Keanu og brimið

Í haust rakst ég á Point Break í sænska sjónvarpinu; hún mun víst hafa heitið Þrumugnýr þegar hún var sýnd í íslenskum bíóhúsum haustið 1991. Ég hugsaði með mér að þó að þessi mynd væri augljóslega drasl væri hún hugsanlega bráðskemmtilegt drasl eins og Toy Soldiers sem ég fjallaði um í fyrra. Það er hún ekki beinlínis og raunar furðu löng en ég lét mig samt hafa það að horfa á hana alla frá upphafi til enda. Sennilega var ég ekki búinn að uppgötva Keanu Reeves haustið 1991 en sannarlega ári seinna og um hríð voru ég og systir mín formaður og varaformaður óopinbers aðdáendaklúbbs Keanu á Íslandi og fórum (í fullkominni afneitun) á ófáar arfavondar hasarmyndir með honum áður en hann sló virkilega í gegn í The Matrix og er síðan að zögn hetja z-kynslóðarinnar.

Þessi er raunar ekki svo slæm, meðal annars vegna þess að Keanu er góður leikari á sinn sérstaka hátt. Hann leikur hér persónu sem heitir Johnny Utah og er hugsanlega innblásinn af Duncan Idaho úr Dune. Utah þessi er nýgræðingur í FBI og er fremur illa tekið af frekar ófagmannlegum yfirmanni þar, ekki beinlínis trúverðug persóna og óþarflega trúðsleg að mati undirritaðs. Hins vegar nær Keanu að lokum að vingast við tryllingslega löggu sem er leikinn tryllingslega af Gary Busey sem hefur orð á sér fyrir að vera í raunheimum nokkurn veginn eins og þær tryllingslegu persónur sem hann er vanur að leika. Einhvern veginn verður úr að Keanu fer í sauðargæruverkefni (undercover) sem brimbrettagaur (var þetta ekki líka fléttan í White Chicks?) til að afhjúpa bankaræningjahóp sem kallast „forsetarnir“ af því að þeir fremja öll rán sín í gervi Reagans, Nixons, Johnsons og Carters og rekst fljótlega á brimbrettagengi Patrick Swayze sem eru aðaltöffararnir á sandinum.

Þrátt fyrir frekar leim fléttu þar sem reynt er að telja okkur trú um að hugsanlega séu ræningjarnir annað brimbrettagengi sem söngvari Red Hot Chili Peppers er að mig minnir hluti af og er skotið í kássu snemma í myndinni í blasir við öllum frá upphafi að Swayze og félagar hans eru auðvitað „forsetarnir“ en það flækir málið að Keanu og Patrick ná snemma að bindast sterkum karlmennskuböndum (eða „male bonding“ á öðrum tungum) og er myndin eiginlega ástarsaga þeirra þó að reynt sé að breiða yfir það með því að hafa eina kvenpersónu í myndinni sem sefur hjá Keanu og hefur áður sofið hjá Patrick. Þetta er svipað og í riddarasögunum í gamladaga, burtreiðar þessara göfugu drengja eru aðalatriðið og konur til þess eins að horfa á og hvetja þá áfram. Jafnvel Akilles og Patróklus voru með konur með sér þegar ást þeirra var sem heitust enda síst hómóerótískari en Patrick og Keanu.

Fyrir utan þetta hómósósíala samband er nokkuð um kornflexheimspeki um öldur og brimbretti í myndinni sem svæfði mig of mikið til að ég geti haft hana eftir og lausnin er að Swayze hverfur að lokum í eina slíka risaöldu eftir að hafa áður kynnt Keanu fyrir dásemdum öldunnar og fallhlífastökksins. Ekkert af þessu kemur beinlínis á óvart eða er einu sinni spennandi, a.m.k. fyrir okkur ófirrta Atlantshafsbúa sem grínumst ekki með hafið, því að Patrick nær aldrei að verða beinlínis skúrkurinn í myndinni og maður finnur eiginlega til með flestum sem eru drepnir (sem mér sýndist vera næstum allar aukapersónurnar) áður en hann hverfur í brimið og kappinn Utah ákveður að framtíð hans liggi líklega ekki í FBI. Veit ekki hvort ég nenni að sjá þessa aftur en ýmis atriði eru prýðileg og Keanu er alltaf Keanu.

Previous
Previous

Fjölburafrægð

Next
Next

Fegursti leikari í heimi