Glæpur og refsing í Cali
Hinn norski Theodoricus munkur kallaði Eirík konung blóðöx „fratrum interfector“ (bróðurmorðingja) í Historia sinni um 1180. Forn hefð er fyrir því að líkja því við sifjaspell að myrða nána ættingja („munu systrungar sifjum spilla“ segir í Völuspá). Glæný sjónvarpsþáttaröð, Monsters: The Lyle and Erik Menendez Story, um Erik og Lyle Menendez sem sitja enn í fangelsi fyrir að myrða foreldra sína árið 1989 er á þessum sígildu brautum, tekur sifjaspellalíkinguna reyndar alla leið (sjá m.a. að neðan) sem hefur eðlilega verið umdeilt. Mörkin milli misnotkunar og ástar í þeirri litlu fjölskyldu sem sagan fjallar um eru mjög á reiki og kannski mætti kalla þættina bræðing úr Ödipos-sögunni og Dostojevskí, þeim síðari vegna þess að morðingjarnir í þessum þætti eru líkt og Raskolnikoff aðallega gómaðir vegna játningaþarfar sinnar. Þættirnir eru úr smiðju Ryan Murphy sem einnig gerði hina prýðilegu sannsöguþætti um O.J. Simpson og Versace-morðingjann, og líkt og þar er hann í essinu sínu hér, meðal annars vegna þess að allt þetta mál hefur á sér mikla Hollywood-áferð og Ryan Murphy er því á heimavelli og skilur manna best hið leikræna eðli réttarkerfisins. Hann er bestur í að lýsa brothættu og viðkvæmu fólki sem hefur gengið siðleysinu á hönd og er orðið stórhættulegt en líka sjálft í hættu. Það á við um bræðurna sem eru strax í upphafi sýndir skjóta foreldra sína en síðan fylgjum við þeim nöktum og viðkvæmum í fangelsi þar sem þeir eru dauðhræddir við alla hina morðingjana.
Menendez-bræðurnir reyndu að kenna mafíunni um morðið en voru að lokum nappaðir og dæmdir, þó að það gengi raunar allbrösuglega, meðal vegna þess að faðir bræðranna var hinn mesti harðstjóri og hrotti og var sakaður um að hafa misnotað þá kynferðislega. Seinasti kviðdómurinn var þó þeirrar skoðunar að þeir hefðu aðallega drepið hjónin til að erfa peningana og því sitja þeir nú í lífstíðarfangelsi — í fyrra stigu samt fram önnur fórnarlömb pabbans sem mun kannski hjálpa bræðrunum að komast úr prísundinni og hver veit nema betri þekking á fórnarlömbum kynferðisglæpa hefði áhrif á nýjan kviðdóm. Í túlkun þessarar þáttaraðar koma peningarnir vissulega við sögu, m.a. er sýnt eyðslufyllerí bræðranna eftir morðið, en aðalsöguefnið er þó eitruð karlmennska pabbans og áhrif hennar á bræðurna tvo sem eru gjörólíkir þótt nánir séu og viðbrögð þeirra við ofbeldinu afar mismunandi. Fyrst var ég ekki viss um að þátturinn yrði spennandi vegna þess að réttardramað lét á sér standa en Murphy hefur þá gáfu að skapa spennu með því að kafa æ dýpra ofan í tilfinningarnar á bak við glæpinn, meðal annars með því að segja söguna ólínulega og stundum með sömu aðferð og í Rashomon sem ég mun fjalla um hér á síðunni bráðlega þar sem vitnin fá orðið til skiptis. Auk heldur fáum við reglulega að deila efa annarra persóna um sögur aðalpersónanna, eru þeir kannski að leika? Um 1990 var sannarlega ekki fjölmennur hópur málsmetandi aðila sem hafði vanið sig á að trúa jafnan fórnarlömbum kynferðisofbeldis. Þetta er sem sagt stórt efni og hugsanlega hefur metnaður Murphys aldrei verið meiri en í þessum þætti (þó að sá um Versacemorðingjann hafi verið býsna góður) sem þróast að lokum í vægðarlausa úttekt á erfðamengi misnotkunar innan innilegra sambanda, meiðandi innilokunarkennd í lítilli fjölskyldu, sérkennilegri stöðu hins fullorðna barns sem er haldið í bernskunni og miskunnarleysi þess óttaslegna.
