Allir drepa yndi sitt – og þó

Ég kynntist enska skáldsagnahöfundinum Alan Hollinghurst fyrst upp úr tvítugu þegar ég keypti fyrstu skáldsögu hans (The Swimming Pool Library, 1988) í Bóksölu stúdenta sem á þeim tíma var ein fremsta menningarmiðstöð Íslands og las hana sjokkeraður yfir opinskáum lýsingunum en skynjaði samt um leið ótrúlegt vald höfundarins á eigin máli sem ég taldi mig kunna dável (sem er algengur misskilningur Íslendinga) en átti eftir að læra mun betur síðar. Næstu bók (The Folding Star, 1994) las ég í fyrstu dvöl minni einn í útlöndum, haustið 1998. Hún var jafnvel enn meira sjokkerandi því að líkt og ég hafði Hollinghurst greinilega lesið Thomas Mann en við háleita fegurð hans bættist nú kynlíf sem var lýst á kaldan og klíniskan hátt en án þess að hin háleita fegurð hyrfi alfarið. Þetta er á sinn hátt mjög lýsandi fyrir Hollinghurst sem er í uppreisn gegn fegurð skírlífsins og því eru atriði í mörgum bókum hans sem þættu klámfengin ef bækurnar væru ekki svona vel skrifaðar. Aðalpersónan í The Folding Star er enskur kennari sem fær þráhyggjukennda ást á belgískum nemanda sínum (ígildi Tadzio) og e.t.v. eyðileggur líf hans en þó er það samband orsök og afleiðingar alls ekki ljóst heldur lifir sem illur grunur persónu og lesenda.

Ég keypti líka þriðju skáldsögu Hollinghursts (The Spell, 1998) sem fjallar um miðlífskrísu manns sem fer að stunda dansklúbba og leita að ungum rekkjunautum. Ekki tengdi ég við efnið (hef lítið ónáðað klúbbana í tímans rás) en kannski staðfestist samt þar með að ég myndi kaupa og lesa allar bækur Hollinghursts, mér fór sjálfum fram í ensku og áttaði mig á miklu valdi hans á galdri setningarinnar. Fáir höfundar kenna það betur með eigin fordæmi að list prósahöfundarins snýst ekki síst um valdið yfir setningum sem eru í senn látlausar og eðlilegar eins og sumarklætt ungmenni en líka eins og hljómkviða. Hollinghurst er kannski ekki Mozart en ótvírætt Johann Sebastian Bach ensks prósaskáldskapar; setningarnar eru hver annarri fegurri og tærari í fjölbreytni sinni. Fyrir utan söguna um dansklúbbana bætist við óhemju áhugavert siðferðisinntak. Loki Laufeyjarson er iðulega aðalpersónan í skáldsögum Hollinghurst, siðferðislega varasöm manneskja sem er hrædd og feimin, leitar fegurðar en skemmir allt sem hún snertir en kannski ekki (e.t.v. hefði Baldur aldrei snúið aftur jafnvel þó að Þökk hefði grátið) því að áhrif einstaklingsins á umhverfið eru óljós. Þetta er þemað í The Folding Star og á sinn hátt líka í verðlaunabókinni The Line of Beauty (2004) sem er mögnuð lýsing á Thatcherárunum í Bretlandi svolítið í anda Angus Wilson sem ég hef áður rætt en kannski svífa Evelyn Waugh og E.M. Forster (nýlega ræddur hér) líka yfir vötnunum; Hollinghurst er með eindæmum vel lesinn en hann stælir aldrei heldur afbyggir. Í The Line of Beauty er það ekki síst snobbið sem er til umræðu eins og hjá Evelyn Waugh, þeim erkisnobbara, nema að núna eru það peningar og auðævi fremur en jarla- og hertogatitlar sem ungir snobbarar hverfast í kringum eins og tungl um sólina. Þetta er auðvitað leiðigjarnt efni eitt sér en Hollinghurst dýpkar það með því að halda áfram að rannsaka fegurðardýrkun, eflaust áfram undir áhrifum frá Mann. Eins kemur eyðni við sögu og kannski tryggði uppgjör við þá hryllingspest sögunni Booker-verðlaunin.

The Line of Beauty er í þremur hlutum og markar veginn að eftirlætisformi Hollinghursts. The Stranger’s Child (2011) og The Sparsholt Affair (2017) eru fimmþættar söguspekilegar skáldsögur sem gerast á mörgum áratugum og hnitast um stórviðburði sem er ekki beinlínis lýst heldur er varpað upp myndum frá ýmsum öðrum tímabilum þar sem fólk tekst á við stóra atburðinn og allar lygarnar og þekkingarleysið á því sem gerðist. Langar senur snúast um eitt matarboð eins og í 19. aldar skáldsögu með þeim afgerandi mun að hér skiptir undirtextinn og hið ósagða oftast mun meira máli en það sem sagt er. Þó að Hollinghurst forðist ekki kynlíf fremur en áður má glöggt sjá aldursmerkin á því að það er ekki lengur jafn yfirþyrmandi og eins er farið að verða ansi langt milli bóka hjá honum líkt og George R.R. Martin. Hollinghurst viðurkennir sjálfur í viðtölum að hann skrifi hægt en allur tíminn er samt á blaðsíðunum, stundum í eyðunum milli setninganna sem jafnvel hörðustu gagnrýnendur hans (ekki líkar öllum við fimmþáttaformið) verða að viðurkenna að hann hefur einstakt vald á.

Bókin sem ég dró fram úr hillunni í ágúst er The Stranger’s Child sem hreif mig þegar ég las hana hægt og rólega á kaffihúsum fyrir mörgum árum. Helsta umfjöllunarefni hennar er ljóð ort á herragarði af einu „stríðsskáldinu“ úr fyrri heimsstyrjöldinni (sérstakt breskt fyrirbæri en af einhverjum ástæðum kom minni skáldskapur úr þeirri seinni). Skáldið Cecil Valance er afar sjarmerandi gaur sem sefur hjá báðum kynjum og enginn veit hvort ljóð hans er ort til stúlkunnar Daphne eða eldri bróður hennar George. Kvæðið verður síðan frægt en engin skáldfrægð er varanleg og bókmenntir þurfa að þola að vera í stöðugi endurmati auk þess sem töffurum hvers tíma finnst einstaklega gaman að pissa á allt sem foreldrum þeirra fannst sérstaklega gott. Auk þess eignast Cecil ævisagnaritara sem er staðráðinn í að hagnýta sér óljósar kynlanganir skáldsins sem er löngu dáið og hann þarf því að endurgera úr óljósum endurminningum aldraðra. Sjálfur Cecil birtist aðeins í fyrsta þætti en vokir yfir sögunni síðan, langanir hans og ljóðlist ekki síður mikilvæg en inntak Schlieffenáætlunarinnar því að ekkert er merkilegra en mannshugur á fleygiferð. Sumum gagnrýnendum finnst galli að það sé ekki skýr mórall í sögunni, það á enn frekar við um The Sparsholt Affair. Sjálfum finnst mér það kostur, Hollinghurst dreymir um að virkja lesandann og ná fram margræðni atburða. Það væri andstætt markmiði hans að færa lesendum síðan lausn eins og höfuð Jóhannes skírara á fati.

Previous
Previous

Mann á Lídó

Next
Next

River og Keanu