Ungi Alfreð

Þó að ég muni sennilega aldrei sjá allar myndirnar sem Alfred Hitchcock leikstýrði áður en hann sló í gegn fyrir sinn sérstaka stíl árið 1934 fann ég tvær á Youtube, þöglu myndina Leigjandann (1927) sem mun vera frægasta þögla mynd hans og fyrstu talmyndina Fjárkúgun (1929) sem ég hafði líka lesið um. Þar með hef ég núna séð allar myndir meistarans nema átta þöglar og sex gamlar talmyndir sem bíða betri tíma enda allar frá þeim árum sem hann hafði heldur minna sjálfstæði en síðar. The Lodger hafði undirtitilinn A Story of the London Fog og hefur þótt meistarastykki. Þetta er fyrsta spennumynd Hitchcocks og markaði feril hans en hún er aðlögun af skáldsögu Marie Belloc Lowndes (systur Hilaire) og var líka í fyrsta sinn sem hann sást sjálfur í eigin kvikmynd eftir að hafa hlaupið í skarðið fyrir forfallaðan leikara en úr varð svo vörumerki hans í hálfa öld. Í myndinni var Hitchcock undir miklum áhrifum frá þýskum expressíónisma og gagnrýnendur sáu flestir snilldina strax þá og hældu myndinni sem hátindi enskrar kvikmyndalistar á þeim tíma. Hvað söguþráð varðar er þemað líka kunnuglegt, unga konan í myndinni heillast af stórundarlega nýja leigjandanum sem ráfar um herbergið uppi og er hugsanlega morðingi og tekur hann fram yfir vörð laganna. Að lokum reynast eðlilegar skýringar á hegðun leigjandans en það sem eftir situr er draumurinn um vonda gaurinn sem hrífur konur.

Blackmail (1929) var fyrsta evrópska talmyndin sem sló í gegn og á því mikinn þátt í síðari frægð Hitchcocks en vegna þess að kvikmyndahljóð var svo nýtt var líka gerð þögul útgáfa fyrir öll bíóin sem réðu ekki við talmyndir og fyrst hélt ég að ég væri að horfa á hana vegna þess að ekki orð er sagt fyrstu sjö mínúturnar. Í aðalhlutverkinu er hin tékkneska Anny Ondra sem síðar gekk að eiga Max Schmeling, heimsmeistara í þungavigt í hnefaleikum. Hún talaði víst ekki sjálf í myndinni og leikkonan sem talar er fremur hvell. Anny leikur konuna sem er fjárkúguð en aðrar lykilpersónur eru kærasti hennar sem er lögreglumaður, listamaður sem reynir að nauðga henni og reynist síðan stunda það að mála naktar konur (þessir listamenn!!) og sjálfur fjárkúgarinn slepjulegi sem að lokum er eltur inn í British Museum og lætur þar lífið eftir æsispennandi flóttatilraun, í fyrsta sinn en ekki það síðasta sem Hitchcock notaði frægustu byggingar og minnismerki heims (Royal Albert Hall, Mount Rushmore, frelsisstyttuna og áfram) í myndum sínum. Húmor meistarans er líka áberandi, t.d. í spjalli gesta í tóbaksbúð foreldra aðalpersónunnar um morðið — seint gleymir maður lögfræðingnum og lækninum sem ræddu morð í kránni í Frenzy (1972) og sögðu „Every cloud has a silver lining“ þegar minnst var á að morðinginn nauðgaði konunum fyrst (þetta gengi tæplega núna þó að auðvitað sé Hitchcock að hæðast að karlpungunum). Ekki er sýnt i mynd þegar konan banar nauðgaranum en atriðið er samt sláandi og hönd mannsins áhrifamikið dæmi um pars pro toto – þó að mörg frægustu atriði í myndum Hitchcocks snúist um ofbeldi gegn konum má samt glöggt sjá trú hans á hina sterku konu sem getur varið sig sjálf.

Hithcock sjálfur sést í lest í Blackmail þar sem óþekktarormur abbast upp á hann snemma í myndinni (nálægt 10. mínútu). Hann lítur sannarlega ekki út fyrir að vera aðeins þrítugur. Í Leigjandanum sjást bæði hjónin en þau giftust 1926 og voru óaðskiljanleg síðan. Alma skrifaði handrit af ýmsum eldri kvikmyndum Hitchcocks og vann eitthvað við allar myndir hans (kannski ber hún ekki minnsta ábyrgð á femíniskum einkennum á myndum hans) en meðan þau voru enn í Bretlandi skrifaði hún líka handrit að kvikmyndum annarra. Alfred og Alma áttu eina dóttur, Patriciu, sem lék í nokkrum myndum Hitchcocks (eftirminnilegust í Strangers on a Train) en hún andaðist ekki fyrr en árið 2021.

Lýkur svo Alfreðs þætti Hitchcocks í bili enda komin ágústlok og september of sjaldan talinn með sumrinu.

Previous
Previous

Prófessorar eru líka fólk

Next
Next

Hné Páls biskups