Hné Páls biskups

Ein af mínum fyrstu fræðigreinum á prenti fjallaði um Páls sögu biskups og birtist árið 1995 í Andvara, tímariti sem ég hef nú ritstýrt síðan 2020. Páls saga hefur aldrei vakið mikla athygli fræðimanna en heldur meiri eftir að steinkista Páls biskups fannst í Skálholti árið 1954 og Páll sjálfur í henni (ekki sérstaklega vel útlítandi en hvernig verðum við árið 2766?). Páll var biskup í Skálholti 1195-1211 og var ekki dýrlingur, saga hans er eins konar eftirmáli við sögu heilags Þorláks og sagnaritið Hungurvöku sem eins og allir sem ég nenni að þekkja vita fjallar um fimm fyrstu biskupana í Skálholti. Páll (aldrei kallaður Palli í sögunni) var systursonur Þorláks helga og sonur Jóns Loftssonar og er einn af mörgum biskupum frá fyrstu öldum íslenskrar kirkjusögu sem tengist einni af helstu höfðingjaættum Íslands. Ekkert er minnst á ritstörf Páls í sögunni en honum hafa verið eignaðar sögur á okkar tímum. Á hinn bóginn er sagt frá menntun hans í Lincoln á Englandi og áhrif þaðan má finna í nokkrum ritum frá samtíma Páls sem kunni þá að vera frá honum komin.

Sagan er líklega samin skömmu eftir andlát Páls (e.t.v. áður en Magnús Gissurarson var vígður árið 1216) þó að handritin séu mun yngri. Eitt af því sem ég ræddi í minni grein er að sagan sé þrátt fyrir allt grein af meiði helgisagnaritunar og gæti verið síðbúinn hluti af staðarsögu Skálholtsstaðar, jafnvel eftirmáli Hungurvöku. Sagan er full af táknrænu og kaþólskum heimsskilningi sem var það sem heillaði mig við hana á sínum tíma og fleiri hafa fjallað um. Þó að Páll sé embættismaður og fjölskyldumaður er hann líka brúðgumi kirkjunnar og náttúran tekur þátt í lífi hans. Það er ánægjulegt að sagan hefur nýlega verið þýdd á ensku af Theodore M. Andersson og er þar með aðgengileg fleirum en áður en Ásdís Egilsdóttir gaf hana út á íslensku árið 2002.

Páll Jónsson hefur þá sérstöðu að vera eina aðalpersóna í íslenskri miðaldasögu sem beinin eru líka til af og þannig er hægt að rannsaka hann bæði með aðferðum bókmenntafræði og fornleifafræði. Nýlega hafa bein hans einmitt verið flutt á Þjóðminjasafnið þar sem þau verða rannsökuð af færustu sérfræðingum. Ef til vill verður hægt að búa til heilmynd (hologram) af Páli Jónssyni sem yrði eitt af helstu kennileitum íslenskra safna, e.t.v. með svipað aðdráttarafl og Sólfarið eða Hallgrímskirkja. Hugsanlega verður Páll Jeremy Bentham Íslands en eins og þið vitið kannski varð sá ágæti heimspekingur „auto-icon“ eftir andlát sitt. Ég man enn eftir lýsingu Jóns Steffensen á Páli í Menningu og meinsemdum þar sem hann getur þess m.a. að Páll hafi verið stuttur til hnésins en það einkenni Íslendinga yfirleitt. Ég hafði aldrei heyrt um þetta þjóðareinkenni fyrr og veit ekki hversu stoltur ég varð af landi og þjóð.

Previous
Previous

Ungi Alfreð

Next
Next

Skollaleikir