Fransk-enskar bænabeiður

Hubert Monteilhet (1928-2019) er franskur höfundur sem ég heyrði aðeins af nýlega og þekki aðeins af sjónvarpsgerð á skáldsögu hans, Bænabeiðunum (1960). Eins og margir höfundar náði hann meiri vinsældum með sinni fyrstu bók en þeim seinni – sem fær mann til að velta fyrir sér hvort lesendur séu að springa úr nýjungagirni. Montelheit var sögukennari og þó að hann sendi frá sér alls konar skáldsögur af ólíku tagi laðaðist hann að lokum að formi sögulegu skáldsögunnar og helgaði sig þeim seinustu áratugina. Bænabeiðurnar er þó af öðru tagi, það er sakamálasaga með óvæntri fléttu í anda Japrisot þar sem snögg umskipti verða á fórnarlambi og glæpamönnum í miðri bók.

Ensk sjónvarpsgerð af sögu hans var sýnd í Sjónvarpinu þegar ég var 13-14 ára og munu vera fyrstu kynni mín af hinum ágæta leikara Jonathan Pryce. Hann leikur vísindamanninn Christian Magny sem vinnur fyrir sagnfræðiprófessorinn Paul Canova. Sá á yngri konu sem nefnist Vera en sú hjúkraði áður konu hans og syni sem dóu óvænt þrátt fyrir hjúkrun hennar (!). Paul hefur keypt feita líftryggingu að áskorun konunnar ungu sem er óðum að reka fleyg milli hans og helstu vina og vandamanna hans fyrir utan Christian. Sjálfur virðist Christian heillast af hinni ungu Beatrice Manceau og útvegar henni starf sem ritari Canova. Hún fer fljótlega að halda við prófessorinn (þessir erlendu kollegar eru nú meiri folarnir) en þegar Christian biður hennar tekur hún bónorðinu og fyrra sambandi lýkur.

Beatrice er ofurlyktnæm og eitt sinn finnur hún keim af ilmvatni Veru heima hjá sjálfri sér. Hún ákveður að hlera íbúðina (augljós kostur!) og kemst að því að Vera er ástkona Christians og þau ráðgera morð á henni og Paul, undir því yfirskyni að Christian hafi gripið þau fáklædd heima og drepið í sjúklegu afbrýðiskasti en fyrir það voru menn iðulega sýknaðir í Frakklandi ef marka má söguna. Vera fái þá líftrygginguna risavöxnu og þau Christian geti gifst. Eftirminnilegast er þegar Vera þjálfar Christian rækilega í að skjóta Paul fyrst fjórum sinnum, bamm-bamm-bamm-bamm. Eyða svo seinustu þremur skotunum í Beatrice því að hún skipti minna máli. Óvænt reynir Beatrice ekki að stöðva skötuhjúin fyrr en allt hefur gengið upp og Christian hefur dælt fjórum skotum í Paul en þá reynist byssa hans tóm og sjálf heldur Beatrice sigrihrósandi á skotunum þremur sem ætluð voru henni.

Með þessum óvænta viðsnúningi breytist sagan. Núna hefur Beatrice upptöku með hinum illu áformum og öll ráð hinna í hendi sér. Christian er sýknaður af morðinu á Paul en þau Vera lifa eftir það í stöðugum ótta við að Beatrice komi upptökunni á framfæri en það gerðist sjálfkrafa ef hún deyr þannig að öllu máli skiptir fyrir því að halda henni á lífi. Þannig er seinni hluti sögunnar hefndarsaga Beatrice og þær Vera teljast þá báðar bænabeiður sögunnar, skordýr sem heitir praying mantis á ensku og er frægast fyrir að kvendýrið étur karldýrið eftir mök. Ég hvet lesendur til að horfa sjálfir á myndina sem er í heild sinni (tveimur hlutum) á Youtube, en get spillt henni enn frekar (þið áttuð bara að horfa árið 1984) með því að segja að ekki fer vel fyrir neinum sem hugsanlega réttlætir að kalla þetta allt svart eða „noir“.

Previous
Previous

Þór veiðir (ekki) banamann sinn

Next
Next

Prófessorar eru líka fólk