Flókið einkalíf predikara
Ekki kann ég við að leyna því fyrir lesendum þessarar síðu að slatti af menningarneyslu ársins 2024 fór fram á netsíðunni Youtube og þar sá ég m.a. heimildarmynd um breska höfundinn C.S. Lewis (1898-1963) og flókið einkalíf hans (eina af mörgum; ég mun ekki fjalla um það allt hér). Lewis sóttist eitt sinn eftir því að verða prófessor í ljóðlist við Oxford en tapaði kjörinu fyrir C. Day Lewis, föður leikarans Daniels. Vonandi vissu allir hvaða Lewis þeir voru að kjósa. Lewis unni Oxford heitt en var ekki vinsæll af kollegum sínum, hafði unnið sér til óhelgi að verða mikils metinn af alþýðu manna. Það var að lokum Cambridgeháskóli sem gerði höfundinn að prófessor þegar hann var kominn á efri ár en mestallan ferilinn var hann aðeins „fellow“ við Magdalenuskólann í Oxford. Lesendur mínir vita sjálfsagt að Lewis var norður-írskur, kannski síður að hann var alinn upp í lúterstrú, gerðist svo guðleysingi en endurheimti að lokum trúna og gerðist kristinn fyrirlesari, eiginlega hálfgerður leikmannapredikari.
Það er þó engin ástæða til að gera lítið úr trúboði Lewis. Hann var enginn Benny Hinn en sló í gegn meðal annars vegna þess að hann hætti aldrei að hugsa og skrifa eins og sannur heimspekingur og rökræða sinn málstað. Auk heldur reyndist hann víðsýnni en margir halda (þrátt fyrir meðferðina á Susan í Narníubókunum) og það kom m.a. í ljós þegar hann gekk að eiga bandaríska skáldið Joy Davidman sem var bæði gyðingur, trúleysingi og kommúnisti. Þau voru lengi fyrst og fremst vinir en Lewis giftist henni til að útvega henni breskt landvistarleyfi. Þegar Davidman varð síðan dauðveik fór ástin samt að blómstra og hjónabandið hætti að vera formsatriðið eitt. Joy lifði lengur en flestir áttu von á og Lewis var eins konar hjúkrunarkona hennar allan þann tíma. Hann varð í kjölfarið einna fyrstur höfunda til að skrifa bók um sorgina sem fór illa með manngarminn þannig að hann lést fyrir aldur fram, löngu á undan byttunni bróður sínum.
Þeir bræður deildu lengi heimili með eldri konu sem var móðir góðvinar Lewis úr heimsstyrjöldinni sem hafði fallið í þeim hildarleik. Lewis hafði lofað að taka móður vinarins að sér ef illa færi sem hann og stóð við en óvíst er hvort þau voru beinlínis par þó að flestir haldi það núna. Á sínum tíma var samband þeirra afar leynilegt og margir héldu að frú Moore væri móðir Lewis en ekki ástkona (þau má sjá á myndinni að ofan). Hún var 25 árum eldri en hann, svipað og frú Macron og það var ekki fyrr en eftir andlát frú Moore að hann kynntist Joy (við hlið Lewis hér að neðan) sem var þá í raun hans seinni eiginkona. Af þessu öllu má ráða að Lewis var ekki hefðbundinn í einkalífinu, sennilega var hann alla tíð frjáls andi. Eins og alkunna er voru þeir JRR Tolkien (heiðursfélagi Hins íslenska bókmenntafélags ásamt öðru) miklir vinir milli 1930 og 1950 en allt líf þess síðarnefnda fór fram í vísitölufjölskyldu. Þegar Lewis kynntist Joy höfðu þeir Tolkien fjarlægst en sambandið við hana bar ekkert sérstaklega ábyrgð á því öfugt við það sem margir halda þó að fjarlægðin á milli þeirra yrði Tolkien enn augljósari þegar hann frétti tiltölulega seint og síðar meir að Lewis væri giftur.
Ekki lifir allt frægt fólk spennandi lífi. Eftir lát Joy stríddi Lewis við veikindi og hann dó eiginlega í kyrrþey, m.a. vegna þess að hann skildi við heiminn daginn sem Kennedy var skotinn í Dallas og sama dag lést einnig hinn frægi höfundur Aldous Huxley. Bandaríski heimspekingurinn Peter Kreeft mun hafa samið bók þar sem Kennedy, Huxley og Lewis hittast nýlátnir í framhaldslífinu og ræðast við í hreinsunareldinum.