Fjölburafrægð

Fyrir kynslóðina sem er fædd á þessari öld er fullkomlega lögmætt framtíðarmarkmið að hafa lifibrauð sitt af því að búa til skemmtiefni eða einfaldlega efni fyrir netið, vera svokallaður „content creator“ sem mig grunar að sé aðeins fínna eða kannski fyrst og fremst nákvæmara orð en „áhrifavaldur“ því að það seinna beinir sjónum að því hvernig fólk fær peninga fyrir netsprellið en það fyrra að sjálfu efninu sem það býr til án þess að fela í sér neinar vísanir til menningar og lista. Þannig getur „content“ (efnið) verið manneskja að horfa á tölvuleik eða kvikmynd eða jafnvel tónlistarmyndbönd og virðist manni stundum þetta vera hálfgerð eyðufylling einmanaleikans en ekki verður því neitað að fólk sækir í efni af þessu tagi. Einu sinni horfðu fjölskyldur á sjónvarpið saman og örskamma stund í bernsku minni var heimurinn næstum án kynslóðabils en síðan komu fleiri stöðvar og vídeó og þá var einingin úti og um leið samræður innan fjölskyldu. Samt vill fólk gjarnan horfa með öðrum og þannig kemur þetta efni að gagni. Frelsið er algert því að efnið finnst á sjónvarpinu eða í tölvunni heima og þarf ekki að mæla sér mót við neinn eða fara eftir dyntum hans eins og iðulega verður þegar fólk reynir að hittast í raunheimum, eins og mér kom í hug um daginn þegar vinkona mín virtist fyrirfram ákveðin að koma of seint til fundar við mig.

Ein vika í júní (eða jafnvel tvær) þessa árs fór að verulegu leyti í Sturniolo-þríburana hjá mér. Þeir eru fæddir svo óguðlega seint sem árið 2003, eru frá Boston í samveldinu Massachusetts (eða öllu heldur frá nálægum bæ sem nefnist Somerville) og eru frægir fyrir að vera þríburar. Þeirra sérgrein er að sitja saman í bíl og borða draslfæðu (hvers vegna eru ég og milljón aðrir að horfa á ungmenni borða franskar?) og spjalla og rífast. Stórvinsældir þeirra helgast af því að þeir eru þríburar og reyndar allir mjög laglegir eins og flest fólk sem er vinsælt á netinu og líka mjög líflegir eins og hefur stundum þótt einkenna afkomendur Ítala sem búa á Boston-svæðinu. Ég hef kynnst því sjálfur að margt fólk er áhugasamt um fjölbura svo að stundum jaðrar við blæti. Þannig að skyndilega vinsældir bræðranna eru kannski ekki mjög óvæntar; eiginlega varð ég meira hissa á að komast að því að þá hefur alla ævi dreymt um að slá í gegn á Youtube og þeirra markmið í lífinu lengi verið að vinna við það. Ekki er ástæða til að gera lítið úr slíkri vinnu þótt ólík sé því að vera lögfræðingur eða læknir — eða kannski ekki svo mjög. Kannski væri ég sjálfur slík stjarna ef ég hefði fæðst í Bandaríkjunum 30 árum seinna en verið samt tvíburi áfram (og kannski örlítið fallegri).

Vegna þess að mér er málið skylt einbeitti ég mér að því að þekkja þribbana í sundur. Þeir heita Nicolas, Matthew og Christopher, allir fæddir með keisara en teknir út í þeirri röð sem þeir hefðu ella fæðst. Nicolas er s.s. elstur, var langstærstur fyrstu árin og er augljóslega foringinn (lengst til hægri á fyrstu mynd, til vinstri á næstu, í miðið á tveimur seinustu), Christopher er yngstur en varð samt fyrstur til að slá í gegn á samfélagsmiðlum enda sannur foli (til vinstri á fyrstu mynd en síðan til hægri og að lokum aftur til vinstri) og miðjubarnið er Matthew (í miðjunni á fyrstu tveimur en síðan til vinstri og að lokum til hægri) sem er sá eini sem keyrir (sem skiptir máli vegna þess að efni þeirra er iðulega tekið upp í bíl). Hann talar langminnst og er greinilega brothættastur og líka sá sem er líkari hinum tveimur en þeir hvor öðrum. Eðlilega hafa hinir fjölmörgu aðdáendur þeirra mikinn áhuga á þessum líkindum og ólíkindum þeirra og bræðurnir gera meira út á þau en flestir fjölburar vegna þess að við blasir að vinsældir þeirra snúast um að vera þrír eins (enginn man lengur eftir þeim keppendum úr spurningaþáttunum Gettu betur sem ekki voru tvibbar). Á hinn bóginn sýna þeir líka eðlilega tortryggni gegn öllum klisjum um fjölbura og eru spurðir alls konar kjánalegra spurninga sem allir fjölburar kannast við.

Sturniolo-bræðurnir hafa allir leikið á hljóðfæri og verið í íþróttum eins og flest íslensk börn af þeirra kynslóð. Þeir eru hættir í skóla vegna ferilsins á youtube. Samræður þeirra eru iðulega greindarlegar en þeir lesa bækur lítið sem ekkert og eru ekkert sérstaklega fróðir, kunna t.d. ekki stafsetningu, kepptu eitt sinn í henni og þekktu áherslulausu sérhljóðin (sem eru eiginlega schwa indogermanicum) illa í sundur. Sjóndeildarhringur þeirra mótast mjög af íþróttum og skemmtanaiðnaðinum en eins og við hin eru þeir líka áhugasamir um dularfulla viðburði og geimverur. Líf bræðranna tók stakkaskiptum í fyrra þegar þeir fluttu til Los Angeles þar sem öll selebbin búa og einfaldara er að koma sér í samskipti við umboðsmenn og alla hina. Ég hef ekki horft á myndböndin í réttri röð og þau eru of mörg fyrir mig en þribbarnir virðast búa saman í risahúsi, hver á sinni hæð. Iðulega sofa þeir saman í rúmi eins og fólk gerði í gamladaga en hefði þótt mjög skrítið þegar ég var að alast upp. Oftast eru þeir í bílnum að æpa hver á annan milli þess sem þeir sjá rottur spígspora framhjá (pant ekki búa í Los Angeles!) og furða sig á stærð þeirra.

Auðvitað er enginn söguþráður beinlínis í myndböndunum, ekki fremur en í mörgum þekktustu skáldverkum 19. aldar. Aðdáendur Sturniolo-bræðranna (sjö milljón þegar ég gáði seinast) horfa á þá persónuleikans vegna og auðvitað útlitsins (13-14 ára stelpur ku vera fjölmennar í hópnum) og vegna þess að fólk er heillað af tvíburum og þríburum. Mitt blæti er auðskiljanlegt þar sem ég veit allt um að alast upp aldrei einn og þurfa snemma að kunna að deila — það hafði líka þau jákvæðu áhrif að í kjölfar Sturnioloáhorfsins fór ég með mínum eigin tvífara til Istanbul í haust og mun seint iðrast þess. Fyrstu árin auðvitað vorum við aldrei í sundur. Mamma sagði mér oft frá því þegar bróðir minn fór á spítala á fyrsta ári og hún beið ein heima eftir að hitt barnið vaknaði og færi að gráta (því að mamma var alltaf undirbúin). Þegar það að lokum rumskaði mun ég hafa litið lengi í hitt rúmið í leit að hinu barninu en grét þó ekki.

Previous
Previous

Lungnabólga Jim Hensons

Next
Next

Keanu og brimið