Guðbergur

Látinn er einn áhugaverðasti íslenski rithöfundur seinustu sextíu ára sem aldrei varð hljótt um, sem stöðugt ögraði þjóðinni en einkum menningarelítunni allan þann tíma og sem þrátt fyrir öll verðlaun og viðurkenningar hélt áfram að vera vinsælastur meðal þeirra skrítnu og öðruvísi sem ekki fundu sig í öðrum höfundum og bókmenntum. Hann hafði ávallt sína eigin aðferð og náði stundum að lýsa því sem enginn annar hefur náð utan um.

Þar sem þetta er mín síða og ég er ekki sérfróður um verk Guðbergs Bergssonar (hef þó lesið tvo þriðju eða svo) er líklega rétt að huga frekar að hinu persónulega. Ég hitti Guðberg nokkrum sinnum, að minnsta kosti þrisvar í Grindavík á vegum Birnu og nokkrum sinnum nálægt heimili mínu í Álfheimum því að bróðir hans bjó í sama húsi. Helgina sem mamma dó mætti ég að lesa hjá MFÍK og þá settust Guðbergur og Vilborg Dagbjartsdóttir hjá mér og áttu stórundarlegar gamalmennasamræður sem hefðu átt heima í einni af bókum hans en það létti huga minn einkennilega. Mamma var alla tíð aðdáandi Guðbergs en oft þó pirruð á honum eins og líklega allir aðdáendur hans, sérstaklega hrifin af Svaninum sem fangaði barnsreynslu sem hún þekkti og bernskubókunum hans tveimur. Eitt sinn taldi hún upp fólk sem væri „öðruvísi“ og mundi aðeins eftir sjálfri sér og Guðbergi Bergssyni.

Tvær af bestu bókum sínum gaf Guðbergur út sama árið – talandi dæmi þess að skáldgáfan verður ekki skömmtuð. Hann var hamhleypa til verka og gott dæmi um að það er hægt að fjarlægja strákinn úr Grindavík en aldrei Grindavík úr stráknum. Andúð Guðbergs á að smjaðra fyrir fólki var oft mistúlkuð. Oft var hann sakaður á frekar fordómafullan hátt um að hata konur en samt er hann einn fárra karlkynshöfunda af sinni kynslóð sem sannarlega sá konur og sem þær sjálfar en ekki aðeins eitthvað sem karlmenn þrá. Eins var hann oft sakaður um að hata Íslendinga en mér fannst hann einmitt elska íslensku þjóðina í allri sinni dýrð og eymd og fjölbreytileika, umfram flesta íslenska höfunda og sannarlega umfram mig sjálfan.

Previous
Previous

Harmur refsinornar

Next
Next

Hörgabrjótar og þríhöfða þursar