Mann á Lídó
Í sumar var kominn tími til að finna Dauðann í Feneyjum eftir Thomas Mann í hillunni, bók sem ég hef aldrei getað sleppt hendinni alveg af eða hún af mér, meðal annars vegna tilvistarlegs kjarna hennar – ekki aðeins af því hún er skemmtilega stutt. Núverandi eintak mitt er gjöf frá mágkonu minni sem las hana í námskeiði í Háskólanum og ég hafði raunar ekki litið í hana síðan ég fór fyrst til Feneyja haustið 2019. Mig grunar að þessi ástarsaga heiti Dauðinn í Feneyjum vegna þess að höfundurinn vilji koma einhverju á framfæri um síamsþríburasamband fegurðarinnar, ástarinnar og dauðans. Ástin er furðulegt ástand, eins og borað hafi verið ofan í tilfinningaglerunginn. Manneskjan sem maður elskar getur verið eins og vatnssopi í miklum hita en stundum eins og sólin sjálf sem breytir líkamshitanum og allri skynjuninni. Thomas Mann fann sennilega aldrei þá ást sem hann sóttist mest eftir og kannski finnur enginn hana en aðeins rithöfundar eru nógu vitlausir að halda leitinni áfram. Dauðinn í Feneyjum fjallar eins og allir eiga að þykjast vita um miðaldra rithöfund sem fer til þessarar rómantísku borgar á ómarkvissum flótta undan sjálfum sér í líki rauðhærðs manns sem er tákngervingur Sílenusar. Þar uppgötvar hann ástina í líki pólsks táningspilts. Þessi ást gæti verið hlægileg eða ömurleg (faflan „fimmtugur karlmaður gónir á ungling og eltir um allar trissur“ hljómar ekki aðlaðandi) en er það ekki í meðförum Manns, jafnvel ekki eftir að þráhyggja rithöfundarins Aschenbach er orðin skynseminni yfirsterkari og hann er farinn að elta pólska unglinginn á röndum. En sem draumur um ástina er pólski unglingspilturinn Tadzio fullkominn því að hann sér höfundinn varla og allt hans fas er háð túlkun skáldsins. Þeir talast aldrei við, ástin snýst um Aschenbach sem áhorfanda að fegurð pólska táningsins. Þess vegna lifir ástin áfram ómenguð af hversdagslegu lífi, unglingspilturinn er alstaðar en ósnertanlegur því að milli hans og rithöfundarins skapast aldrei ótvíræð tengsl. Thomas Mann skrifaði síðar langt mál í dagbækur sínar um unga menn sem þjónuðu honum á hinum og þessum hótelum (m.a. Franz Westermaier sem sjá má hvítklæddan að neðan og var grunlaus um áhuga stórskáldsins) og virtist stundum næstum jafn upptekinn af þeim og Aschenbach af Tadzio en meira hikandi og kjarkminni eða með sterkara súperegó. Inn í söguna fléttast nálægð farsóttar og dauða sem vekur ugg, sem stundum kemur fram sem hræðsla við eigin dauða en oftar sem umhyggja fyrir hinum föla Tadzio. Í þessari þrá verður önnur manneskja að fullkomnum tvífara, hafin upp á stall og tilbeðin en þó eiginlega sem hluti af manni sjálfum, það er aldrei laust við að ástfangni maðurinn elski fyrst og fremst sína eigin ást. Myndmál sögunnar snýst þó hugsanlega frekar um dauðann. Hún hefst í grennd við kirkjugarð og snemma í sögunni kemur fyrir ferjumaður sem virðist ætla að taka völdin af rithöfundinum og ferja hann annað en förinni er heitið. Enn fremur er höfundurinn stöðugt hræddur við að vera tekinn að veikjast eins og við mörg á tímum covidfaraldursins og dauðinn verður æ nálægari eftir því sem líður á sögunni. Dauði hans sjálfs, dauði Tadzios og dauði heimsins — sjálft lífið er í lífshættu.
