Síungt og sveigjanlegt þjóðartákn

Nú í sumar kom út falleg bók um fjallkonuna sem má kallast vel til fundin afmælisgjöf til þjóðarinnar á 80 ára lýðveldisafmælinu sem var í staðinn að mestu án veisluhalda, ólíkt ýmsum fyrri afmælum. Bókin er eiguleg og gott dæmi um að það þarf ekkert að vera tómahljóð í hátíðlegu efni. Þar má finna ljóð flutt á ýmsum þjóðhátíðardögum (sumum man ég eftir) og myndir af fjallkonum þeim sem flutt hafa hin árvissu 17. júní ávörp í ljóðformi síðan 1947, íklæddar skautbúningi. Vel er fundið til að ramma þetta með fjórum greinum fræðimanna í myndlist, ljóðlist, sagnfræði og búningafræðum. Þannig þótti mér ritgerð Guðmundar Odds (Godds) Magnússonar um upphaf fjallkonubúningsins á 19. öld afar fróðleg og þyrfti helst að fara á vísindavefinn líka í einhverri mynd (núverandi grein þar er óþarflega stuttaraleg).

Ragnheiður Kristjánsdóttir rekur áhrif frá byggðum Íslendinga í Vesturheimi á táknið sem minnir okkur á að samband íslenskrar og vestur-íslenskrar menningar hefur aldrei verið einhliða og rekur líka upphaf ávarps fjallkonunnar eftir stofnun lýðveldis. Þar tókst ekki betur til en svo að fyrstu fjallkonunni var ekið til Þingvalla en hún steig þó aldrei á svið! Áslaug Sverrisdóttir handverskssagnfræðingur varpar ljósi á skautbúninginn sem fjallkonan klæðist. Ekki var mér kunnugt um að sami búningur hefði verið notaður seinustu 30 árin og er sóttur á Árbæjarsafn daginn fyrir þjóðhátíð. Gjörólíkur er búningur fjallkonu Akureyrar sem ég hef aldrei fengið að sjá en sem kunnugt er þá hefur Menntaskólinn á Akureyri lengi verið mjög miðlægur í þjóðhátíðarfagnaði nyrðra og nú Verkmenntaskólinn líka. Skautbúningurinn er auðvitað gott dæmi um tilbúna hefð; vissulega vísar hann í eldri menningu en er skapaður í miðri sjálfstæðisbaráttu handa Íslendingum framtíðarinnar í sjálfstæðu landi.

Silja Aðalsteinsdóttir ræðir ljóðaflutning þjóðhátíðardagsins. Jóhannes úr Kötlum og Hulda unnu verðlaunakeppnina um þjóðhátíðarljóðið og voru bæði ljóðin flutt á Þingvöllum á lýðveldisdaginn, Jóhannes flutti sitt sjálfur en ljóð Huldu var flutt af Brynjólfi Jóhannessyni stórleikara. Lög Þórarins Guðmundssonar og Emils Thoroddsen voru þegar samin og voru lögin því líka sungin á þessum hátíðisdegi. Svo sorglega vildi til að Emil frændi minn veiktist á hátíðinni og var örendur innan mánaðar frá þessu mikla augnabliki í lífi hans. Ekki vissi ég að Tómas Guðmundsson hefði skipað svo veglegan sess á fyrstu þjóðhátíðardögum eftir lýðveldisstofnun en það er ekki fyrr en síðar að farið er að flytja ljóð eftir nýtt og nýtt skáld hvert ár. Ekki kom að konu fyrr en árið 1990! Síðan 2005 hefur reglan verið sú að nýtt ljóð er flutt ár hvert og hafa mörg þeirra verið ansi nýstárleg hin síðari ár. Silja rekur þetta allt vel og fallega.

Íslendingar hafa aldrei orðið jafn handgengnir þjóðbúningum og t.d. Norðmenn og Svíar. Þeir eru satt að segja afar fáséðir aðra daga en 17. júní. Í hérlendri opinberri umræðu hefur líka vaðið uppi fólk sem hefur seinustu árin gert fésbók að samfélagsrotþró sem heiðvirt fólk forðast og finnst iðulega tilvalið að hæðast að öllu þjóðmenningarlegu. Verður þess lítið saknað af opinberum vettvangi.

Previous
Previous

Spegilmynd útlagans

Next
Next

Flóttagöng og mótorhjól