Stinningarlyf úr stáli
Aldrei hvarflaði að mér að horfa á Death Wish myndirnar með Charles Bronson hér forðum daga bæði vegna meints boðskapar — að sögn voru þetta hægrisinnaðar „pabbamyndir“ um gamlan karl sem lét hippa og minnihlutahópa fá það óþvegið aftur og aftur — og svo voru þær orðnar fimm, endalaus endurtekning. Ekki hef ég skipt um skoðun á seinni myndunum en þegar ég sá þá fyrstu óvart í danska sjónvarpinu um daginn varð ég samt forvitinn og endaði á að horfa á hana alla og finnast hún … ekki svo vond. Myndin var gerð árið 1974 og byggir á sögu Brian Garfields (1939–2018) sem var ágætur spennusagnahöfundur og mér skilst að sú bók sé ekki einhliða áróður eins og myndirnar urðu. En jafnvel fyrsta myndin er margradda frásögn þar sem gagnrýni á hegðun aðalpersónunnar kemur talsvert fram. Auk þess fannst mér þegar ég sá hana að hugsanlega sé hún áhugaverðari ef hún er ekki túlkuð of raunsæislega heldur sem athugun á sálarlífi getulítils miðaldra manns.
Aðalpersónan er vinstrisinnaður friðarsinni sem lendir í því að missa konu sína í hrottalegri árás, er svo gefin byssa í Tucson og reynist vera afburðahittinn. Hann fer síðan að beita byssunni aftur og aftur þegar á hann er ráðist og jafnvel oftar og fær greinilega eitthvað út úr því eins og sést þegar hann er farinn að hækka í tónlistinni og litirnir í íbúðinni eru orðnir meira æpandi. Þannig fylgjum við manninum og erum að einhverju leyti stödd í flæktri sál hans. Það besta við myndina er að upphaflegu dólgarnir þrír (að neðan) sjást alls ekkert eftir morðið í upphafi þó að einn þeirra hafi raunar sést talsvert í kvikmyndum síðar (læt ykkur um að bera kennsl á hann). „Hefnd“ miðaldra mannsins beinist að árásarmönnum yfirleitt og er kannski ekki svo mikil hefnd heldur fremur veikburða og órökrétt tilraun til að ná stjórn á lífinu og augljóslega fær hann eitthvað út úr því að skjóta. Hann staðfestir sig á einhvern hátt með byssunni og það er ekki aðeins lestur minn heldur greinilega eitthvað sem kvikmyndin sjálf vill segja okkur.
Andstæðingar Bronsons í myndinni eru sem sagt ekki glæpamennirnir þrír sem myrtu konuna (sem eru kallaðir „fríkin“) heldur löggan sem er að reyna að ná ókunna manninum sem er farinn að skjóta alla árásarmenn utan dagskrár og stinga svo af. Hún kemst fljótlega á hæla hins miðaldra arkítekts sem hefur misst konu sína í ofbeldisverkinu. Löggan vill þó ekki beinlínis leiða hann fyrir rétt því að það yrði vandræðalegt fyrir hana þar sem ofbeldismaðurinn er orðinn hetja í New York (ekki ósvipað Leðurblökumanninum). Undir engum kringumstæðum vill hið opinbera að einkaréttur þess á ofbeldi verði ræddur í réttarsal og borgarinn með byssuna verði þá óhjákvæmilega píslarvottur og hetja.
Niðurstaðan verður á þessa leið: lögreglan heldur verndarhendi yfir hinum byssuglaða arkítekt gegn því að kauði flytji hið snarasta til Chicago og virðist hann þar ætla að halda uppteknum hætti. Þetta þótti mörgum býsna siðlaus endir og engum af hinum helstu kvikmyndagagnrýnendum líkaði við þennan boðskap þó að þeir sæju margt annað jákvætt við myndina. Bronson varð stórstjarna á þessari kvikmynd og varði hana áfram (tilneyddur þar sem hann hélt áfram að leika í framhaldsmyndunum) sem gagnrýni á ofbeldi fremur en upphafningu á því. Tónninn í henni er líka grárri og loðnari en ég hélt fyrirfram og þó að hún gerist í nútímanum er hún svo sem ekkert að boða annað en það sem allir vestrar gerðu. Aðallega er hún samt „pabbamynd“ eins og Dirty Harry og snýst um hvernig miðaldra millistéttarkörlum eru allir vegir færir og ef til vill hafa ýmsir slíkir fengið mikla útrás þegar Bronson gengur frá hverjum unga manninum á fætur öðrum.
Á endanum er Death Wish saga um hið fallíska eðli byssunnar, snýst um að miðaldra karlinn þarf slíkt hjálpartæki til að finnast hann vera lifandi á ný. Byssan kemur beinlínis í stað eiginkonunnar. Eins og María Ellingsen sagði forðum daga við Valdimar Flygenring þegar hann fór upp úr þurru að skjóta á dósir í íslensku myndinni Foxtrott: „Eru kannski getulaus líka?“