Hinn mikilúðlegi Javier Bardem leikur föðurskrímslið og er afar ógnandi á köflum en hefur þó mikinn charisma. Lengi vel er mamman (leikin af Chloë Sevigny) í skugganum en smám saman kemur hennar kuldalegi þáttur æ betur í ljós og segja má hún og bræðurnir (aðallega Lyle) séu í senn fórnarlömb, vitorðsmenn og gerendur, misnotkunin í fjölskyldunni er gegndarlaus og aðalefni þáttarins sálfræðileg áhrif hennar á ungu mennina sem hegða sér vissulega iðulega eins og spillt dekurbörn meðan foreldrarnir lifa en eru að lokum fyrst og fremst brotnar manneskjur, hvor á sinn hátt. Þeir eru snemma í röðinni komnir í fangelsi þar sem þeir eru auðmýktir margvíslega (þar leika meðal annars tíkallasími og hárkolla hlutverk) en þegar haldið er aftur í tímann um miðbik syrpunnar kemur í ljós að þeir voru kannski fangar alla tíð og líf þeirra gegndrepa af kúgun og fólsku. Cooper Koch og Nicholas Chavez leika bræðurna og það reynir talsvert á þessa ungu leikara þar sem þeir eru smám saman fengnir til að segja sögu sína og kafað er undir gervið, sérstaklega Koch sem leikur yngri og veiklundaðri bróðurinn Erik og fær orðið í miðri seríu í langstysta þættinum af níu (þætti númer fimm) en jafnframt þeim óvæntasta og áhrifamesta sem reynist vera aðeins eitt svið og einn maður við borð í fangelsi að bera vitni um ofbeldið í fjölskyldunni í ríflega hálftíma. Smám saman færist myndavélin nær Erik sem segir rólega frá hræðilegum smáatriðum um það sem pabbinn, mamman og bróðirinn gerðu honum. Við fáum ekkert að sjá nema svipbrigði hans, t.d. þegar hann hikar við að segja frá því sem hann hefur lent í. Ekkert nema andlit túlkandans að ræða eigin ævi en samt magnað sjónarspil.
Fyrir utan leikarana sem fara með hlutverk Menendez-fjölskyldunnar er leikkonan Ari Graynor sem ég hef aðallega séð í gamanmyndum sterk í hlutverki móðurlegs en nett fráhrindandi verjanda bræðranna, einkum undir lok syrpunnar þegar réttarhöldin hefjast. Inn í söguna blandast líka sorgarsaga leikkonunnar Dominique Dunne úr Poltergeist sem var myrt af kærasta sínum löngu fyrr en faðir hennar fylgist með réttarhöldunum og er andstæðingur bræðranna og verjandans, leikinn af Nathan Lane, rödd Tímons úr Ljónakónginum. Ryan Murphy hefur áður gert fjölmiðlafársdrifnum bandarískum réttarhöldum skil í OJ-þáttunum og hefur góða tilfinningu fyrir eðli formsins, gengur reyndar svo langt að setja jarðskjálfta inn í söguna, ekki með öllu ranglega, en sannarlega vindur hann alla hugsanlega dramatík út úr náttúrufyrirbærinu sem verður táknrænt fyrir skjálfta bræðranna sem eru að bugast í fangelsinu og sjö ára bið eftir niðurstöðu í málinu. Skjálftarnir minna á drauma Gísla Súrssonar í Gísla sögu, eins konar djöfullegur fretur úr undirdjúpunum sem áminnir, eltir og hrellir hina sakbitnu bræður.
Þannig að það sem maður hélt að yrði sígilt réttardrama verður smám saman nútímagerð af Karamazov-bræðrunum, epísk ógæfusaga eitraðrar og innilokaðrar fjölskyldu þar sem ást og ofbeldi renna saman í eitt uns ekkert er eftir nema þessir ríku og snyrtilegu en samt skemmdu og kúguðu dekurdrengir sem eiga enga möguleika á að komast úr sinni einkagildru, stöðugt eins og dýr á varðbergi andspænis yfirgangi pabbans og skapsveiflna mömmunnar og allt er þetta svo endurtekið í fangelsinu. Hinir raunverulegu Menendez-bræður segja víst að túlkun Murphys sé fjarri öllu lagi (líkar einna verst atriðin sem snúast um kynferðisleg samskipti þeirra hvors við hinn) en burtséð frá því er samt áleitinn almennur sannleikur í þessari þáttaröð um hvernig fer fyrir fjölskyldum þar sem ofstopinn drottnar yfir öllu.