Þegar sagan hefst er Aschenbach í kreppu með skáldskap sinn. Þar er kominn sá dauði sem listamaðurinn óttast mest, þegar hann getur ekki lengur fangað tilvist sína í orðum og ljáð henni merkingu. Greinileg hliðstæða er milli þeirrar vímu og ástarvímunnar og kannski er listin ásamt ástinni algengasta leið mannsins til að reyna að finna lífið fyrir dauðann sem getur orðið að lífi eftir dauðann. Þegar líður á söguna festist Aschenbach hins vegar í ástarþránni sem heldur honum föstum í Feneyjum, reikandi um á eftir hinum ósnertanlega Tadzio. Listamaðurinn er svefngengill í stöðugum eltingarleik við líf sem hann getur þó aldrei höndlað. Aschenbach er heltekinn af óhöndlanlegri fegurð. Hann þráir listina sem hann er að missa tökin á, pólska unglinginn sem hann getur ekki snert og hverfula æskuna. Í upphafi sögunnar hlær hann að eldri manni sem hefur reynt að gera sig til. Í sögulok er hann sjálfur orðinn sá maður, hlægilegur dauðamaður á harðahlaupum á eftir æskunni og lífinu sem smýgur úr greipum hans. Í sögunni er Aschenbach oft kallaður áhorfandi eins og rithöfundur er kannski alltaf. Sagan kemur fyrir hann og er til í honum. Hann bíður, vonar og þráir en gerir ekkert og allra síst talar hann við drenginn. Þar skiptir auðvitað máli að ást hans á Tadzio er óraunsæ í hans heimi, alveg út í hött og það gerir hana tærari; hún verður hreinræktuð þrá sem aldrei uppfyllist. Kannski er æska Tadzios rithöfundinum einmitt tákn um goðsögnina um lífið sem er stærra en sá draumur sem við lifum. Hið sama gildir kannski um starfa listamannsins sem getur hrifið aðra með sér og sagt þeim eitthvað sem heillar þá en getur hann höndlað það sem er stórfenglegra en hann sjálfur?
Thomas Mann var á fertugsaldri þegar hann setti saman Dauðann í Feneyjum. Seinast þegar ég las bókina var ég á sama aldri en núna er ég kominn á þann aldur sem hann lætur Aschenbach vera á — af eigin hégóma og það skil ég því að eins og honum hefur sjálfsagt fundist fannst mér minn innri Aschenbach kjánalegur þegar ég nálgaðist fertugt. Það er betra að gera hann aðeins eldri, frekar en að horfast í augu við þær kenndir sem fylgja dauðageig fertugsaldursins. Þó að 25 ára dauðahræðslan væri erfið var 37 ára hræðslan verri, á þeim tímapunkti verður ekki undan vikist að æskan er horfin og dauða hennar fylgir sorg sem er eitt af því sem Mann glímir við í sögunni. Þess vegna skiptir öllu máli að Tadzio er ungur og hefur alla eiginleika æskunnar, er lífsglaður án þess að skilja það og ósnertur af dauðanum eins og maðurinn/Mann/Aschenbach getur ekki orðið aftur. Og þrá Aschenbachs beinist ekki síst að þessari æsku Tadzios. Þetta skilja allir sem eru 37 ára. Viðbrögðin eru oft að dulbúa sig sem ungmenni og það gerir höfundurinn líka. Ef ást Aschenbachs á Tadzio er hlægileg, þeim mun hlægilegri er þá skyndileg viðleitni hans til að fanga horfna æsku hjá rakaranum sem á að gera hann ungan á ný. Einkum þar sem Aschenbach hafði áður orðið vitni að slíkri gerviæsku og þótt hún aumkunarverð. Æskan er sjálfsögð meðan hún varir en skyndilega eftirsóknarverð þegar hún er næstum eða alveg horfin.
Stundum stóð ég mig sjálfan að því að horfa á ungmenni upp úr þrítugu, stundum með söknuði og þá næstum jafn hræddur og Aschenbach (eða Mann) um að vera hlægilegur. Tadzio horfir ekki til baka á Aschenbach af sömu áfergju, listamaðurinn veit varla hvort ungmennið sér hann yfirleitt. Tadzio gýtur augunum kæruleysislega á Aschenbach en listamaðurinn er fagmaður í áhorfi. Þetta tengist því að sagan gerist í Feneyjum og allir eru í fríi. Í vinnunni horfa þeir ungu á þá eldri sem hafa valdið og yngra fólkið er tilneytt að horfa á þá og hlusta. Í fríinu horfa þeir gömlu á þá ungu en þeir ungu láta horfa á sig. Enginn lætur þó bera á því. Dauðinn vomir kannski yfir listamanninum einmitt vegna þess að hann er sífellt að eltast við lífið sem er umfangsmeira en hans eigið (og meira eftir af því). Á þann hátt verða listin og skáldskapurinn tvíbent tákn um líf og dauða. Samt er Aschenbach í raun ekki skotspónn höfundarins. Mann sér í gegnum fræga rithöfundinn fimmtuga en tekur hann ekki í sundur þannig að ekki standi steinn yfir steini. Og lesandinn vorkennir ekki einu sinni Aschenbach eða langar til að bjarga honum. Þrátt fyrir allt er þráhyggja hans skiljanleg og gott betur; nánast nauðsyn. Aschenbach eltist við ímyndun sína af því að hann getur ekki annað, eins og ástfanginn maður eltist við lífið sem er þó hans eign fyrir, tímabundið.