Geimkúrekar í Paradís
Seinasta kvikmyndin sem ég sá árið 2024 var hin mexíkóska Og mamma þín líka (Y tu mamá también á frummálinu) sem er örugglega talin sígild í hinum spænskumælandi heimi og það var ánægjulegt að sjá hana aftur nýkomna á Netflix eftir öll þessi ár. Fyrsta skiptið var á spænskri kvikmyndahátíð árið 2001 eða 2002 þar sem við bróðir minn vorum þeir einu í salnum sem ekki kunnum spænsku og þess vegna þeir einu sem hlógum ekki þegar einhver í myndinni sagði „frutilupe“ (sem ég veit ekki enn hvað merkir en var greinilega drepfyndið); á hinn bóginn gátum við tekið þátt í gríninu þegar önnur aðalpersónan æpir „mamacita“ þegar leikar æsast. Myndin fjallar um Tenoch og Julio sem eru mexíkóskir gaurar (cabrón á frummálinu) um tvítugt á leið í háskóla sem býðst óvænt að taka gifta konu um þrítugt með sér í strandferð. Þeir eru leiknir af Diego Luna (Andor!) og Gael Garcia Bernal sem báðir hafa síðan orðið frægir leikarar og þessi fyndna og hressandi en alls ekki auðmelta mynd ber kannski ekki síst ábyrgð á því og verður ævinlega meðal þess besta sem þeir hafa gert þó að þeir hafi ekki verið iðjulausir síðan. Diego og Gael voru miklir vinir á þessum tíma og það finnur áhorfandinn (og vonar að þeir séu það enn).
Ég ætla ekki að rekja söguþráðinn út í hörgul; allir eiga að hafa séð þessa mynd. Ef ekki áður, þá núna. Þetta er ekki auðgleymanleg kvikmynd þannig að ég mundi hana nokkurn veginn alla. Í upphafi erum við kynnt fyrir vináttu félaganna Tenoch Iturbide og Juliu Zapata (nöfn sem tengjast sögu Mexíkó og er það varla tilviljun) sem kalla hvor annan „charolastra“ (stjörnukúreki) en það er eins konar „fight club“ unglingsdrengja með ströngum reglum. Tenoch er greinilega forríkur en Julio er úr blokk eins og ég. Vinátta þeirra er frekar líkamleg (það er fátt tengt neðri hluta líkamans sem er ekki rætt í þessari mynd) og á nánast heima á sviði id-sins eins og kemur æ betur á daginn. Þeir hitta hina spænsku Luisu í brúðkaupi (þrítugu konuna!) og líkt og fólki hættir til fara þeir að besservisserast um hvað ferðamenn eigi að sjá í heimalandi þeirra; í þessu tilviki er það strönd sem heitir „munnur himins“ og er að sögn „betri en Paradís“ en er samt ekki til í raun og veru heldur bara della úr drengjunum. Þeir segjast vera á leið þangað en voru það auðvitað ekki fyrr en Luisa sem er í tilfinningalegri sálarkreppu að gefnu tilefni ákveður að taka boðinu um að koma með þeim eftir að hafa fengið ótíðindi að heiman. Þeir leggja því af stað og að lokum ramba þau á strönd sem er ekki ósvipuð þeirri tilbúnu sem þeir lýstu fyrir henni. Á leiðinni þróast samband þeirra allra í kynlífssamband á frekar handahófskenndan hátt en líklega ekki síst fyrir tilstilli Luisu sem virðist mjög tilbúin í djarfar samræður við gaurana og að lokum meira. Alvitur sögumaður fer með þessa sögu, ekki neitt sem ég mæli með í kvikmyndum yfirleitt, en þessi tiltekni hefur sitt gildi þar sem hann veit hvernig fer fyrir öllum, jafnvel aukapersónum sem tengjast sögunni lauslega, og er ófeiminn við að segja okkur það og auk þess tengir hann allt sem gerist við mexíkósk stjórnmál sem annars eru fjarri en það veitir okkur ákveðna innsýn í tengsl hins persónulega og hins pólitíska.
