sögunnar. Aðalskúrkurinn í samsærinu er frændi hans Charles King Hale, leikinn fortissimo af Robert De Niro í einu af sínum allra bestu skúrkahlutverkum. Ernest kemur fremur fyrir sjónir sem takmarkaður og kúgaður af frændanum sem beinlínis flengir hann rígfullorðinn í einu mögnuðu atriði en ég veit ekki hversu satt það er. Upphaflega átti Leonardo DiCaprio að leika FBI-manninn sem rannsakar málið en hann vildi fremur leika Burkhart. Um leið varð Burkhart kannski heldur meira fórnarlamb en í raun, ráðvilltur og uppburðarlítill maður með lítinn eigin vilja. Eins er hálfpartinn gefið til kynna að Burkhart hafi ekki beinlínis ætlað að myrða konuna sína en líklegra er að hann hafi átt fullan þátt í því illverki ásamt frændanum. Konan er leikin af Lily Gladstone sem hefur slegið í gegn í myndinni enda persónan sú sem helst er hægt að halda með og þó að leikur hennar sé lágstemmdur er hann áhrifamikill.

Annars eru stjörnur hér á hverju strái enda mikill heiður að vinna með Scorsese og hinir margverðlaunuðu John Lithgow og Brendan Fraser skjóta þannig upp kollinum í mýflugumynd þegar langt er liðið á myndina. Fléttan er í anda sannra sakamálasagna og fyrir vikið eru bófarnir ekki mjög snjallir eða nánast ósærandi heldur þvert á móti iðulega kjánalegir og kauðskir (nema helst persóna De Niro sem er Mefistófeles þessarar sögu) enda var hægt að sanna á þá glæpina þegar farið var að taka morðin alvarlega. Fram að því hafði lengi verið illa farið með Osage-fólkið í réttarkerfinu og litið var á dauðdaga hinna myrtu sem eðlilega vegna meints almenns heilsluleysis ættbálksins og þeirrar sannfæringar allra annarra að þau kynnu ekki með auð að fara eða nokkuð annað. Það sem tekið er nokkurn veginn óbreytt frá veruleikanum er ógeðslegt og hræðilegt, hvernig hópur siðlausra gróðahyggjumanna frömdu samsæri um að myrða og arðræna hóp frumbyggja. Auðvitað er þetta allt eins og eitt átakanlegt pars pro toto hjá Scorsese um hvernig Evrópumenn og síðar afkomendur þeirra í Bandaríkjunum fóru lengi með aðrar heimsálfur og fara enn.

Það skapar vanda fyrir Scorsese að hetjurnar eru FBI-menn í þjónustu hins alræmda Hoovers sem mig minnir að DiCaprio hafi líka leikið í bíómynd þó að ég sé að reyna að bæla niður þá minningu. Þó fá þeir að vera duldar hetjur sögunnar, einkum ungi Osage-maðurinn (að neðan) sem er í dulargervi að koma upp um glæpina. Sögusamúðin er frá upphafi öll með Osage-fólkinu en þó ekki á einfeldingslegan hátt. Samt eru það hvítu glæpamennirnir sem verða aðalpersónurnar eins og jafnan. Myndin er hæg og átakanleg, raunveruleg kvikmyndagerð eins og Scorsese hefur talað fyrir þegar hann gagnrýnir hraða og tölvuvinnslu í hasarmyndum nútímans. Í flugvél truflar vitaskuld margt en ég horfði samt og naut þess, eins ömurleg og sagan er.

Previous
Previous

Vísur og menningarauður

Next
Next

Fyrirmyndir á hverfanda hveli