Margsaga

Það var löngu kominn tími til að ég sæi Rashomon (1950), meistaraverk Akira Kurosawa sem er fræg fyrir margradda frásögn, sveigjanlegt sjónarhorn og óáreiðanlega sögumenn enda er þar sama viðburði lýst af fjórum sögumönnum. Öfugt við það sem stundum gerist þegar þessu bragði er beitt er síðasta lýsingin ekki endilega sú „rétta“ þó að hún hafi eðlilega talsvert vægi. Þessar vitnaleiðslur eru sóttar úr smásögunni „Yabu no naka“ eða „Í rjóðrinu“ (1922) eftir ungsnillinginn Ryonusuke Akutagawa (1892–1927) sem raunar notar sjö vitnisburði en ekki fjóra eins og gert er í myndinni. Smásaga hans var hugsanlega undir áhrifum frá sögu eftir Ambrose Bierce (sem þið ættuð að kynna ykkur ef þið þekkið hann ekki) en sagan hefur verið kvikmynduð alloft þó að engin gerð jafnist á við Rashomon. Frægð þeirrar myndar er slík að orðið hefur fengið stöðu bókmenntahugtaks (Rashomon-effektið) og raunar er það orðtak í Japan um stöðu sem er gruggótt vegna margbrotinna vitnisburða.

Rashomon varð brimbrjótur fyrir japanskar kvikmyndir á Vesturlöndum enda vann hún bæði gullna ljónið í Feneyjum, óskarsverðlaun og er síðan fastagestur á listum sérfræðinga um 10-100 bestu kvikmyndir allra tíma. Ekki er erfitt að sjá hvernig á því stendur. Fyrir utan kvikmyndatöku snillingsins Miyagawa og myndvísi meistarans sjálfs eru bæði frásagnaraðferðin og siðaboðskapurinn áleitin og sögurnar fjórar haganlega ólíkar en allar mótaðar af þeim sem hefur orðið hverju sinni. Þrjár eru mjög augljóslega til þess fallnar að halda sæmd sögumannsins á lofti en sú fjórða dregur á sinn hátt einnig dám af vitninu, skógarhöggsmanninum sem skynjar sterkt illsku heimsins en reynir þó af veikum mætti að sporna við henni í lok myndarinnar í atriði sem er frekar laustengt því sem áður hefur gerst nema siðferðislega. Í sögu hans má m.a. finna eitthvert óhetjulegasta einvígi sem ég hef séð í kvikmynd og veitir manni sterki tilfinningu fyrir dýrslegu eðli bardagans.

Rashomon er einföld kvikmynd um ofbeldisverk, sívinsælt söguefni. Nema að enginn segir sömu söguna sem ætti að vera lærdómsríkt. Að sjálfsögðu er ástsjúki bandíttinn Tajomaro sem þekkist á tryllingslegum hlátri eftirminnilegasta persónan enda leikinn af sjálfum Toshiro Mifune á unga aldri. Eiginkonan sem Machiko Kyo leikur fer þó að verða æ sterkari eftir sem sögunum vindur fram. Þessar þrjár manneskjur eru einar um hituna í sögunni (ein raunar túlkuð eftir dauða sinn af miðli!) en utan um hana er rammasaga í Tídægrustíl þar sem skógarhöggsmaður, prestur og plebbi ræða þessi atvik í grenjandi rigningu. Þeir hafa líka sínar skoðanir á atburðunum og sekt og sakleysi þátttakenda.

Rashomon er aðeins 90 mínútur en skilur áhorfandann eftir með fjölmargar spurningar meðal annars um sannleika, frásagnir og minningar sem hafa haldið áfram að enduróma í ýmsum bókum, kvikmyndum og öðrum listaverkum. Hún á sér stað í miskunnarlausum heimi þar sem sjálfselskan veður uppi, stigamenn reika um héröð og mannslífið er ekki mikils virði. Samt sem áður er boðskapur hennar kannski sá að þrátt fyrir allt þetta eigum við ekki að missa trúna á mannkynið.

Previous
Previous

Skáld sest og les

Next
Next

Minnið velur sér yrkisefni