Skáld eðlileikans

Eftir nokkra mánuði með Keats tók ég til við að lesa ljóð Gerald Manley Hopkins sem ég þekkti lítið til áður annað en nafnið. Hann var enskt skáld, fæddur 1844 en andaðist 1889. Líkt og Keats var hann ekki frægur á eigin líftíma en vinur hans Robert Bridges, lárviðarskáld Breta (1844–1930) náði að koma honum á kortið látnum. Hopkins var Jesúítaprestur líkt og íslenskur samtíðarmaður hans Nonni og í augum flestra 21. aldar Íslendings því trúarnöttari en hitt áhugamálið hans var aftur á móti afar íslenskt: bragarhættir og hrynjandi. Einnig líkt og Keats var Hopkins afar smávaxinn (157 sm) og ekki eins geðþekkur heldur þótti hann undarlegur í háttum. Upphaflega hafði hann verið glaðvær partígaur en ákvað síðan að yrkja aðeins guði til dýrðar en kenndi einnig við háskóla, m.a. á Írlandi sem var þó ekki við hans skap. Hann andaðist úr taugaveiki.

Helsta skáldlega áhugamál Hopkins var að endurvekja hrynjandi hins engilsaxneska kveðskapar en miðensku ljóðskáldin höfðu gert aðra hrynjandi dómínerandi í enskum kveðskap. Hann var mikill aðdáandi Bjólfskviðu, hreintungumaður ákafur og álíka sveigjanlegur og Konráð Gíslason í trúboði sínu. Fyrir utan fyrstaatkvæðisáhersluna voru ljóð Hopkins iðulega uppfull af rími og stuðlum (jafnvel ofstuðlun) umfram flestan enskan kveðskap þess tíma. Velska hafði einnig mikil áhrif á Hopkins. Þó að fátt annað væri líkt með þeim JRR Tolkien má sjá sömu áhrif frá kaþólsku, velsku og fornensku á báða höfundana en þó að Hopkins hafi kynnt sér íslenska bragarhætti varð hann aldrei jafn hugfanginn af Íslandi og Tolkien.

Þó að hrein fagurfræði og almennt fagurfræði hafi verið helsta markmið Hopkins í lífinu var hann þó ekki allsendis ókunnur kynferðislegum áhuga. Þegar hann var rúmlega tvítugur hitti hann hinn 17 ára Digvy Mackworth Dolben í Oxford og breyttist þá líf hans. Hopksins fyllti dagbækur sínar af lítt duldum erótískum hugsunum um Dolben og orti til hans mörg ljóð. Skriftafaðir Hopkins bannaði honum að hitta Dolben eftir að hafa hlustað á rækilegar játningar skáldsins um girnd sína og illu heilli drukknaði sá síðarnefndi aðeins 19 ára gamall. Ekki var þó skáldlegu sambandi þeirra lokið því að Hopkins hélt áfram að yrkja til Dolben og finnst sumum langanir hans og þrár gefa kvæðunum aukið gildi.

Ég varð þeirrar gæfu aðnjótandi að ræða Hopkins og hugmyndir hans á Zoom-fundi í ágúst og meðal annars ljóð sem hann orti til aspa sem seint verða mín eftirlætistrjátegund en Hopkins sá eitthvað í þeim sem mér er hulið. Ljóðið sjálft er svolítið bernskt í fyrstu en batnar stöðugt og reynist talsvert heillandi við frekari lestur. Mörg ljóða Hopkins eru svo óvenjuleg að þau eru stundum á mörkum hins kjánalega en flest réttu megin við. Í öllu falli urðum við sammála um að Hopkins væri meira en einnar messu virði. Eðlilega þótti mörgum ljóð hans ansi kröfuhörð á sínum tíma enda Hopkins ekki búandi í Lundúnum eða Oxford heldur á jaðrinum og heimurinn ekki endilega tilbúinn að heyra svona miklar nýjungar frá slíkum jaðarmannl.

Previous
Previous

Íslenska þorpsfíflið

Next
Next

Sextuga konan