Vísur og menningarauður

Sá tími virðist rækilega liðinn að vísur teljist menningarauður á Íslandi. Að minnsta kosti varð það nýlega banabiti framboðs að eitt helsta leirskáld landsins (af því tagi sem óhjákvæmilega hefur verulegt dálæti á limrum, togvír talentleysisins) lýsti stuðningi við það með tilheyrandi skáldleir á netinu og fór þá brátt að halla undan fæti hjá framboðinu. Fyrir 35 árum voru vísur aftur á móti enn nægilega ofarlega á baugi til þess að hagyrðingar hertækju sjónvarpsþáttinn „Hvað heldurðu?“ sem Ómar Ragnarsson stjórnaði og þó að mín kynslóð vissi stundum varla hvort hún ætti að hlæja eða gráta að þessu sveitakarnivali og þátturinn sé eflaust enn óskiljanlegri núverandi börnum og ungmennum (hann má finna hér) muna margir enn eftir einstaka vísum úr þáttunum, t.d. um að fara „upp á Heiði“ og um hýran Hafnfirðing með skemmtilegri vísun í analsex sem mér fannst raunar aldrei jafn stórfyndin og flestum öðrum.

En vísur eru ekki aðeins þessir neyðarlegu sögulegu viðburðir. Vísur eru alstaðar í fornum ritum og leika mikið hlutverk í atburðarásinni, m.a. þegar hæðast á að stórbokkum eins og Snorra Sturlusyni og hégóma hans og kóngafólkssnobbi eða hinum misheppnuðu vígamönnum Vatnsfirðingum eftir að hetjuskapsdraumar þeirr ummynduðust í hrottalegt ofbeldi gegn minnimáttar. Og enn rækilegar sitja stökurnar eftir í mér á þessum degi (20. sept.) vegna þess að hann var afmælisdagur Guðrúnar langömmu minnar en afi heitinn reyndi iðulega að kenna okkur að kveðast á eða skanderast eins og hann og systkini hans höfðu gert í bernsku en í okkar bernsku var aftur á móti komið sjónvarp og fleiri skemmtanir og enn seinna koma snjalltækin og hver þarf þó að kunna leiki eins og þessa? Hulda afasystir mín lýsir þessum leik í ævisögu sinni:

Ég hef alltaf verið svolítið heillaður af þessari langömmu minni sem var svona greind og ég komst nýlega að því að hún var líka félagi í Hinu íslenska bókmenntafélagi sem ég helga nú krafta mína – en áður hafði ég skrifað um hana hér (og raunar líka hér). Langamma átti ekki mikinn auð en hún átti sannarlega menningarauð. Sjálf var hún ekki langskólagengin en yngri bróðir hennar var settur til mennta og kenndi latínu og grísku í 40 ár við tvær helstu menntastofnanir Íslands. Þau voru bæði fædd á fremur berangurslegum stað á útnesinu á Snæfellsnesi, í námunda við gíginn Saxhól sem nú löngu síðar er orðinn ferðamannastaður. Kristinn frændi náði sér síðan í allan þann menningarauð sem fylgir latínu og grísku og er sá eigi lítill (ég frétti nýlega að hann hefði andast erlendis á heimleið frá Grikklandi; sjálfur hef ég nýlega lifað af svipaða langferð) en á móti fékk langamma mín og eldri systir hans íslensku stökuna sem engin launuð störf fylgdu og hún miðlaði henni svikalaust til eigin afkomenda.

Previous
Previous

Eigi skal höggva

Next
Next

Olía og ógeð