Prófessorar eru líka fólk

Einn höfundur sem ég hef endurlesið aðeins í sumar er David Lodge (f. 1935) sem ég kynntist fyrst um tvítugt. Mamma og pabbi uppgötvuðu hann og á tímabili átti fjölskyldan allar bækur hans en þær reyndust misgóðar. Þær bestu tengjast háskólasamfélaginu sterkum böndum og aðallega Small World sem fangar tiltekið ástand í heimi fremstu bókmenntafræðinga heimsins á 8. áratugnum á þeim tíma sem flugmiðar voru lúxus og ferðalög ekki fyrst og fremst ónæði. Þetta var ágætis námskeið í bókmenntakenningum líka (en raunar samdi Lodge líka handbækur um bókmenntakenningar), á þeim tíma sótti ég ýmis námskeið um helstu fræði 8. og 9. áratugarins og las höfunda sem ég hef síðan vanrækt eins og Cixous, Derrida, Kristevu, Lacan og Lodge sjálfan og aðra sem ég hef haldið áfram að lesa (m.a. Butler, de Beauvoir, Foucault og Barthes). Eins er Small World undir talsverðum áhrifum frá miðaldarómönsum (og hefur undirtitilinn „Academic Romance“) sem ég var einmitt að kappkosta að kynnast upp úr 1990. Í stuttu máli var ég eins og fyrirmyndarlesandi bókarinnar þó að ég þekkti á þeim tíma lítið til veruleika háskólamannsins en Small World reyndist góður undirbúningur fyrir þau ár sem ég fór mest á málþing. Lodge er ansi hæðinn eins og kemur vel fram í grimmdarlegum lýsingum hans á „medieval banquet“ sem ekki stendur undir væntingum en svipaðan kvöldmat fékk ég seinna á ráðstefnu og var vissulega erfið lífsreynsla.

Annars er það sem hefur lifað lengst úr sögunni svitnandi fræðimaðurinn í Ástralíu sem á að semja fyrirlestur en er fastur í setningunni „The question is, therefore, how can literary criticism …“ því að ég hef oftar en talið verði verið í sporum hans seinustu árin. Ekki finnst mér lýsingar Lodge á samskiptum kynjanna allar hafa elst vel en þær eru góð heimild um hugarfar karla af kynslóð foreldra minna (þau voru sjálf meira í takt við fólk sem nú lifir). Eins hef ég aldrei heyrt getið um William Hazlitt eftir þetta án þess að koma Philip Swallow í hug og margir bandarískir fræðimenn sem ég hef hitt í áranna rás hafa í fyrstu minnt mig á Morris Zapp sem hafði þann metnað að verða hálaunaðasti hugvísindaprófessor heimsins (þó að engum finnist lengur hugvísindi hafa verið í kreppu upp úr 1970 fannst hugvísindamönnum sjálfum þeir æði krepptir þá sem nú). Kannski var það hin karnivalíska stemming sem heillaði mig mest við bækurnar á sínum tíma, hinir merku prófessorar sögunnar eru svo brothættir og ófullkomnir en þegar ég var tvítugur stúdent fannst mér varla til merkara hlutskipti í heiminum en að vera goðumlíkur prófessor sem hefði skrifað margar bækur og greinar sem stúdentar heimsins eru neyddir til að lesa. Ég hef svolítið misst húmorinn fyrir einmitt þessum þætti bókarinnar síðan. Eins er býsna margt í bókunum sem stenst ekki kastljós MeToo-hreyfingarinnar en það kemur mér auðvitað ekki á óvart sem lifði tíma sem voru mun líkari því sem lýst er í Small World.

Það er mér lífsins ómögulegt að lesa bókina án þess að vera kominn aftur til Leeds en ég sótti tíu alþjóðleg miðaldaþing í þeim bæ milli 1994 og 2013 (og einu sinni kom ég við í Birmingham sem er óbein fyrirmynd Rummidge í bókum Lodge) og þau höfðu vissulega áhrif á líf mitt. Það á einnig við um Nice Work sem ég las líka aftur í sumar en hún snýst um samband háskólakennara og iðnaðarfélagsforstjóra sem hittast óviljug eftir að orðið hefur til kjánalegt skiptiprógram sem á að efla tengsl háskóla og atvinnulífs (eflaust algengt umræðuefni á fundum háskólamanna áratugum saman). Að sjálfsögðu enda prófessorinn og forstjórinn í rúminu saman því að Lodge er þannig þó að fyrirmynd hans hér séu einkum enskar raunsæisskáldsögur frá iðnvæðingartíma 19. aldar. Sennilega vegna bælingarinnar sem hann lýsir í ýmsum bókum sínum frá æskuárunum eru bækur hans fullar af kynlífi. Besta aðlögunin á verkum Lodge er sjónvarpsþáttaröð eftir Nice Work sem nú má finna á Youtube, sjálfsagt eiga sjónvarpsmenn léttara að veita innsýn í hinn akademíska heim með því að hafa iðnaðinn með. Þar er hinn íturvaxni Warren Clarke í aðalhlutverki. Mér finnst þó þátturinn ekki jafn góður og bókin, Lodge er sérstaklega góður lýsandi og þannig að lítill ávinningur er í að kvikmynda hans verk.

Í þetta sinn las ég ekki Changing Places á ný en hana las ég seinast í rannsóknaleyfi mínu í Oxford árið 2011 og man hana of vel en svo er hún líka styttri og ófyndnari en hinar bækurnar tvær. Það sem er eftirminnilegast við þá bók er leikurinn „Humiliation“ þar sem fræðimenn geta fengið stig fyrir hverja þá bók sem þeir hafa ekki lesið en allir aðrir hafa. Það er kannski lýsandi fyrir þróun hugvísinda og allrar menningarinnar að leikurinn er sennilega óskiljanlegur núorðið, upp úr 1990 voru háskólar fullir af fólki sem sagðist hafa lesið allan fjárann en á 21. öld eru stúdentar og aðrir ófeimnir við að viðurkenna fáfræði sína um hvaðeina og jafnvel hampa henni. Ekki hefði ég haldið um 1990 að ég myndi sakna raupsins og snobbsins en ég geri það samt því að ekkert er verra en að vera stoltur af eigin fáfræði.

Previous
Previous

Fransk-enskar bænabeiður

Next
Next

Ungi Alfreð