Ótíðindin sem Luisa fær í símanum tengjast framhjáhaldi eiginmannsins sem er sjálfumglaður náungi eins og margir sem maður hitti á börum bæjarins í gamladaga. Önnur ótíðindi eru að hún er með krabbamein að breiðast út um allt þó að það viti enginn og þessi ferð með Tenoch og Julio er leið deyjandi konu til að gleyma þessu smástund eða kannski til að tefla Eros gegn ofurvaldi Þanatos. Auðvitað sér hún strax gegnum piltana sem höfðu daðrað klaufalega við hana í fjölmennu brúðkaupi þar sem forsetinn sjálfur er staddur en langar samt greinilega til að eyða lokadögunum með ókunnugum fjörkálfum og öðlast ef til vill nýja reynslu. Er þetta eitthvað sem maður myndi sjálfur gera undir slíkum kringumstæðum? Þessi spurning hlýtur að kvikna þegar maður er álíka gamall og pabbi var þegar hann dó frá manni og krabbinn (eða einhver önnur óvættur) getur mætt hvenær sem er á staðinn. Ég get ekki beinlínis svarað spurningunni þó að ég eigi raunar sjálfur vini sem eru talsvert yngri en ég en myndinni tekst að gera Tenoch og Julio afar aðlaðandi þó að þeir séu líka hálfvitar þannig séð, aðallega aldursins og vanþroskans vegna. Við skiljum samt frá upphafi að það er ekki djúpt á því og í raun eru þetta fínir náungar.
Það er Lucia sem er feig og í viðkvæmustu stöðunni þó að það viti enginn nema hún sjálf. Í samskiptum við piltana og aðra er hún hins vegar ákveðin og nær fljótt öllum völdum í ferðinni, meðal annars með því að hleypa bæði Tenoch og Julio upp á sig (orðið „elskast“ ætti ekki við um það sem gerist). Myndin fjallar að verulegu leyti um kynlíf án þess að taka það alvarlega nema sem hluta af tilfinningum sem það vissulega er oft; hún hefst þannig á Tenoch að ríða kærustunni og í næsta atriði fær Julio sinn skammt með sinni. Síðan reyna þeir báðir að halda framhjá kærustunum sama kvöld eftir að hafa svarið þeim eilífa tryggð og heimtað hið sama á móti og löngu síðar kemur í ljós að þeir hafa báðir legið kærustu hins. Þegar Lucia hefur tekið öll völd sést vel hversu grænir og minnimáttar drengirnir eru. Þeir eru algerlega á valdi fýsna og hormóna og eru fljótir upp og niður, eins og sést í einu besta atriði myndarinnar þegar Tenoch rýkur úr bílnum í fýlukasti, ætlar þó samt að klifra upp í nálægt tré til að sjá hvað hin eru að gera (spoiler: þau eru að ríða) en getur að sjálfsögðu ekkert klifrað og skrámar sig í staðinn. Strákgreyið kann eiginlega ekki neitt, er alinn upp af fóstru sem kemur fram við hann eins og stórt barn og færir honum meðal annars símann þegar sá er að hringja við hlið stráksins. Að lokum þarf Luisa að sækja hann og sleikja úr honum fýluna.
Það sem við vorum aftur á móti kynnt fyrir í upphafi er lífsgleði drengjanna sem eru æstir í fíkniefni, partí og stelpur og eyða mánudögum m.a. í að rúnka sér saman ofan í sundlaug í ríkmannlegum klúbbi þar sem þeir fá að halda til á frídögum og útrásina fá þeir með því að nefna í leiðinni konur sem þeir hafa hitt og langar mikið í (meðal annars Luisu sjálfa og auðvitað mexíkósku leikkonuna Sölmu Hayek). Við erum líka kynnt fyrir nánast óyfirstíganlegum stéttamun þessara bestu vina í landi félagslegra andstæðna. Tenoch er ríkur en Julio ekki og Tenoch lyftir salernissetunni heima hjá Julio með fótunum og Julio kveikir á eldspýtu þegar hann hefur fretað heima hjá Tenoch. Tenoch er líka miklu hávaxnari en Julio eins og oft er raunin í löndum þar sem stéttamunur er mikill; maður ímyndar sér að forfeður Tenochs hafi einfaldlega öldum saman fengið mun meira að éta en forfeður Julios. Á ferðinni sofa þeir alltaf saman í herbergi en Luisa sér, jafnvel þegar úlfúð er komin í sambandið eftir að Luisa hefur ákveðið að forfæra Tenoch sem leiðir til átaka milli félagana, og að lokum heillar nætur rifrildis og yfirgengilegrar afsökunarbeiðni.
