Smávegis um fræðibókaútgáfu ársins 2024
Eignarfallstitlar eru ráðandi hjá okkur í Hinu íslenska bókmenntafélagi í ár en sennilega er það frekar tilviljun en tíska því að bækurnar sem mitt góða félag sendi frá sér í september eru hver annarri ólíkar en þó allar einkennilega tímabærar. Á tímum mikilla fólksflutninga hefur bók Árna Heimis Ingólfssonar um Róbert Abraham Ottósson, Heinz Edelstein og Victor Urbancic eðlilega vakið athygli. Allir þessir menn flúðu heimaland sitt vegna gyðingaofsókna en auðguðu í staðinn íslenskt tónlistarlíf milli 1930 og 1970 og veitti kannski ekki af þar sem það var afar fábreytt öldum saman. Árni Heimir hefur áður rannsakað þá tíma í verkum sínum Tónlist liðinna alda og Jón Leifs – líf í tónum en bók hans um útlagana þrjá dýpkar þessa tónlistarsögu talsvert. Mikil vinna liggur þar á bak við auk þess sem afkomendur listamannanna hafa verið með í ráðum. Vegna þess hve virkir þeir voru allir í tónlistarlífinu sem stjórnendur og kennarar er verkið alls ekki einföld ævisaga heldur miklu frekar rækilega rannsökuð saga íslensks tónlistarlífs sem Árni Heimir hefur lagt ómældan skerf til bæði með fyrri verkum og með þessu tímamótaverki sem er lipurlega samið og oft bráðskemmtilegt. Enn er margt þó ókannað í íslenskri tónlistarsögu og það er tilhlökkunarefni að fylgjast með næstu skrefum Árna Heimis.
Íslensk miðaldaheimspeki er eflaust fáum vel kunn þó að Íslendingar hafi verið svo heppnir að einn af okkar fremstu fræðimönnum í faginu á 20. öld var Sigurður Nordal en hann var í senn heimspekingur og miðaldafræðingur. Gunnar Harðarson kenndi þeim er þetta ritar um helstu miðaldaheimspekinga fyrir mörgum áratugum og hefur rannsakað efnið áratugum saman (hver man ekki eftir Þremur þýðingum helgum? Að minnsta kosti allir sem ég vil þekkja!) og nú er komið út nýtt verk hans, Fingraför spekinnar, þar sem hann glímir meðal annars við Hauksbók, Snorra-Eddu, Hávamál, handritið GKS 1812 4to auk þess sem vikið er að siðferði Íslendingasagnanna. Líklega er þetta ein rækilegasta umfjöllun um íslensk fornrit og heimspeki sem komið hefur út hér á landi og Gunnar á lof skilið fyrir að upplýsa þjóðina um þetta vanrækta svið menningarinnar. Fingraför spekinnar er nett lítil bók að umfangi en mikil að innihaldi, einmitt bók af því tagi sem Bókmenntafélagið á að færa þjóðinni.
Fyrir utan að vera kennari og skáld hefur Ragnar Ingi Aðalsteinsson verið einn helsti sérfræðingur þjóðarinnar á sviði bragfræði áratugum saman og Söngur ljóðstafanna sem Hið íslenska bókmenntafélag hefur nú gefið út í námunda við áttræðisafmæli hans kjarnar helstu rannsóknir hans og varpar jafnvel enn betra ljósi á það hversu drjúgt framlag hans er þegar kemur að þessu rammíslenska efni. Ragnar Ingi hefur líka lagt mikinn skerf til að halda sambandi þjóðarinnar við bragarhættina lifandi (meðal annars með hinu vel metna tímariti Stuðlaberg) og margir lesendur átta sig eflaust á því við lestur bókarinnar hversu samofið vísindastarf hans er hinu samfélagslega hlutverki og hlut bragfræðinnar í menntun þjóðarinnar þannig að óhætt er að kalla Ragnar Inga „starfsmann á plani“ jafnvel þótt hann hafi líka lengi verið háskólakennari. Hann hefur sannarlega tekið samfélagsskyldur háskólamannsins alvarlega.
Hið íslenska bókmenntafélag hefur líka nýlega gefið út hvalkynjað yfirlitsrit um sjávarútveg og eldi, Sjávarútvegur og eldi, það fyrsta sinnar tegundar á íslensku sem Ágúst Einarsson og Ásta Dís Óladóttir hafa tekið saman en þau eru bæði þrautreyndir rannsakendur á sviðinu og sendu einnig frá sér merkt rannsóknarrit á ensku árið 2021. Hið nýja rit verður nauðsynleg handbók fyrir íslenska háskólastúdenta sem rannsaka þessar atvinnugreinar og vitaskuld allan almenning sem hefur áhuga á málefninu. Þetta er efnismikil bók og víðfeðm sem er ekki síður hugsuð sem rafbók, prýdd miklum fjölda mynda og varla til rækilegra rit um efni sem skiptir þjóðina miklu máli.