Tuco á breiðtjaldi

Retrósýningar Kringlubíós á mánudögum hafa sannarlega náð til íslenskra áhorfenda. A.m.k. var troðfullt á ‘The Good, the Bad and the Ugly’ í septemberbyrjun, meðalaldurinn hár og líklega flestallir í sömu stöðu og ég að hafa séð myndina nokkrum sinnum áður en langa þeim mun meir til að sjá hana á breiðtjaldinu enda var það sannarlega þess virði, bæði myndatökunnar og ekki síður tónlistarinnar vegna þó að málnefndinni finnist enn að Sambíóin mættu splæsa í íslenskan texta á þessu stórvirki. Eða jafnvel danskan texta því að ekki virðist veita af betri fyrirmyndum þegar kemur að notkun frændtungunnar.

Fyrir utan tryllta tónlist Morricones sem er kannski eitt besta kvikmyndatónskáld sögunnar að John Williams og Hans Zimmer meðtöldum þá er það besta við þessa mynd kvikmyndaleikur Eli Wallach sem auðvitað var ekki Mexíkói heldur New York búi kominn af pólskum gyðingum, þrautþjálfaður á Broadway. Óhætt er að fullyrða að annar eins leikur hafi aldrei sést í kúrekamynd fyrir daga þessarar myndar (fyrir utan helst Wallach sjálfan í Hetjunum sjö); Wallach tekur hana alla nokkurn veginn á háa c-inu, lýsir upp tjaldið með yfirþyrmandi persónuleika og er samt furðu trúverðug persóna sem reynist jafnvel í miðri mynd vera Þorkell Súrsson í villta vestrinu, syndugur bróðir réttláts og svolítið sjálfsánægðs heiðursmanns.

Clint Eastwood auðvitað er myndarlegur á velli, ekki síst þegar hann er skyndilega kominn í afar þokkafulla prjónaflík nálægt sögulokum og Lee Van Clef er sérlega skuggalegur og demónskur bófi en hvorugur kemst í jafnkvisti við hinn tryllta Tuco: augnaráðið, hláturinn og snöggu skiptin milli ógnunar og sjarma. Ég veit ekki hvort Wallach var sagt að leika Tuco eins og Long John Silver eða Harald harðráða en það er vottur af báðum þessum skálkum í þessum víðfeðma bófa. Snjallræði er að láta hann hitta bróður sinn munkinn; veitir persónunni dýpt sem engin önnur persóna myndarinnar hefur. Hins vegar hafa þær sannarlega margar frábært útlit.

Að sönnu eru hið hæga tempó myndarinnar og meintir útúrdúrar umdeild. Ég man hversu ég dæsti í fyrsta sinn þegar langur bardagi um brú lítt viðkomandi fléttunni reyndist tefja myndina á lokametrunum. En núna þegar ég sá hana í sjötta sinn eða þar um bil fannst mér hún hanga furðu vel saman og ég tók hið lausbeislaða form hennar í fullkomna sátt. Hún er hæg en það virkar í bíósal án síma og tölvu. Það er samt alltaf nóg að gerast, ef ekki í samræðunum, þá í mynd eða tónlist. Eitt sinn skýst hundur í myndina í miðju atriði skýringarlaust líkt og Roland Barthes hafi haft áhrif á leikstjórann og ég hef ekki hætt að hugsa um voffann síðan (hætti aldrei að hugsa um Roland minn heldur).

Kannski er það vegna þess hve mörgum Ítölum ég hef kynnst seinustu árin eftir að þeir urðu tjúllaðir í norræn fræði að í bíósalnum blasti við að langflestir leikararnir eru augljóslega spænskir og ítalskir og landslagið gæti sem best verið það líka (er það sennilega). Þeir kunna litla sem enga ensku og leika aðallega með svipbrigðum, fjöldamörg eftirminnileg og afar misfríð andlit sjást í myndinni, að ógleymdum hálfmanninum sem aldrei er útskýrður frekar. Þetta er mynd sem einkennist af eftirminnilegum senum og skotum, þær eru margar dásamlegar og haganlega hannaðar eins og listaverk fremstu málara.

Myndin hangir sérkennilega saman og er næstum eins og píkareskt smásagnasafn um skálkinn Tuco og raunir hans en við það verður áhorfandinn að sættast. Þetta á til að mynda við um sérkennilega og ekki mjög trúverðuga en drepfyndna baðsenu sem gæti verið úr þætti um Þorgeir heitinn Hávarsson og ekki síður ferð skálksins til þrifalegs skammbyssusala sem mér skilst að sé leikinn af þekktum ítölskum gamanleikara. Eins er senan þar sem aðalskúrkurinn Englaaugu veitist að fjölskyldumanni einum afar eftirminnileg og átakanleg, kannski ekki síst vegna hversdagslegu búgarðsvinnunnar sem er sýnd í upphafi atriðis.

Að lokum verður að segjast eins og er að eins einfalt og framtakið er hjá bíóhúsinu kapítalíska og þó að það mætti vanda sig aðeins meira og huga mun betur að þjóðtungunni þá eru þessar bíósýningar samt til mikillar gleði og menningarauka í borginni og fyrir þær ber að þakka.

Previous
Previous

Dvergar girnast gull

Next
Next

Skáld sest og les