Hörgabrjótar og þríhöfða þursar

Ég hef ævinlega litið á það sem eitt af mínum helstu hlutverkum sem fræðimanns að berjast gegn bókmenntalegum goðsögnum en þetta kallaði minn gamli meistari dr. Jónas Kristjánsson að vera „hörgabrjótur“ (þýðing hans á gríska hugtakinu íkonoklast — þessu innskoti er reyndar óbeint stefnt gegn einhverjum sem ég man ekki lengur hver var sem hafði fundið „enskuslettu“ í Prestsetrinu en það var raunar grískusletta!). Fræðilegar og aðrar goðsagnir eru allar eins og þríhöfða þurs þar sem þrír hausar vaxa í stað hvers eins sem höggvinn er og því mikil Sísyfosariðja (önnur grískusletta!) að berjast við þær en samt er nauðsynlegt að halda áfram að höggva. Mér datt þetta í hug í sumar þegar ég fór í viðtal við ágætt erlent hlaðvarp og leið prýðilega uns skyndilega skaut upp kollinum sú hugmynd að Íslendingar trúi óvenju mikið á álfa sem ég hef raunar skrifað um í Folklore og benti þar á að hugtakið „álfur“ sé illa skilgreint og merki alls ekki það sama núna og á 19. öld og enn fremur vitum við öll sem búum hér á landi að þetta er alls ekki satt hvað sem kann að hafa komið fram í einni könnun (skoðanakannanir hafa ekki beinlínis reynst áreiðanlegar jafnvel þegar kemur að jafn einföldum hlutum og þingkosningum seinni ár, hvað þá flóknum fræðilegum álitaefnum). Auðvitað væri gaman ef þjóðin væri svo þjóðmenningarleg að hún geti varla lagt vegi lengur vegna álfasteina en þetta eru sannarlega ekki þeir „rífum hjallana og rýmum kirkjugarðinn fyrir hóteli“ Íslendingar sem við þekkjum öll.

Eins og ég nefni í téðri grein eru Íslendingar sem trúa á álfa tilbúningur handa heimi sem þarfnast álfatrúandi hefðarsinnaðrar smáþjóðar og þjóðin vill ekki heldur afneita þessu of harkalega af ótta við að glata túristapeningum; líklega er heldur slakur sölupunktur að Íslendingar séu nokkurn veginn eins og allar nágrannaþjóðir. Kannski hafa ekki heldur nógu margir kynnt sér rannsóknir mínar á álfum og annarri yfirnáttúru (sem ævinlega vekur furðu fræðimanns). Í öllu falli er álfatrú eins og öll yfirnáttúra síbreytilegt samfélagslegt fyrirbæri og gersamlega ómögulegt væri að hið vellauðuga tæknivædda velferðarsamfélag ársins 2023 tryði á sömu yfirnáttúru og sárafátækir forfeður okkar í bændasamfélaginu. Ég ítreka að þessi goðsögn er ekki til okkar vegna heldur heimsins rétt eins og 52 orð Ínúíta um snjó (hef ekki kannað það mál en reikna með að það sé goðsögn líka) eða mannætupíranafiskarnir sem ég hef áður minnst á hér á síðum. Væntanlega gildir hið sama um goðsögnina um að 10% Íslendinga muni fá bók eftir sig útgefna á ævinni sem er grundvölluð á allt annarri tölu sem ég veit ekki hve áreiðanleg er en hefur a.m.k. einhvern tímann verið haldið fram utan erlendra fjölmiðla, þeirri að þessi hluti þjóðarinnar muni einhvern tímann birta eitthvað efni á prenti (t.d. minningargrein, skýrslu eða fjölritaðan söngtexta) en alls ekki endilega bók og þetta er reyndar ekki sami hlutur. Frá þessu hef ég vitaskuld sagt öllum sem heyra vilja og ýmsum sem ekki heyra vilja býsna oft en daginn eftir að álfatrú Íslendinga rak sinn úfna haus inn í viðtalið sá ég þessa ímynduðu tölu samt á vefsíðu sem ætluð er ferðamönnum. Hausarnir vaxa, hugsaði ég.

