Meira um fræðibækur ársins 2024
Þar sem þetta er einkasíðan mín, óstudd af öðrum og þarf ekki að gæta neinnar hlutlægni (ekki að sú viðleitni sé lengur til neinstaðar) fjalla ég í þessari grein eingöngu um bækur Hins íslenska bókmenntafélags enda er ég afar stoltur af útgáfunni í ár. Hún lætur ekki endilega mikið yfir sér en þegar allar bækurnar eru komnar sést vel hversu vítt svið þær spanna og hve ótvírætt gagn þær gera íslenskri menningu. Þannig gefur Bókmenntafélagið út fyrstu sögu íslenskrar danslistar í ár og sætir mikum tíðindum í listasögunni. Ingibjörg Björnsdóttir sagnfræðingur ritar hana en hún er innanbúðarmanneskja í danslistinni sem oft hefur átt undir högg að sækja á Íslandi. Þeim mun mikilvægara er fyrir almenna listunnendur að svala forvitninni um hana.
Önnur ekki síður mikilvæg bók er rannsóknarrit Þóris Óskarssonar um sjálfan Bjarna Thorarensen. Fáir eru betur heima í íslenskri rómantík og heimspekilegum forsendum hennar en Þórir og skáldið Bjarni Thorarensen hefur auðvitað sérstaka stöðu sem eitt fyrsta rómantíska skáldið og kannski elsta þjóðskáldið okkar. Slíkar kempur eiga á hættu að stirðna eins og styttur í vitund fólks og þess vegna er mikilvægt að verk þeirra séu „opnuð“ og metin í nýju fræðilegu ljósi og það er einmitt viðleitni Þóris í þessari nýju bók sem rituð er af mikilli þekkingu og innsæi verður ótvírætt lykilrit í fræðilegri umræðu um 19. öldina næstu áratugi.
Annað nýstárlegt rannsóknarrit sem gefið er út í samvinnu Bókmenntafélags og Reykjavíkurakademíu er bók Ingunnar Ásdísardóttur um hina fornu og vísu jötna, grundvölluð á doktorsriti hennar en algerlega endursamin fyrir íslenska lesendur. Ingunn hefur verið einn helsti íslenski fræðimaðurinn á sviði goðafræði seinustu árin og jötnar eru mjög miðlægir í norrænni goðafræði þannig að þetta rit er augljóslega afar áhugavert fyrir alla áhugamenn um heiðinn sið og forn kvæði fyrir utan að ritið veitir mikilvæga innsýn í nýjar rannsóknaraðferðir og heimildarýni sem kannski voru ekki nógu vel kunn meðal almennings.
Bókmenntafélagið kynnir líka þjóðina í ár fyrir Jóhanni Páli Árnasyni, einum helsta íslenska félagsfræðingi og heimspeki seinustu áratuga en starfsferill hans var einkum erlendis, lengst svo fjarri sem í Ástralíu. Jóhann Páll hefur líka ritað mörg sín helstu rit á erlendum málum og gefið út erlendis. Þeim mun meiri fengur er af digru greinasafni hans á íslensku sem er jafnframt eins konar fræðileg ævisaga og nú er nýkomin út hjá Bókmenntafélaginu. Þar rækir félagið vel sitt hlutverk að kynna þjóðina fyrir því sem hún ætti að þekkja og víkka þannig sjóndeildarhring hennar.
Síðustu áratugi hefur Bókmenntafélagið líka tekið íslenska húsagerðarlist í fóstur og er kannski í takt við vaxandi almennan fræðilegan áhuga á efnismenningu. Björn G. Björnsson hefur þar verið mikilvægur að vekja athygli á byggingarsögu fyrri hluta 20. aldar og saga tíu íslenskra byggingarmeistara frá þeim tíma sem hann sendir nú frá sér er einmitt verk af því tagi sem eykur skilning á þessu sviði og ekki spillir þar fyrir að Björn notar myndir máli sínu til stuðnings. Bókinni verður eflaust vel tekið enda geta þar ýmsir Íslendingar fræðst í henni um ævisögu eigin húsnæðis.