Að lokum sættir Luisa þá og leiðir síðan bókstaflega saman uns þeir fara að kyssast innilega (og eflaust meira sem ekki er sýnt) sem var sannarlega óvænt árið 2001 en væri það ef til vill ekki lengur. Hómóerótík var einstaklega vandræðaleg í gamladaga eins og ég varð vitni að þegar ég sá Brokeback Mountain árið 2005 ásamt heilum sal af vandræðilegum flissandi ungmennum. Áhorfendur á spænskri kvikmyndahátíð voru auðvitað öðruvísi og ekkert fliss heyrðist í salnum. Samt ætti auðvitað að vera ljóst frá upphafi að Julio og Tenoch eru aðalpersónan hvor í lífi hins, óaðskiljanlegir félagar sem hafa brúað stéttagjána, að minnsta kosti tímabundið. Þegar Luisa hefur dregið fram að þeir hafi legið hvors annars kærustu og þeir eru farnir að sættast á ný kalla þeir hvor annan „mjólkurbræður“ og skömmu síðar breytir hún kynlífi þeirra þriggja (svokölluðu „threesome“; ég kann því miður ekki íslenska orðið) í ástarleik Julios og Tenoch einna. Þegar þeir kyssast finnur maður glöggt að þetta er líklega ekki glæný hugmynd fyrir hvorugum ef nóg djúpt væri kafað. Þess vegna virkar einkennilegt árið 2025 að sjá þá vakna allsbera saman, kippast við og flýta sér hvor í sína átt. Geta þessir perluvinir ekki einu sinni rætt málið? Einkum í ljósi þess að þeir eru vanir að vera naktir saman og einn úr genginu þeirra (kallaður Daniel) er þegar kominn úr skápnum og þeir algerlega sáttir við það. En auðvitað var maður uppi árið 2001 og man hvernig hlutirnir voru þá.
Það sem þótti ekki síst athyglisvert við myndina á sínum tíma var hvernig hún nær að vera bæði gróf og saklaus sem minnir okkur á að tengsl kynlífs og hins líkamlega og hins að vera óspjallaður af heiminum og klækjum hans og illsku eru eiginlega næsta lítil og veraldarviska snýst um eitthvað annað. Julio og Tenoch eru með kynlíf á heilanum (og öll þrjú reykja slatta í myndinni), samt fer þannig að þegar Luisa nefnir endaþarmsmök bregður þeim og bíllinn hans Julio bilar um leið, líkt og hann sé sálufélagi drengjanna. Þá kemur fram þegar hún forfærir þá að kynlífið endist varla nema 10 sekúndur eða svo; þeir eru enn óreyndir. Hún rænir þá hugsunarlausu sakleysi og kannski er téð sakleysi einmitt umhverfið sem hið leynihómóerótíska samband þeirra þreifst í. Þegar það hefur verið staðfest er því lokið um leið. Við sjáum þá hittast á kaffihúsi í lokin og sögumaður tekur fram að þeir hafi aldrei hist aftur. Það eru lokaorð myndarinnar.
Ástæðan gæti verið sú að þeir elskuðu hvor annan á sinn gauralega hátt, kynlíf þeirra merkir þess vegna meira en ekkert og er þar með ónefnanlegt og ekkert framhald mögulegt. Eins og sögumaðurinn segir í enskum texta myndarinnar (ég fann illu heilli ekki þann spænska): „Julio and Tenoch told Luisa many more anecdotes. Each story confirmed the strong tie that united them, the link that made them into a solid and inseparable nucleus. The stories they told, though adorned with their own personal mythologies, were true. Though as always happens, it was an incomplete truth.“ Kannski var þetta ekki samband sem þoldi grundvallarbreytingar vel. Hið sama á auðvitað við um Luisu sem er látin úr krabbameini þegar hér er komið sögu og það hefur of seint runnið upp fyrir þeim báðum að fyrir henni var tilgangur ferðarinnar annar en þeirra. Tenoch og Julio halda í lokin hvor sína leið, æskuvinir en ekki færir um að eiga fullorðinssamband— ekki er það þó út af kærustunum því að þau sambönd eru löngu búin líka og voru sennilega ekki jafn sterk. Mér fannst þessi vinslit afar sorgleg þegar ég sá myndina fyrst en núna, 23 árum síðar, eiginlega ekki lengur því að sum sambönd eiga sennilega ekki heima í fullorðinsheiminum og það er ekki sorglegt við að samskiptum ljúki heldur aðeins eðli lífsins sem er tímabundið eins og myndin snýst um.