Lungnabólga Jim Hensons
Í sumar varð ég 54 ára og varð eðlilega oft hugsað til snillingsins Jim Henson sem lést á 54. ári árið 1990. Hálfum mánuði fyrir andlátið var Henson greyið með hálsbólgu og var líka þreyttur eins og við erum kannski öll stundum en hélt áfram að vinna og ferðast uns hann var orðinn fárveikur og andaðist að lokum af lungnabólgu. Hugsanlega hefði Henson lifað ef hann hefði farið fyrr á spítalann en á þeim tímapunkti var hann farinn að hósta upp blóði. Andlát Hensons hefði auðvitað orkað sterkt á mig jafnvel þó að það tengdist ekki minni eigin viðkvæmi stöðu verandi nú á sextugsaldri. Prúðuleikararnir eru sennilega fyrsta sjónvarpsefnið sem ég man eftir, a.m.k. fengum við að vaka til níu á föstudögum til að horfa á þá þegar ég var sex ára en annars fórum við í háttinn upp úr sjö. Aldrei hefði hvarflað að foreldrum mínum að neita okkur um þessa menntandi skemmtun þó að þau þættu ströng á þess tíma mælikvarða. Ég var álíka heillaður af þessum þætti og Smáfólkinu eða Tinna eða Stjörnustríði, þetta var allt jafn mikilvægt í bernsku minni og Íslendingasögurnar fyrir börn tveimur kynslóðum fyrr en þeim kynntist ég síðan níu ára. Henson hélt líka áfram að veita manni gleði með þessum sérstaka kaotíska og anarkíska léttleika sem hann kom með inn í barnaskemmtun þessa tíma en var alveg jafn mikið fyrir fullorðna.
Prúðuleikararnir eru meira og minna á netinu og t.d. má þar sjá alla þætti „Dýraspítalans“ sem verða bara fyndnari með tímanum. Henson var stöðugt að reyna sig við eitthvað nýtt, t.d. að koma Prúðuleikurunum úr sjónvarpinu í bíómyndirnar en hann langaði líka að gera tilraunir með eitthvað allt annað, á borð við Myrkurkristalinn (1982) sem eflaust olli flestum aðdáendum Hensons vonbrigðum á sínum tíma en Netflix hélt nýlega áfram með þennan ævintýraheim og kannski var Henson einfaldlega á undan sínum tíma hvað þetta efni snerti. Íslenska sjónvarpið sýndi síðar Sagnaþulinn sem var hálfgert flopp en maður getur ekki annað en dáðst að listamönnum sem hafa fundið örugga leið til vinsælda en kjósa í staðinn að feta eigin ótroðnu brautir og gera tilraunir.
Mig minnir að mér hafi fundist Prúðuleikararnir alveg jafn skemmtilegir í seinasta þætti og fyrsta. Þar sem brúður eldast ekki hratt hefði Henson léttilega getað búið til endalausa Simpsons-lönguvitleysu úr hugmynd sinni en hann vildi gera eitthvað nýtt í staðinn eða vinna öðruvísi með Prúðuleikarana. Kvikmyndirnar voru í fyrstu aðeins bandarískari og væmnari en þættirnir (sem voru framleiddir í Englandi) en náðu reyndar listrænu hámarki skömmu eftir að Henson var andaður með Jólaævintýri Prúðuleikaranna og fleiri kvikmyndum; það er óneitanlega svolítið írónískt að sköpunarverk Hensons hafi haldið áfram að þróast og batna eftir andlát hans en þó er það allt á einhvern hátt honum að þakka. Eins var ég aldrei hrifinn af Litlu Prúðuleikurunum enda ætlaðir fyrir yngri áhorfendur en þar fóru þó fram miklar formtilraunir og eins í Búrabyggð. Að lokum var Jim Henson orðinn hálfgerð stofnun líkt og Walt Disney, kannski aðeins geðþekkari en jafn mikilvægur fyrir barnamenningu 20. aldar.
Jim Henson sjálfur var á sínum tíma beðinn um að stjórna brúðunni Yoda í Stjörnustríði en var of önnum kafinn og í staðinn tók einn elsti vinur hans og samstarfsmaður Frank Oz það að sér. Stjörnustríð mun vera talsvert ríkari þáttur í lífi nútímabarna en Prúðuleikararnir þannig að krakkar sem sjá myndirnar núna skilja ekki lengur að Yoda talar eins og Fossi björn sem var það sem okkur fannst merkilegast árið 1982 og ein ástæða þess að persónan virtist tiltölulega kómísk í fyrstu. Ég vorkenni krílunum stundum að ná ekki þessu mikilvæga samhengi persónunnar en svona stór var Henson á sínum tíma og kannski vissum við allan tímann að hugverk hans yrðu sígild.