Rödd hins annarlega
Stundum veltur maður fyrir sér til hvers bókmenntir séu og hvaða tilgangur sé með skáldsögum á öld sem einkennist af nýjum formum. Nú sést á þessum síðum að ég horfi talsvert á Netflix og danska sjónvarpið en hvað dregur mig þá að skáldsögum sem kalla á annars konar og heldur meiri virkni? Þurfa þeir ekki að vera orðaðar á þann hátt að myndir stæðust ekki samjöfnuð? Þurfa þær ekki að höfða til ímyndunaraflsins á þann hátt sem mynd getur ekki? Verður ekki prósaskáldverk að vera leikur með hið ósagða? Nýlega eignaðist ég nýjustu skáldsögu Alan Hollinghurst, Our Evenings, sem kom út í september. Þar er á ferð höfundur sem kann allt þetta og flestum betur. Stundum finnst mér að Hollinghurst sé vel geymt leyndarmál, höfundur sem er fremri flestum þeim sem reglulega eru orðaðir við bókmenntaverðlaun Nóbels en þó erum við örfá sem ævinlega kaupum bækur hans hér á landi. Ég á þær allar heima í röð og losa mig við þær á eftir flestu öðru, jafnvel The Spell sem er þó tilkomuminnsta bók hans. Hollinghurst skrifar hægt sem alkunna er og við höfðum beðið eftir Our Evenings í sjö ár en þegar hún kom loksins í mínar hendur var ég fljótur að lesa hana, aðallega af því að ég átti margar andvökunætur á þeim tíma og gat hreinlega ekki hætt að lesa. Ég skal fyrstur manna viðurkenna að ég er letihaugur sem á til að lesa hratt og jafnvel sleppa heila síðunum úr bókum ef leiði sækir að mér en þegar kemur að bókum Hollinghurst sleppi ég aldrei einni einustu setningu.
Þrjár seinustu bækur Hollinghurst hafa fylgt svipuðum frásagnarreglum. Þær teygja sig yfir marga áratugi, sögumenn eru margir og misáreiðanlegir og flestir stórviðburðir gerast milli textabrota. Hollinghurst er ekki höfundur stórviðburða heldur viðbragða, áhrifa og kannski bergmáls. Langanir og þrár eru ævinlega helsta umfjöllunarefni hans og hann kafar dýpra ofan í þær en flestir aðrir höfundar sem ég þekki. Í Our Evenings breytir hann aðeins um stíl þó að sagan spanni áratugi og fylgir einni rödd allan tímann sem er David Win, leikari sem er fæddur árið 1948 og alinn upp í þorpi í Berkshire vestur af Lundúnaborg, þeim mikla og fræga stað sem aðalpersónan okkar þekkir lítið sem ekkert. Hann kemst í fínan skóla vegna velgjörðarmanns í grenndinni og er á framabraut þangað til um tvítugt þegar hann tekur skyndiákvörðun sem breytir lífi hans. Win er ekki yfirþyrmandi sögurödd en svo áberandi í sögunni að miklu skiptir að lesandinn hafi áhuga á honum og það er ekki erfitt. Hér skiptir máli að Win er hálf-enskur en hálf-búrmískur án þess að hafa nein sérstök tengsl önnur við Búrma. Í Englandi er hann vegna litarafts skilgreindur sem útlenskur og einn þeirra dökku og eitt sinn þegar hann er að reyna að húkka far í fyrsta sinn á ævinni nemur ökumaður staðar gagngert til að ausa yfir hann svívirðingum og segja honum að „fara heim til sín“ þó að Win hafi á þeim tíma aldrei komið til annarra landa.
