Skáld sest og les

Eina páska í lífi mínu varð ég þess heiðurs aðnjótandi að lesa fimm passíusálma Hallgríms í sjálfri Hallgrímskirkju. Einn þeirra var sálmurinn þar sem skáldið fer skyndilega að kvarta yfir erfidrykkjum („Erfisdrykkjur og ónýtt prjál / ekki á skylt við þetta mál. / Heiðingja skikkan heimskuleg / hæfir kristnum á engan veg“) og þótti mér það kynlegt aukaefni í sálmum sem fjalla aðallega um píslir og fórnardauða frelsara mannkynsins. Eins er með sumt sem listaskáldið Keats orti en seinasta sumar veitti hann mér marga ánægjustund. Svo mörg kvæða hans eru ódauðleg listaverk en sum þó ort af frekar litlu tilefni eins og t.d. ljóðið „On Sitting Down to Read King Lear Once Again“ sem er fullt af upphrópunarmerkinu og hinni frekar alvörulausu kveðju „adieu“ og virðist hefjast sem grín en í lokin fyllist skáldið óvæntri alvöru og kastar inn óvæntri fuglalíkingu: „When through the old oak forest I am gone, /  Let me not wander in a barren dream, / But when I am consumed in the fire, / Give me new Phoenix wings to fly at my desire“. Fönixinn er hugsanlega leið skáldsins frá Shakespeare og kannski hefðinni yfirleitt þó að þeir lesendur sem ég ræddi við væru alls ekki á einu máli hvað fönixinn væri yfirleitt að gera hér í ljóðinu eða hvort hann væri því til framdráttar. Kannski er hann ívið mikill „fugl-úr-vélinni”, svipað og sami fugl verður í einni bókinni um Harry Potter.

Ég held áfram að kynna mér Ode-kvæði Keats í góðra vina hópi og þau eru flest öðrum betri. Fyrir utan þau tvö frægustu sem ég hef þegar rætt er „Óðurinn til melankólíunnar“ einna bestur en andi þess kvæðis er furðu léttur og bjartsýnn miðað við umfjöllunarefnið. Á þversagnakenndan hátt hefur skáldið leikinn á að vara við depurðinni en síðan er það nærandi eðli hennar sem er Keats hugleiknast. Fyrir honum er melankólían samtvinnuð gleðinni og fegurðinni: „She dwells with Beauty — Beauty that must die; and Joy, whose hand is ever at his lips“. Þetta varð vinsælt sjónarmið hjá rómantísku skáldunum sem töldu bæði melankólíuna og raunar líka kaldhæðnina vel eiga heima ásamt fegurðinni og raunar óaðskiljanlegan hluta hennar. Stundum finnur maður fyrir þörf ungmennisins Keats fyrir að láta ekki „hanka sig“ og í raun segir hann þrjá afar mismunandi hluti um depurðina í þessum stutta óð sínum en kannski er vegna þess að það er ekki í eðli jafn eðlisgreinds manns og Keats að sjá aðeins eina hlið fyrirbæranna.

Leti („indolence“) er annað umfjöllunarefni Keats og þó að vinkona mín Helen Vendler sé afar hrifin af þeim óð höfðar hann einna síst til mín og auk heldur þurfti ég að yfirgefa fund skáldvina minna í skyndingu vegna pestar eða matareitrunar; kannski höfðar ljóðið minna til mín sakir heldur vélrænnar notkunar þrítölunnar, en í þessu ljóði er Keats sóttur heim af þremur draugum sem hann nefnir Love, Ambition og Poesy. Allt er þetta mjög skematískt hjá honum og Vendler fílar það enda mjög ferköntuð en þó að Keats sé aldrei minna en áhrifamikill er þessi draugasaga ekki jafn áleitin og sum önnur verk hans. Eins og þið lesendur mínir vitið mætavel dó Keats aðeins 25 ára og við hljótum öll að undrast þroska hans þó að ég þekki einstaka jafnaldra hans sem eru sannarlega hæfileikamiklir.

Next
Next

Margsaga