Fegursti leikari í heimi
Alain Delon andaðist í sumar sem eflaust er sorglegt fyrir vini hans og vandamenn. Netið var líka afar sorgmætt en á allt annan hátt. Þúsundir mynda af Delon birtust á ýmsum samfélagsmiðlum, ég er ekki að ýkja, setti hjarta á nokkrar þannig að netið, sem veit að mikið vill meira, ákvað í kjölfarið að sýna mér þær allar. En sárafáar myndanna voru af þeim Alain Delon sem dó í sumar, manni sem var eldri en foreldrar mínir og myndarlegur fyrir sinn aldur en þó talsvert veðraður af tímans rás. Nei, sá Delon sem netið harmaði var 25-30 ára gamla kvikmyndastjarnan sem heimurinn uppgötvaði árið 1960 og finnst greinilega enn mjög fallegur. Kannski er netið um leið að harma hinn glaðbeitta sjöunda áratug síðustu aldar sem sannarlega var þáttur í mínu bókmennta- og kvikmyndauppeldi og enn fremur kynslóð foreldra minna sem núna er orðin ævagömul og á fallanda fæti, raunar löngu eftir að þau sjálf hurfu héðan úr heimi.
Alain Delon var reyndar líka góður leikari en það er þó varla hægt að greina leikhæfileika hans frá útlitinu. Til er fallegt fólk sem hefur engan charisma og líka fólk sem hefur hann en getur samt ekki miðlað honum gegnum myndavél eða kvikmyndavél. Alain Delon gat þetta sannarlega allt eins og kom strax fram í Plein soleil (1960) þar sem hann lék Tom Ripley á magnaðan hátt og eignaði sér hlutverkið þannig að mér finnst Ripley enn vera hann. Í þessari mynd er Ripley miklu fallegri en Dickie en hann er samt fátækur lágstéttarmaður sem skortir habitus tilfinnanlega eins og landi hans Bourdieu hefði sagt. Að sumu leyti verður myndin frábær esseia um fólk sem hefur útlitið með sér en samt skortir það eitthvað mikilvægt átakanlega, en um leið um hungur viðkomandi í allt sem það vantar.
Delon lék síðan mörg töffarahlutverk en iðulega stafaði þetta sama hungur og þessi sama áfergja af persónum hans. Persónur Delons voru iðulega úlfar fremur en lömb hvort sem þær voru söguhetjur eða ekki. Á þessum yngri árum átti hann í frægu sambandi við Romy Schneider sem ég skrifaði um í fyrra og netið var iðið að birta myndir af Alain og Romy saman í sumar þegar hann lést; líkt og hún hefði látist aftur ásamt sínum fyrrverandi. Þau giftust aldrei enda hefði hjónaband verið of hversdagslegur og notalegur endir fyrir þetta ákafa leiftrandi par. Miðaldamenn hefðu skilið það; Tristram og Ísöld nutu alltaf meiri hylli en allir brúðarleitarprinsarnir.
Romy og Alain voru áfram vinir enda var hún víst sennilega meira fyrir konur en karla. Hann hélt áfram að leika viðkvæma töffara en hafði aldrei gravitas á við Renoir, Noiret eða Depardieu sem hefði gert honum kleift að verða gömul og feit stórstjarna. Delon var alltaf skilyrtur af útlitinu og kannski er það þess vegna sem nær allur sumartreginn snerist um unga Delon. Æskufegurð er líka flestu brothættari og sá Alain Delon sem netið syrgði í sumar var auðvitað löngu horfinn rétt eins og fortíðin sem hann naut sín í.