Og þá er rétt að snúa sér að hliðstæðu efni, enska hugtakinu „viking“ sem er vissulega sótt í norrænt mál en hefur þar allt aðra merkingu og það versta sem gerðist væri ef norrænt fólk færi að taka upp þetta orð sem eins konar kynþáttaheiti eins og stundum gerist á ensku því að á miðöldum var það líka notað í okkar heimildum um sjóræningja á Miðjarðarhafi sem aðhylltust íslamstrú. Eins finnst mér gaman að benda enskumælandi kollegum á að hugtakið „víkingaöld“ er raunar búið til í Englandi og snýst um enska sögu en alls ekki um heimssögu og allra síst norræna. Þetta kemur mörgum þeirra á óvart því að enskumælandi fá að venjast því að telja sína sýn vera heimsins. Persónulega myndi ég aldrei nota hugtakið „víkingaöld“ í neinu öðru samhengi en sögu Englands jafnvel þótt á svipuðum tíma hafi líka verið víkingaferðir í austurátt. Hliðstætt er hugtakið „nordic noir“ sem hentar hinum enskumælandi heimi og merkir allt efni með sakamálum frá Norðurlöndum, hversu ólíkar sem sögurnar (eða sjónvarpsþættirnir) eru innbyrðis. Þar sem ég sendi frá mér sex sakamálasögur árin 2018-2023 er mér æsingurinn að klína þessu hugtaki á sem flest norrænt efni um glæpi vel kunnur og minnir mig á þegar við smáþjóðafólkið leggjum til málstofur um meginefni alþjóðlegra málþinga en erum samt sett í „Scandinavian“ þráðinn eða þegar mér var eitt sinn boðið að vera með í málstofu þar sem þrír Íslendingar fjölluðu um gjörólíka hluti á alþjóðlegu miðaldaþingi en sameiginlegt áttum við auðvitað að vera Íslendingar og það var aðalatriðið en ekki hvað við sögðum. Þó að Íslendingar séu ein ríkasta þjóð heimsins og fái að vera með í Vesturlandamenginu er þetta samt auðvitað útilokandi tungumálaþjóðhyggja enskumælandi sem gengur út á að fólk utan enskumælandi heimsins hafi ekkert almennt áhugavert til málanna að leggja en geti vel verið skemmtilegt í apabúri með öðru fólki með álíka undarleg nöfn og stundum finnst mér „nordic noir“ hugtakið (þótt vinsælt sé) hafa svipaða virkni. Ef Íslendingur skrifar sögu með glæp í getur hún aðeins verið áhugaverð sem menningartúrismi og best að fossar og Norðurljósin komi sem mest fyrir eða þá íslenski hesturinn.

Allt þetta kom mér í hug um daginn þegar ég var einu sinni enn spurður hvers vegna glæpasögur séu svona vinsælar á Íslandi og Norðurlöndum þrátt fyrir lága tíðni glæpa (sjá huggulega mynd að ofan). Mitt svar var (aftur) að glæpasögur séu vinsælar alstaðar, engin gögn liggi fyrir um að þær séu sérstaklega vinsælar á Norðurlöndum og þó að þær hafi ekki notið neinnar virðingar á Íslandi fyrr en um 2000 (það síðasta hefur beinlínis verið rannsakað) hafði það sennilega lítið að gera með ótrúverðugleika vegna lágrar glæpatíðni heldur að höfundarnir höfðu ekki nægileg tök á forminu til að sögurnar gætu kallast „raunsæislegar“ (í merkingunni að listræna blekkingin sé trúverðug). Því að bókmenntahugtakið „raunsæi“ snýst ekki síst um hæfileika höfundarins en það er efni í aðra enn lengri grein. Þegar höfundarnir náðu síðan betri tökum á forminu varð þessi alþjóðlega bókmenntagrein jafn vinsæl hér og annarstaðar og skömmu síðar héldu íslenskar sögur þar að auki innreið sína á enskan markað sem „nordic noir“ í kjölfar Mankells og annarra vinsælla norrænna sakamálasagnahöfunda. En hugtakið „nordic noir“ lýsir viðtökum þessara bóka í enskumælandi heimi, alls ekki hvað íslenskum höfundum gengur til eða hvað þeir fjalla um í sínum bókum. Þó að vinsældir séu góðar og túrisminn mikilvæg undirstaða efnahagslífsins má þetta tvennt ekki ráða hinu bókmenntalega gildismati eitt sér og við missum af miklu ef við horfum ævinlega á okkur sjálf gegnum ensk-amerísk gleraugu.

Þessi grein gæti orðið mjög löng ef ég ætlaði að fjalla um enn fleiri bókmenntalegar og menningarlegar goðsagnir sem íslenskir fræðimenn þurfa stundum að glíma við í samskiptum við alþjóðaheiminn enda af nógu að taka þannig að ég mun að þessu sinni ekki segja orð um þá fullyrðingu að íslenska sé nokkurn veginn óbreytt frá dögum Snorra Sturlusonar.

Previous
Previous

Guðbergur

Next
Next

Þór veiðir (ekki) banamann sinn