Íslenska þorpsfíflið
„Sá hlær best sem hlær, en ég hlær ekki,“ sagði siglfirskt þorpsfífl víst iðulega en ég man ekki lengur hvað sá hét. Líklega var það sami maður sem sagði: „Þá sagði fólkið við almenning: sjáið helvítis lögguna!“ sem kann að vera merkingarþrungið, hver veit? Mér var nýlega gefin skáldsagan Kalmann eftir Joachim B. Schmidt og las hana á tveimur tímum á kaffihúsi í október meðan amerískur drengur með litað hár við hlið mér sífraði í símann við pabba sinn að það væri ekkert opið á íslenskum sunnudegi 12–2 og landsbyggðin á Íslandi væri ekkert nema steinar. Ég kunni ekki við að skipta mér af. Bókin kom aftur á móti út árið 2020 og er eftir Svisslending sem býr á Íslandi og ég man ekki eftir að hafa hitt. Ég reyndi að láta pirrandi pólitískar skoðanir persónanna ættaðar úr íslensku draslfjölmiðlunum fara sem minnst í taugarnar á mér; sannarlega ná þær prýðilega utan um hérlenska heitupottaumræðu.
Eins var ég hugsi yfir einhverfa sögumanninum sem er orðinn að nútímaklisju (einkum út frá fötlunarfræðisjónarmiðum) og er enda líkt við Forrest Gump (enginn man lengur eftir Boo Radley þrátt fyrir hljómsveitina) í öllum erlendum ritdómum, en það verður ekki af Schmidt tekið að Kalmann svínvirkar og frásagnarírónían sem skapast af einfeldni aðalpersónunnar gefur bókinni aukið gildi, ekki síst þegar í ljós kemur að Kalmann er óáreiðanlegur sögumaður á margvíslegan hátt. Almennt séð liggur gildi bókarinnar í persónusköpuninni; Schmidt nær vel utan um kómískt eðli íslenska þorparans og bókin er iðulega drepfyndin, ekki aðeins Kalmann sjálfur heldur ýmsar helstu persónurnar á Raufarhöfn (ég verð að játa á mig að hafa aldrei komið þangað). Ísbjarnakomur til landsins eru líka þaulnýttar á kómískan hátt. Ekki skortir heldur rauðar síldir eins og við á í sakamálasögum, grunsamleg atvik sem reynast engu máli skipta.
Í bókinni er illur kvótakóngur sem á sér ýmsar augljósar fyrirmyndir (stundum einu númeri of augljósar að mínu mati); hann nær aldrei að vera manneskja enda átti ég aldrei von á því. Stundum hvarflar að mér að halda erindi fyrir hérlenda höfunda um vannýtt íslensk fúlmenni. Mér skilst að Schmidt hafi slegið í gegn og það er verðskuldað; hið glögga gestsauga hans fangar Ísland betur en flestum íslenskum glæpasagnahöfundum hefur tekist (þar á meðal mér, en mér til afbötunar tek ég fram að ég hef lítinn sem engan áhuga á hinu séríslenska). Eins skilst mér að fleiri bækur um Kalmann eftir Schmidt séu til og tel líklegra en ekki að ég lesi þær ef þær rekur á mínar fjörur þó að ég sjái ekki alveg hvert sagan geti farið; Schmidt hefur þá mikilvægu gáfu að geta fangað athygli lesandans og haldið henni. Þegar uppi stóð fannst mér sjálf morðfléttan óáhugaverð en það gerir eiginlega ekkert til. Það sem máli skiptir er að Schmidt er alvöru höfundur og á sér vonandi glæsta framtíð.