Eigi skal höggva

23. september er merkisdagur í íslenskri bókmenntasögu því að þá var Snorri Sturluson veginn í Reykholti árið 1241; um það hef ég skrifað grein sem eins og margar mínar greinar fjallar auðvitað ekki beinlínis um það sem gerðist þann dag — ég veit ekkert meira um það sem gerist en þið hin — heldur um söguna af því og þar með er Snorri ekki aðalpersónan í greininni heldur vitnin og sögumennirnir sem er líka alldæmigert fyrir mig. Ég skrifaði líka aðra grein sem margir halda að fjalla um víg Snorra Sturlusonar en fjallar í raun um annan Snorra og dauða hans; þetta er auðvitað gert af hreinum kvikindisskap til að láta þá kjalfróðu sem ekki lesa en þykjast samt vita allt hafa sig þannig að fífli.

Sigurður Nordal heitinn vildi gjarnan gera Snorra að snillingnum í sögu íslenskra miðaldabókmennta en vandinn við það er að við vitum hreinlega ekki hvað Snorri samdi eða hvernig. Hið síðarnefnda er öllu mikilvægara en það fyrra, þó að sennilega hafi heldur meira verið rætt í tímans rás um hvað Snorri skrifaði en hvernig, þá er það efinn um hvernig Íslendingar 13. aldar sömdu sín rit sem er áhugaverðari fyrir okkur bókmenntarannsakendur. Við vitum hreinlega mest lítið um það og Snorri Sturluson er sérlega viðsjárverður þar sem hann var höfðingi líka og vellríkur og aldrei að vita hvað honum er eignað sem aðrir hafa raunverulega unnið. Einu sinni sat ég í nefnd með raunvísindamönnum sem efuðust ekki um hver væri fyrsti höfundur greinar, það væri sá sem „á labbið“ og algert aukaatriði hver skrifaði textinn. Kannski leit Snorri svipað á málin og kannski hefur nútímafólk verið of upptekið af eignarrétti texta, hvað þá hugmynda.

Þannig að þó að Snorri hafa nær örugglega haft áhuga á ættfræði, Noregskonungum, dróttkvæðum skáldskap og norrænni goðafræði er allsendis óljóst nákvæmlega hvað hann setti saman um þetta allt eða hvenær eða hvernig og þannig verður það ævinlega því að ég hef takmarkaða trú á að því að hægt sé að nota textasamanburð til að ættfæra texta með fullri vissu til manns sem ekkert er haft eftir með nokkurri vissu annað en „Út vil eg“ og „Eigi skal höggva“. Raunar bendir hvorttveggja setning til að Snorri hafi verið gagnorður maður eins og íslenskir vitringar hafa löngum verið.

Samkvæmt heimildum var Snorri líka hégómlegur og lævís valdstreitumaður þannig að kannski ættum við ekki að hafa of mikla samúð með honum þó að ein ályktun mín í ívitnaðri grein sé að frásögnin af andláti Snorra sé ekki viðhöfð neinum banamanni hans til sóma. Að þessu leyti var Snorri ekki ósvipaður Síseró sem var drepinn á svipuðum aldri og er þekktur bæði sem stjórnmálamaður (með misjafnt orðspor) og orðsins maður (allir fullir aðdáunar). Hvorugur dauðinn var hetjudauði en á endanum er það sá sem heldur á vopninu sem situr uppi með mestu skömmina.

Previous
Previous

Alex hugdjarfi og Enak vinur hans

Next
Next

Vísur og menningarauður