Skollaleikir
Midnight Lace var sýnd í íslenska sjónvarpinu sumarið 1986 og um daginn kom yfir mig löngun til að sjá hana á ný; þetta er gömul kvikmynd þar sem Doris Day leikur ameríska konu í Lundúnum sem fær skyndilega símtöl frá manni með undarlega syngjandi rödd sem segist ætla að myrða hana. Ég mundi aðallega eftir upphafsatriðinu þar sem hún heyrir þessa sömu rödd í Lundúnaþokunni á Grosvenortorgi við styttuna af Franklin D. Roosevelt forseta og eins eftir skuggalegum manni sem grunaður var um að vera á bak við röddina. En að sjálfsögðu var það ekki ljóti maðurinn sem var hinn sanni andstæðingur Dorisar heldur eiginmaður hennar (leikinn af Rex Harrison) og fléttan snýst um hvernig enginn annar heyrir röddina eða trúir konunni, vel kunnug flétta enda er sagan grundvölluð á leikriti sem hét Matthildur æpti úlfur, úlfur — hvaða barn hefur ekki heyrt þá dæmisögu og hvaða foreldri hefur ekki sagt hana?
Núna eru Íslendingar undir miklum amerískum áhrifum farnir að kalla þetta fyrirbæri „gaslýsing“ án þess að hér sé gas notað til lýsingar og án þess að margir hafi séð leikritið Gaslight eftir Patrick Hamilton sem var síðan gert að breskri mynd árið 1940 og síðan bandarískri (með Ingrid Bergman) árið 1944 og skilja þar af leiðandi ekki hvað átt er við með gasljósinu. Ég notaði orðið Skollaleikur um sama fyrirbæri í samnefndri skáldsögu vegna þess að mér finnst ekki að íslenska eigi aðeins að vera þýðing á ensku — bíð enn spenntur eftir að Íslendingar taki við þessu orði sem er grundvallað á barnaleik sem allir þekkja — en fléttan er sú sama, um konu sem ekki er trúað og er álitin geðveik og með ranghugmyndir. Í bíómyndinni með Doris stendur áhorfandinn ótvírætt með henni en mér fannst mikilvægt að gera lesendann samsekan og fá hann til að trúa á geðveiki konunnar sem um ræðir. Aðeins með slíkri samsekt skildi lesandinn til fulls hversu agalegur glæpur það er að trúa ekki ofsóttri konu sem að vísu trúir sér varla sjálf. Þó að Skollaleikur sé ekki ein af mínum vinsælustu skáldsögum höfðu margar konur sem lásu bókina samband og röktu svipaðar sögur sem höfðu komið fyrir þær. Einmitt þess vegna eru svona sögur mikilvægar því að skollaleikirnir eru margir og stöðugt í gangi.
Ég var því ekki mjög hissa að komast að því að handritshöfundur Midnight Lace og höfundur leikritsins sem myndin er byggð á er kona, Janet Green (1908–1993) en ég verð að játa að ég kannaðist alls ekki við hana þó að ég þekkti Hamilton og Gaslight. Green var ensk og var upphaflega leikkona en sneri sér síðan að handritagerð og leikritun í félagi við eiginmann sinn, John McCormick. Í tíu ár voru margar bestu bresku kvikmyndirnar gerðar eftir handritum hennar, meðal annars hin frábæra The Long Arm (1956) sem ég sá á Netflix fyrir tveimur árum og finnst óhætt að mæla með en einnig myndir sem ég hef enn ekki séð en mun sjá fljótlega og ræða hér.
Midnight Lace er þannig séð ekki frábær (Doris ofleikur svolítið) en handritið er gott og þess vegna langar mig til að halda áfram þeim leiðangri að kynnast Janet Green aðeins betur.