Dvergar girnast gull

Eftir nokkurt hlé hef ég nú á nýjan leik horft á Wagneruppfærslur frá Müpa í Budapest í góðra vina hópi. Uppfærslan er naumhyggjuleg og á mörkum þess að vera konsert fremur en leikrit en þó eru í henni margar stóráhugaverðar lausnir. Það á t.d. við í Siegfried þar sem skjálistin er nýtt mjög vel, m.a. við að búa til vafurlogann á Hindarfjalli og auðvitað drekann Fáfni. Eins og fram kemur í óperunni — eða tónlistardramanu því að Wagner taldi sig réttilega vera að gera eitthvað allt annað en óperuhöfundar 19. aldar — er heimsmynd Wagners sú að í jörðu búa dvergar eða Niflungar, á jörðinni risar en guðir á himnum. Á mennska menn er ekki minnst og raunar eru sárafáir söngvarar í hverjum þætti Niflungahringsins. Í Siegfried eru það sjálf hetjan, dvergarnir Mime og Alberich og guðinn Wotan sem syngja langmest en síðan Brunhilde og Erda í lokin.

Eiginlega finnst mér Mime vera aðalpersónan í þessum hluta hringsins en hann er þar í svipuðu hlutverki og Reginn í norrænum heimildum, fósturfaðir Siegfried sem þráir Niflungahringinn og gullið og vill nota Siegfried til þess en fjölskylduböndin við Fafne eru ekki til staðar og þar með ekki hefndarþorstinn sem við sjáum í eddukvæðum. Auk heldur setur Wagner inn gátukeppni við Wotan – annað þekkt fyrirbæri í eddukvæðum – þannig að Mime er þá fyrst og fremst að leysa eigin höfuð. Samband þeirra Siegfried minnir stundum á heimilisofbeldi, Siegfried sýnir honum hroka og yfirgang og raunar öllum öðrum líka sem hann hittir áður en hann vekur Brunhilde. Fléttan snýst um að hann þurfi að kynnast óttanum en manni finnst eiginlega hann eiga margt fleira ólært. Í Budapest er hann leikinn af þrifalegum söngvara á fimmtugsaldri sem syngur afar vel en er ekki mjög sannfærandi sem vanþroskaður unglingur.

Fyrir utan Mime er Wotan mikilvægasta persónan í Siegfried og líkt og Mime er hann eins konar föðurímynd Siegfried sem hann elskar umfram sjálfan sig. Fafner verður svo þriðja föðurímyndin, sunginn í þessari uppfærslu af tilkomumiklum bassa sem á einum tímapunkti notar gjallarhorn til að verða enn áhrifameiri. Mime notar aftur á móti brúðu sem segir sannleikann um hugsanir hans og stefnir honum þar með í glötun. Leikrænu lausnirnar eru þannig ekki svo óramargar en snjallar og frumlegar og áhrifamiklar. Eins eru hrafnar Óðins afar óhugnanlegir á sviðinu en ein söngkona túlkar igðurnar (hér waldvogel) sem koma Siegfried til bjargar og eru meðal fallegri söngatriða í Siegfried sem er annars hugsanlega síst eftirminnilega óperan af hringnum þó að í henni séu ýmis góð stef. Ég hef áður nefnt að Wagner fann eiginlega upp kvikmyndatónlistina og var þannig mjög á undan sínum tíma; John Williams væri óhugsandi án hans.

Ég þyrfti sennilega meiri tíma til að velta fyrir mér texta Wagners. Hann er afar sjálfstæður gagnvart sínum miðaldafyrirmyndum, er greinandi og skapandi þegar kemur að efninu en líka málnotkuninni, þýska hans er eiginlega tungumál sem hvergi annarstaðar er til og hann stuðlar jafnan eins og enginn sé morgundagurinn. Bæði vegna málnotkunarinnar, tónlistarinnar og hreinlega lengdarinnar skynjar áhorfandinn vel að í verkum sínum er þessi 19. aldar snillingur að fást við eitthvað sem er á mörkum þess að vera handan mannlegrar reynslu. Eðlilega hrifust margir af verkum hans þó að þau hafi eðlilega alltaf verið umdeild. Ég er sjálfur óðum að komast í hóp hófsamra Wagnerista.

Previous
Previous

Sextuga konan

Next
Next

Tuco á breiðtjaldi