Krossgátuskáldið
Það var ánægjulegt að eyða sumrinu með Gerald Manley Hopkins, þessu sérkennilega Jesúítaskáldi sem vildi sameina hljómfallsáráttu rímnaskáldanna og hið nýfundna táknsæi módernista, sem yrkir trúarljóð um náttúruna sem eru full af torkennilegum orðum sem hann virðist jafnvel hafa þefað upp úr orðabókum og ofnotar upphrópunarmerkið stórkostlega. Eitt allra torkennilegasta ljóð hans er „Starlight Night“ sem líkt og mörg kvæði hans er tvískipt, þ.e. fyrst kemur bein ljóðmynd en síðan eins konar útlegging, líkt og ljóðið sé predikun.
Fyrri hlutinn er á þessa leið og er skiljanlegri hlutinn: „Look at the stars! look, look up at the skies! / O look at all the fire-folk sitting in the air! / The bright boroughs, the circle-citadels there! / Down in dim woods the diamond delves! the elves’-eyes! / The grey lawns cold where gold, where quickgold lies! / Wind-beat whitebeam! airy abeles set on a flare! / Flake-doves sent floating forth at a farmyard scare! — / Ah well! it is all a purchase, all is a prize.“ Aðdáun Hopkins á sögninni „delve“ er auðsýnilegur; hann notar hana margoft. Auk þess hefur hann einstaklega mikla þekkingu á trjám [„abeles“) og er óhræddur að búa til ný orð, þó að „quickgold“ þekkist raunar frá 16. öld. Ég og félagar mínir sem lásu Hopkins ásamt mér veltum mikið fyrir okkur „farmyard scare“ sem virðist óþekkt utan ljóðheims Hopkins. Er hér vísað til fuglahræðu? Eins og sjá má er aðdáun Hopkins á stuðlum gegndarlaus og virðist full óheft í fyrstu en síðan fer áheyrandinn að sætta sig við hana og þennan almenna ákafa Hopkins. Seinni hluti kvæðisins er mun tormeltari, orðin enn fágætari, tímaröðin undarleg og að lokum birtast Kristur og englar hans: „Buy then! bid then!—What?—Prayer, patience, alms, vows. / Look, look: a May-mess, like on orchard boughs! / Look! March-bloom, like on mealed-with-yellow sallows! / These are indeed the barn; withindoors house / The shocks. This piece-bright paling shuts the spouse / Christ home, Christ and his mother and all his hallows.“ Vissulega er hægt að fá botn í kvæðið en það er alls ekki einfalt og hinir furðumörgu aðdáendur Hopkins deila stöðugt um merkinguna. Honum tókst þannig að láta ljóðið vera fremur en merkja.
Hopkins var sannarlega ekki allra þegar hann lifði, einkennilegar formtilraunir hans féllu ekki endilega í kramið og hvað þá kaþólsku viðhorfin. Hann var kröfuhart skáld og kannski einmitt þess vegna hið máttugasta mótefni gegn daglegri uppskeruhátíð idíótanna og aldrei sem þessar vikurnar á paðreimi fjölmúlavílaranna. Það féll síðan í hlut vinarins Robert Bridges (sjá að ofan) að halda Hopkins á lofti eftir andlátið en sjálfur er Bridges hálfu gleymdari núna en vinurinn þó að hann þætti eitt fremsta skáld Englands meðan hann lifði.