Þór veiðir (ekki) banamann sinn
Hymiskviða er ekki í hópi þeirra eddukvæða sem allir þekkja eða mest hefur verið fjallað um af fræðimönnum en þar er lýst heimsókn Þórs og Týs til jötunsins Hymis að sækja ketil og hinni kunnu veiðiferð þar sem Þór tekst á við sjálfan Miðgarðsorm en frá henni er einnig greint í Snorra-Eddu. Kvæðið er bæði í Konungsbók eddukvæða og miðaldahandritinu sem er stundum kallað A og þar er því hægt að takast á við stakyrði þess með lesbrigðin að vopni. Seinasta orðið í kvæðinu er „hörmeitið“ í Konungsbók en „hörmeit“ án greinis í A og er greinilega sama orð en á hinn bóginn er það hvergi annarstaðar til og liðir þess eru ekki hjálplegir. Hörinn er jurtin sem línið kemur úr en hvernig það hangir saman við meitið er ekki jafn ljóst, sagnorðið meita merkir ‘skera’ en það sem kann að vera skorið úr hör á illa heima í þessari hinstu vísu kvæðisins þar sem virðist vera rætt um mælieiningu tíma sem fellur ágætlega að -tíð í lok orðsins. En hvað tímaeiningin „hörmeit“ ætti að merkja er engan veginn víst. Ég fer strax að hugsa um horae canonicae en þá er stutt í það sem nú er kallað „keltaorðsifjafræði“ og alls ekki liggur í augum uppi hvort skurður á tíðunum ætti að geta verið tímaeining. Ég sit sem sagt uppi með hörmeitið í bili.
Í Gylfaginningu er sama saga rakin en með mun færri frásagnarliðum, mitt á milli sögunnar um ginningu Útgarða-Loka og þeirrar um dauða Baldurs og er rakin sem dæmi um hefnd Þórs á jötnum. Velta má fyrir sér hvort við eigum að sjá tengsl milli veiðiferðar guðsins og viðureign við ófreskjuna Miðgarðsorm og heimsendasagnanna sem fylgja í kjölfarið. Þór er dulbúinn sem ungur drengur (sumir myndlistarmenn gleyma því raunar, sjá að neðan) og Týr er ekki með í för í Snorra-Eddu. Ægi vantar líka alveg í Gylfaginningargerðina en frásögnin er aftur á móti ívið skýrari en hin dularfulla Hymiskviða sem erfitt væri að fá botn í ef við hefðum ekki Snorra-Eddu-gerðina (en ég hef iðulega varað við „samlagningu“ goðsagna eins og þið getið fræðst um í þessari bók). Fyrri hluti kviðunnar er gjörólíkur Gylfaginningarsögunni en mörg sömu minni er þó að finna í báðum gerðum sem gerir Hymiksviðu áhugaverða í túlkun. Fyrir utan að hún er almennt með skrítnari eddukvæðum, t.d. með allmörgum kenningum umfram flest hin.
Fjórar vísur (þrjár hálfur) í Húsdrápu Úlfs Uggasonar sem einnig er varðveitt í Snorra-Eddu fjalla um þessa sömu veiðiferð en þar er fyrst og fremst lýst Þór andspænis ófreskjunni en rammasagan í höll Hymis er þar ekki. Eins er það aðeins í 5. vísu Hymiskviðu að Hymir virðist vera sagður faðir Týs en í Snorra-Eddu er Týr sonur Óðins og þar með hálfbróðir Þórs — en á að taka orðið „sonur“ svo bókstaflega í þessum textum? Getur faðerni ekki verið fjölbreytt þá eins og nú? (Spyr ég sem senn sjöfaldur „doktorvater“). Þó að Æsir séu afkomendur jötna er það oftast í móðurætt en Týr væri sá eini (ásamt Loka) sem ætti jötun að föður. Ekki hjálpar til að lítið er vitað um Hymi því að hann er aðeins til í þessari einu sögu og kenningum. Hugsanlega eru til fornir rúnasteinar með myndum úr þessari sögu (t.d. Gosforth-krossinn en einnig danskir og sænskir steinar); eins og iðulega er þó ekki hafið yfir allan efa að myndin sé af þessari sögu heldur er túlkun myndefnisins öll í ljósi yngri textanna. Það merkir ekki að ég efist endilega um þá túlkun en það er þó mikilvægt að hafa í huga að skilningurinn er fenginn með eins konar „samlagningu“.
Ekkert samkomulag ríkir um aldur Hymiskviðu. Oftast er gert ráð fyrir að hún sé ung (frá 12. öld) en rökin fyrir því eru alls ekki skýr í mínum huga og ég hef ekki komist nær í þessari umferð (þarf að þýða fleiri eddukvæði); mig grunar að ein ástæða sé að hún er full af efni sem fellur ekki vel að öðrum goðsögum og því er freistandi að afgreiða hana sem brenglaða og ósannferðuga. Mér hefur þó alltaf fundist það skylda bókmenntafræðingsins að komast eins langt í túlkun og hægt er áður en atriði í textunum eru afgreidd sem „villur“.