Sextuga konan

Allir sem sóttu tíma í 19. aldar bókmenntum hjá Skorra forðum muna þegar fram kom að rithöfundurinn Balzac hefði fundið upp þrítugu konuna í bókmenntum snemma á 19. öld en Gestur Pálsson síðan flutt hana til Íslands (í smásögunni „Vordraumur“). En í ítalska Netflix-þættinum Inganno (Svikin) erum við kynnt fyrir glænýrri bókmenntapersónu, sextugu konunni — spurning hvaða íslenskur karlkyns höfundur ætlar nú að flytja hana til Íslands; ég giska á Laxnesstvíburana Hallgrím eða Kalman. Í þættinum heitir sextuga konan Gabriela og er ekki prestsfrú en á hins vegar hótel, nútímakirkju semsagt, er nett og vel til höfð, líkist Lauren Bacall heitinni svolítið, býr í ótrúlega fallegu ítölsku húsi (sjálfu hótelinu sem er tímabundið lokað fyrir gestum) við Amalfiströndina með útsýni yfir myndarlegt fjall (Vesúvíus?) og á þrjú fullorðin börn. Hún verður í upphafi þáttar fyrir þeirri (vissulega tilkomumiklu) lífsreynslu að sjá allsnakinn mann stinga sér til sunds sem eins konar sextugsafmælisgjöf frá æðri máttarvöldum en er annars hunsuð af eigin fjölskyldu á þessum merkisdegi (litli man ekki einu sinni daginn) og sama kvöld birtist sá sami sundgarpur og biður hana um greiða. Þá strax reynist maðurinn æði framur og allgrunsamlegur — og dregur lítið úr því eftir því sem fram líða stundir. Náunginn hittir þannig táningsson konunnar á bar strax þetta fyrsta kvöld nýkominn frá mömmunni og kyssir stráksa á munninn eftir að sá hefur í gríni giskað á að folinn sé fíkniefnasali; það er greinilega meiri hressleiki í gangi á ítölskum börum en íslenskum. Skömmu síðar kemur í ljós að flagarinn býr á bát og á ekki aðeins tvo síma heldur líka byssu þannig að mann fer að gruna margt og skömmu síðar er hann á fullu að halda við mömmuna nánast fyrir framan drenginn og við fáum sem sagt að sjá ítrekaðar ástar- og kynlífssenur af öllu tagi og ýmsum áttum undir söng Ninu Simone með leikkonu á sjötugsaldri ýmist berbrjósta eða allsnaktri sem er fremur sjaldgæft í sjónvarpsheiminum en kannski tímabært. Ekki vil ég vera „ageist“ þótt fólk á mínum aldri hafi kannski ekki gott af svona þáttum; það gæti fengið hugmyndir.

Ítalski folinn er goðsagnavera líkt og einhyrningar forðum og í þessum þætti nefnist hann Elia (þó að ég hugsaði alltaf um hann sem Marco sem mér finnst vera helsta folanafnið), er funheitur og sérfróður í fýlustjórnun og ýmsum öðrum tegundum stjórnunar. Sonurinn Nico sem á að vera táningur þó að leikarinn sé augljóslega eldri (sjá að neðan) verður sjálfur skotinn í folanum; hann er yfirleitt vel málaður og afar litríkur í klæðaburði (maður bíður spenntur eftir að sjá hvaða litur kemur næst) en reynist þó ekki með öllu fyrisegjanleg klisja. En Nico sem sagt rekst á folann á nærbuxunum einum (eftirlætisklæðaburður hans) heima hjá sér og klagar í fráskilinn pabba og fv. mann Gabrielu sem reynist hafa stundað framhjáhald en telur sig samt geta siðað fyrrverandi konuna til. Hún fer í kjölfarið að flagga flagaranum framan í hin fullorðnu börnin sem stimpla manninn sem ósvífinn flagara í peningaleit og það sem upphaflega var eldheit ástarsaga um sextugu konuna fer að snúast um peninga, kennitöluflakk, grunsamlega fortíð og svik og þar er elsti sonur konunnar í aðalhlutverki; hann virðist í fyrstu glæsilegur og vel klæddur tuddi, augljóslega sonur föðurins og með eigin beinagrindur í skápnum (í líki lögreglumanns sem hann heldur við) en í raun kannski fyrst og fremst bældur og hræddur. Dóttirin er iðin á samfélagsmiðlum, á framabraut, á dularfullan baneitraðan símakærasta og er í upphafi heldur mildari við mömmuna (það reynist eiga sér sálfræðilegar skýringar). Fullorðnu börnin sameinast þó að lokum um að elta flagarann (á tímabili virðist þetta allt ætla að þróast út í farsa) og upplýsa mömmuna síðan um að Elia haldi við aðra eldri konu — sem reynist svo vera mamma hans. Henni líkar ekki heldur við sambandið. Enn ein kona birtist svo, sú ung og greinilega úr fortíð flagarans. Gabriela situr uppi með síendurnýjaða vantrúna á að svona ungur maður geti hugsanlega verið raunverulega hrifinn af henni enda trúir enginn annar á manninn.

