Framhjáhald er ekki gott

Síðasta sumar (L’Été dernier) er margverðlaun frönsk kvikmynd frá 2023 sem ég fann á vod-inu fyrir ekki alllöngu. Síðar komst ég að því að hún er endurgerð dönsku kvikmyndarinnar Dronningen með Trine Dyrholm sem ég hafði séð áður og gleymist ekki svo létt. En söguþráðurinn er þannig að hæfileikaríkur lögfræðingur um fimmtugt sem lifir fastskorðuðu fjölskydulífi með allnokkru eldri eiginmanni sínum og tveimur sætum ættleiddum dætrum þarf skyndilega að umgangast stjúpson sinn af stikkfríu kynslóðinni sem hefur vasast í smáglæpum og sýnir litla virðingu. Hún er hins vegar vön erfiðum og illa förnum ungmennum úr vinnunni og sýnir þá snilld í mannlegum samskiptum að hylma yfir kauðslegt innbrot stjúpsonarins í eigin heimili gegn því að hann hegði sér framvegis. Í kjölfarið kemst á gagnkvæm virðing milli allra og þá hefði myndinni betur lokið en því miður verður það ekki þannig. Ungi maðurinn er á flóknum stað í lífinu eins og táningar almennt, verandi bæði barn og fullorðinn karlmaður og þar sem hann er nýr í lífi hennar reynist stjúpmóðurinni erfitt að sjá ekki fullorðna karlmanninn sem býr yfir umtalsvert meiri æsku og lífsgleði en maðurinn hennar.

Pabbi stráksins og eiginmaður konunnar er á sjötugsaldri enda hefur konan hingað til hrifist af eldri mönnum en hún er líka komin á breytingaskeiðið og er ekki ónæm fyrir kynþokka stjúpsonarins Theo enda hefur hann bæði labbað um fáklæddur, strokið á henni handlegginn og almennt verið fremur daðurslegur nema þegar hann er óþolandi; mér fannst hann heldur framari en sænski strákurinn í upphaflegu myndinni en kannski er það aðallega menningarmunur því að söguatvikin eru þau sömu lengi vel en sá franski er líka yngri og strákslegri (það munar einu ári á leikurunum en það skiptir máli á þessum aldri). Þó að fyrsta forboðna kynlífsathöfn parsins sé alls ekki í þeim fegraða rómantíska anda sem tíðkast í bíómyndum er hún ekki heldur jafn sláandi táknræn og hún var í dönsku myndinni þar sem Trine Dyrholm var algerlega við stjórnvölinn og kynlífið af því tagi sem kennari minn í 7. bekk kallaði eitt sinn „nær dýrinu en manninum“ í opinberri umræðu (og þótti okkur veraldarvönum íslenskum unglingum fyndinn frasi árið 1985). Mér finnst ekki heldur alveg sami tragíski andi í frönsku gerðinni bæði vegna þess að franski leikarinn sem fer með hlutverk stráksins kemur ekki fyrir sjónir sem jafn viðkvæmur og varnarlaus og sænski kollegi hans en svo tóna Frakkarnir melódramað allnokkuð niður (stráksi lætur þannig ekki lífið í lokin eins og Gustav í Dronningen). Aftur á móti er léttara að tengja við eiginmanninn gamla í þessari mynd en sænska eiginmanninn í þeirri dönsku.

Ógæfa parsins graða (í báðum gerðum) felst meðal annars í því að drengurinn kann auðvitað ekki list framhjáhaldsins og fer alls ekki nógu laumulega þannig að systir stjúpunnar uppgötvar hvað er að gerast sem stefnir öllu í voða (hún bregst þó ekki jafn harkalega við og danska systirin). Þannig neyðir stráksi konuna til að velja og hafna og skilur ekki að það liggur beinast við að fórna honum og þeim umtalsverða kynlífsunaði sem hann hefur veitt stjúpunni en ekki öllu lífinu sem hún á með manninum gamla og ungum dætrum og það verður að lokum niðurstaðan að stjúpsonurinn Theo sé það kýli sem léttast sé að fjarlægja. Þegar hann reynir í kjölfarið að afhjúpa allt sem gerðist og neitar að skilja „snitches get stitches“ regluna grípur konan til lögfræðingstakta sinna og sér til þess að maðurinn trúi henni en ekki syni sínum og nýtur auðvitað þess að það hentar honum ekki síður en eiginkonunni að trúa henni fremur en stráknum. Þó að drengurinn sé enginn engill og vanur lygum og glæpum er hann samt viðvaningur í blekkingarlistinni miðað við lögfræðinginn fimmtuga. Hans hvöt virðist vera þörfin fyrir að ást þeirra sé viðurkennd en það getur hún auðvitað ekki leyft sér.

Táknrænar jólagjafir eftir brotthvarf Theo úr fjölskyldunni segja alla söguna, litlu systur hans fá hvolp í staðinn fyrir stórabróðurinn og konan ótrygga þiggur armband frá manninum sem tákn þess að hún sé bundin honum en auðvitað veit hann að þau hafa valið sér „sannleikann” í málinu og milli þeirra ríkir þagnarsamsæri þar um. Theo er samt ekki alveg horfinn og birtist aftur í lokin til þess aðallega að fullnægja stjúpunni enn einu sinni með látum, samt búinn að gera lögfræðilega bindandi samning við hana um að málinu sé lokið en það sem gerist á milli þeirra í lokin (meira dodo semsagt) sýnir auðvitað að þetta var samt allt til og við þann þögla og bælda veruleika verður drengurinn að sætta sig, er með tár í augunum en þó ekki dauður sem er kannski ívið betra. Frakkar kunna flestum betur að hafa stjórn á melódramanu og eru ekki heldur alveg komnir þangað í vókinu að líta á kynlífsþörf mannsins sem aðkallandi vanda.

Previous
Previous

Krossgátuskáldið

Next
Next

Lungnabólga Jim Hensons