Flóttagöng og mótorhjól
Í ágústbyrjun fór ég í bíó að sjá Flóttann mikla sem ég sá seinast í sjónvarpi í ágúst árið 1984. Hún gerist eins og mér finnst allir eigi að vita í fangabúðum Þjóðverja fyrir enska offisera í seinni heimsstyrjöld. Búið er að safna saman öllum þeim sem hafa reynt hvað oftast að flýja og þar með hafa Þjóðverjarnir gert þau mistök að búa til hóp flóttasérfræðinga sem að sjálfsögðu hefjast strax handa við að undirbúa stærstu flóttatilraun sögunnar, undir forystu Bartlett sem leikinn er eftirminnilega af Richard Attenborough. Sagt er í upphafi að þetta sé sannsöguleg mynd sem hún er í stórum dráttum, einkum miðað við að þetta er stórmynd frá Hollywood ársins 1963. Mörgu er þó hnikað til en ekki því að þrír fangar sluppu, tveir til Svíþjóðar og einn til Spánar. Svona myndir tengi ég eðlilega við pabba heitinn en þessi tiltekna mynd höfðaði raunar líka til mömmu ef ég man rétt; fjölskyldan sat öll límd við hana fyrir 40 árum. Þegar ég sá myndina aftur núna í bíó kom í ljós að ég mundi aðallega eftir seinni hluta myndarinnar sem er harmræni hlutinn, ekki síst tragíkómíska atriðinu þar sem þýskur tvífari rithöfundarins Tolkien gabbar einn af lykilmönnunum í flóttanum til að afhjúpa sig. Fyrri hlutinn er meira eins og gamanmynd, sagði frændi minn sem var með mér og er ansi naskur rýnir fyrir sinn aldur. Hann er sem betur fer svo vel upp alinn (m.a. af mér) að honum finnst myndir frá 7. áratugnum ekki of hægar. Verkfræðingablæti er líka áberandi í myndinni, mikil áhersla er á tæknilega útfærslu flóttans, sama og gerði hasarbækur Frederick Forsyth spennandi á sínum tíma. Eitt af því sem ég mundi vel er hvernig fangarnir fóru að því að losa sig við alla moldina sem gangnagerðin ruddi úr vegi.
Steve McQueen er í aðalhlutverki; hann leikur fanga sem notar mótorhjól í flóttanum og voru þau atriði öll sett í myndina vegna þess að McQueen var liðtækur á mótorhjólum. Steve varð aðeins fimmtugur enda keðjureykti hann sígarettur, reykti víst líka gras og drakk talsvert en aðalorsökin var þó asbest sem hann vann við á unga aldri. Það þarf ekki að orðlengja að McQueen var á sínum tíma einn mesti töffari kvikmyndaheimsins að James Dean gengnum og hann mun hafa verið hæstlaunaði leikari heimsins upp úr fertugu. Sumir afkomendur stórstjörnunnar fetuðu í fótspor hans, m.a. sonurinn Chad sem andaðist um daginn og var einn af illu Cobra Kai gaurunum í The Karate Kid og sonur Chad er nafni Steve sem lék viðkvæman píanódreng í sjónvarpsþáttunum Everwood í upphafi aldarinnar. Ég er ekki frá því að Steve heitinn líkist aðeins sumum ættingjum mínum, t.d. Íslandsmeistaranum í 4 x 400 m boðhlaupi karla, en söguþráður hans er í raun frekar laustengdur við meginefni myndarinnar, þ.e. flóttann mikla. Þar eru Attenborough og Gordon Jackson úr Húsbændum og hjúum (sjá að neðan) í aðalhlutverki en tveir félagar Steve úr Hetjunum sjö, Bronson og Coburn, eru líka áberandi og til að auka líkindin með myndunum tveimur enn frekar er eftirminnilegur marsinn í myndinni eftir Elmer Bernstein.
Steve McQueen höfðaði mjög til uppreisnargjarnrar æsku og á 7. áratugnum var engin stemming lengur fyrir alvondum Þjóðverjum. Nokkrir illir Gestapomenn sjást en fangaverðirnir eru flestir frekar sympatískir, m.a. yfirmaðurinn Luger. Engin kona sést í myndinni fremur en ýmsum öðrum spennumyndum síns tíma. Kannski er það eins gott miðað við hvernig konur voru oftast skrifaðar inn í slíkar myndir. Hins vegar eru þar sýnd mörg falleg sambönd karlmanna, m.a. vinátta svartamarkaðsbraskarans Hendley (James Garner) og sjóndapra falsarans Blythe (Donald Pleasence) og eins gröfukóngarnir Willie og Danny (Charles Bronson og John Leyton sem enn lifir) sem eru stöðugt að bjarga lífi hvor annars. Slík sambönd eru mörg í gömlum stríðsmyndum löngu áður en hugtök eins og „bromance“ urðu til. Frekar steikt atriði er í miðri mynd sem tengist bandarískri þjóðerniskennd; kannski til að breiða yfir að myndin fjallar aðallega um Breta.
Ógetið er leikarans James Donald sem er í nokkurn veginn sama hlutverki í þessari mynd og Brúnni yfir Kwai-fljótið. Donald hafði svo traustvekjandi fas að hann var iðulega látinn leika lækna í Hollywood-myndum. Ljóshærði skoski leikarinn David McCallum (að ofan við hlið Attenboroughs) var mikil stjarna á þessum tíma í sjónvarpsþáttunum The Man from U.N.C.L.E. þar sem hann lék Rússa. Seinna dagaði hann uppi í bandarísku sjónvarpi en hann varð mjög langlífur þar vestra (öfugt við persónu hans í myndinni). Kvikmyndahúsgestir þetta ágústkvöld voru margir á efri árum, jafnvel eldri en ég. Troðfullt var á sýningunni þó að þessar retró-sýningar hafi lítið verið auglýstar. Ekki tímdu þeir íslenskum texta á myndina sem verður að teljast nokkur synd þó að ég hafi skilið allt. Gott er hins vegar að hafa loksins séð þessa merku mynd í kvikmyndahúsi eins og ég ímynda mér að foreldrar mínir hafi gert fyrir 60 árum.