Alex hugdjarfi og Enak vinur hans

Sex bækur um Alex hugdjarfa komu út á íslensku árin 1974–1988, en alls eru bækurnar 41, 20 eftir skaparann Jacques Martin (1921–2010), átta sem hann vann að ásamt öðrum og þrettán án hans. Augljóslega eru þær ívið vinsælli utan Íslands en voru aldrei verulega umtalaðar hér. Ég man aðallega eftir þeim úr biðstofu tannlæknisins míns og hugsanlega rakarastofunni en einstaka krakki átti þær líka. Alex var ófyndnari tegundin af Sesarsteiknimyndasögu, gerðist sem sagt á dögum Sesars líkt og Ástríkur og aðalpersónan var hinn ungi Alex hugdjarfi sem var upphaflega gaulverskur þræll en komst að lokum í þjónustu Sesars. Bækurnar þóttu tiltölulega sögulega nákvæmar og Martin var mikill sagnfræðiáhugamaður sem einkum teiknaði sögulegar teiknimyndasögur. Hann var Frakki frá Strasbourg sem ég sótti einmitt heim í fyrra og eðlilega eru hinir fornu Gaulverjar vinsælt efni meðal Frakka. Martin hóf ritun bókanna um Alix árið 1948 á vegum Tinna-tímaritsins, s.s. áður en Goscinny og Uderzo fóru að semja Ástrík.

Ekki þarf að koma á óvart að Alex sé skapaður af teiknara hjá Tinna-bókunum enda átti Martin líka sinn eigin Tinna, blaðamanninn Lefranc sem svipað og fyrirmyndin lenti í ýmsum harðnútímalegum ævintýrum og komu út fimm bindi af honum á íslensku 1985–1987 undir heitinu Ævintýri Franks. Alex er líka svipuð manngerð og Tinni, hugrakkur og óttalaus og eilífðarunglingur, mig minnir að hann hafi verið um það bil 16 ára alla syrpuna. Fljótlega eignaðist Alex vininn Enak sem var egypskur og aðeins yngri en Alex sem var þar með eðlilegur leiðtogi síns húðdökka vinar og er auðvitað afar ljóshærður og germanskur að sjá. Þeir Enak urðu óaðskiljanlegir og hefur mörgum þótt samband þeirra í meira lagi hómóerótískt, a.m.k. fyrir þá sem þurftu á slíkum fyrirmyndum að halda, ekki ósvipað og sambönd Tinna við hina ungu þriðjaheimsbús Tsjang og Zorrínó en hann bjargaði lífi beggja og á myndunum innan á kápu er hann með hönd um öxl þeirra og engra annarra sem gladdi auðvitað margan ungan öfuguggann á sínum tíma. Bækurnar gerast auk heldur á heitum svæðum með þeim afleiðingum að Alex og Enak eru iðulega mjög fáklæddir í ævintýrum sínum. Þetta þótti engum mein á eftirstríðsárunum.

Ein ástæðan fyrir því að Enak er helsti félagi Alex mun víst vera sú að í belgískum lögum um barnamenningu var amast við að hafa karl og konu sameiginlegar aðalpersónur og óttinn við kynferðislega spennu hafði því þau óbeinu og sannarlega óætluðu áhrif að fjölga hómóerótískum samböndum í barnabókum. Varla er tilviljun að evrópska aukapersónan á húðdökkan hjálparmann. Barátta andrasista á þessum tíma gekk út á að finna hinum heimsálfunum stað í þjónustu Evrópu — kannski ekki mjög ósvipað því sem andrasistar hugsa núna, þeir sem finnst helst að allur heimurinn eigi að vera eitt land, talandi ensku auðvitað og undir styrkri forystu Bandaríkjanna.

Bækurnar um Alex eru prýðilegt dæmi um menntunargildið sem teiknimyndasögur gátu haft. Mín fyrstu kynni af Napóleón, Hitler, Tróju, Júpíter og fleiru úr mannkynssögunni voru öll í gegnum teiknimyndasögur. Sumir létu þær duga en aðrir héldu áfram og vildu líka lesa fræðibækur, meðal annars ég. Ástríkur og í minna mæli Alex voru minn inngangur að Afburðamönnum og örlagavöldum og síðar Veraldarsögu Fjölva. Þess vegna er sögulega teiknimyndasagan mikilvæg. Þó að Alex sé líklega löngu gleymdur á Íslandi eru franskir arftakar Martin enn að senda frá sér bækur um þessa hugdjörfu hetju; hver veit nema þetta hafi verið eftirlætisbækur fv. parsins Attals og Sejourné sem nýlega voru forsætis- og utanríkisráðherra Frakka. Eins er hitt og þetta aukaefni til þar sem Alex og Enak koma við sögu. Ný myndasaga er orðin til þar sem Alex er kominn í öldungaráðið og þrettán bækur eru komnar út í þeirri röð. Alex var líka mjög vinsæll í Svíþjóð en aðeins tvær bækur um þetta hugdjarfa ljóshærða ungmenni voru þýddar á ensku. Hann var löngu horfinn hér af markaði árið 1999 þegar Frakkar gerðu um hann sjónvarpsþáttaröð sem ku vera enn sýnd á franska Prime.

Myndirnar hér að ofan eru allar fengnar af þessari síðu þar sem mikill áhugi ríkir á sambandi Alex og Enaks og finna má mun fleiri myndir af þeim félögum ef einhver heldur að ég sé að ýkja.

Previous
Previous

Glæpur og refsing í Cali

Next
Next

Eigi skal höggva