Margt er fallegt í Ítalíu en þrátt fyrir endalaus íðilfögur drónaskot af Amalfi fer heldur að draga þrótt úr þættinum. Hann er skemmtilegur í byrjun en fer síðan að sligast undan flækjum, framhjáhöldum, lygum og leyndarmálum sem minna stundum á endalausar amerískar sápur. Það eru eiginlega of mörg plott í gangi og sum afar laustengd aðalefninu og hefðu þurft rækilegri útfærslu til að verða áhugaverð. Elia er auk heldur svo augljóslega varasamur pappír og laus við hreinskilni að spurningin um hvort sextugar konur geti yfirleitt treyst þrítugum mönnum kemur í raun aldrei upp af neinni alvöru. Greyið Gabriela grípur hann í lygum og svikum aftur og aftur og aftur en hann heimtar bara að hún treysti honum og konugarmurinn verður að fá andartaks útrás með því að snúa í svipinn aftur til gamla sjötuga eiginmannsins og myrða rottu sem er að flækjast um á hótelinu (og er ekki góð auglýsing fyrir ítölsk hótel). Svo reynir vel klæddi hræddi og bældi sonurinn að svipta hana sjálfræði á þeirri forsendu að sambandið sanni að hún hafi misst vitið; maður hefur samúð með honum og lögguvini hans en þetta er ekki vel gert við mömmuna. Ekki er heldur sniðugt af manni sem lifir tvöföldu lífi að kyssa viðhaldið utandyra; þetta ættu svikulir að læra í námskeiðinu framhjáhald 101.

Í lokaþætti Inganno virðast flestar persónunar í fyrstu ætla að sameinast gegn flagaranum og fjárglæframanninum undir æsandi fiðlutónlist en þó að hann sé að lokum afhjúpaður merkir það ekki að hamingja sextugu konunnar verði meiri við þá afhjúpun og hún ákveður að lokum frekar óvænt að halda sig samt við manninn sem veitir henni ást og kynlífsunað þó að hann sé hraðlyginn hrappur sem hefur svikið bæði ástkonur og viðskiptafélaga; hún einfaldlega hættir að hugsa í tryggð og hjúskap og öllum þessum gömlu hefðum (kannski var Hallgerður á Hlíðarenda kominn á þennan stað með Hrappi). Skilaboð þáttarins virðast þannig vera þau að hinar fornu og fastmótuðu stofnanir samfélagsins og þeirra siðaboðskapur veiti sextugum konum ekki hamingju og ég verð að viðurkenna að mér fannst þau ansi forvitnileg enda að nálgast sextugt og aðeins tólf árum yngri en leikkonan. Þegar ég var að bíða eftir að Inganno læki endanlega á gólfið rétti þátturinn sig þannig aðeins við á lokasprettinum.

Previous
Previous

Skáld eðlileikans

Next
Next

Dvergar girnast gull