Síðar kemst hann til annarra landa en þó aldrei til Búrma og í raun er næsta lítið vitað um föður hans í sögulok því að Hollinghurst skilur lesendur sína gjarnan eftir með hvers kyns eyður að fylla inn í, óleystar ráðgátur og blæbrigði í samböndum sem aldrei er hægt að negla endanlega niður. Hins vegar fer Win á fermingaraldri á strandhótel í Devon ásamt móður sinni og „vinkonu“ hennar og þetta stutta sumarfrí verður honum mikilvægt, alveg eins og stutt dvöl hans hjá ríkum velgjörðarmanni sínum Mark Hadlow skömmu fyrr. Bókin er full af glefsum, stuttum lýsingum á ferðum sem ekki blasir alltaf við hvers vegna eru í sögunni en eru oft mjög áhrifaríkar, m.a. heimsókn til aldraðs ekkils í Wiltshire. David Win er ekki sögumaður af því tagi sem upplýsir lesandann um hvers vegna hann segir frá tilteknum hlutum en það blasir við að það sem hann kýs að segja frá hefur haft mikil áhrif á hann og þetta skynjar lesandinn. Our Evenings er á sérkennilegan hátt saga um ævisögu, eins og raunar mín eigin Brotamynd. Mitt umfjöllunarefni var hversu ómöguleg og handahófskennd ein ævisaga hlýtur að vera en Hollinghurst stígur skrefinu lengra og kynnir ævisöguna sem það sem einstaklinginn langar til að hugsa um og tjá sig um; þetta er í fullu samræmi við þá staðreynd að skáldsagnaritun hans er jafnan rannsóknavinna um mannlegar þrár. David Win hefur markvisst tileinkað sér að hugsa um hluti sem vekja hjá honum gleði og lífslöngun, m.a. tvo skólafélaga sína. Sagan sem við erum með í höndunum er sennilega af því tagi, þ.e. þau brot úr ævi hans sem hann hefur dvalið lengst við síðar. Þar á meðal eru eðlilega helstu ástarsambönd hans en líka flókið samband hans við Giles Hadlow, son velgjörðarmanns hans.
David og Giles eru jafnaldrar og skólafélagar en aldrei vinir. Þegar sagan hefst hefur Giles níðst á David og beitt hann smávægilegu ofbeldi (meðal annars svokölluðu „chinese burn“ sem erfitt er að tengja ekki við rasisma) en aðeins í skamma stund því að Giles er sú tegund ofbeldismanna sem missir áhugann á fórnarlömbum sínum hratt; síðan einkennast samskiptin af yfirborðshlutleysi þó að David haldi sínum tengslum við foreldra Giles og raunar börn hans að lokum. Það sem kannski skiptir mestu máli er hvernig þessir tveir ólíku menn eru fulltrúar ólíkra afla í Bretlandi, annar verður að lokum helsti Brexit-talsmaður landsins en hinn er hálfur útlendingur og skilgreindur sem framandi af öðrum. Annar sinnir stjórnmálum en hinn leiklist. Annar stendur fyrir andúð á öllu sem hinn er fulltrúi fyrir og sú andúð reynist að lokum vera banvæn. Hvorugur þeirra er beinlínis holdgervingur Englands enda er samfélagið þeir báðir jafnt og margt annað fólk. Annar hefur aftur á móti tekið að sér að vera sjálfskipaður fulltrúi hins enska en hinn er fyrir allra hluta sakir alltaf jaðarmaður og útlagi á allan hugsanlegan hátt vegna þess hver hann er. Að öðru leyti en þessu er ekki dvalið við Brexit eða pólitík. Hjá Hollinghurst er hið persónulega æðra hinu pólitíska sem hefur þó áhrif á það. Það er merkilegt hvernig Hollinghurst tekst í Our Evenings, rétt eins og í The Line of Beauty fyrir aldarfjórðungi, að fanga tíðarandann og m.a. pólitík hans af fágætri nákæmni, innsýn og heimspekilegri forvitni, ekki síst í ljósi þess að hann beinir jafnan augum að hinu smáa. Hann er samt sannarlega stór höfundur að öllu leyti.