Harmur refsinornar
Um daginn rakst ég á verðlaunamyndina Efnileg ung kona (2020) á Netflix; ég hafði ekki séð hana á sínum tíma og man ekki eftir neinni hérlendri umræðu um hana en hún er samt meiri umræðu virði en flestar bíómyndir. Leikstjóri og handritshöfundur er leikkonan Emerald Fennell (Camilla í The Crown) sem er greinilega upprennandi snillingur en Carey Mulligan leikur aðalhlutverkið. Cassie er þrítug kona (enda Balzac búinn að finna upp þrítugu konuna líkt og Sveinn Skorri kenndi okkur í íslenskunni á sínum tíma, en Gestur Pálsson flutti hana til Íslands) sem þykist vera ofurölvi á almannafæri. Það bregst ekki að til hennar koma ýmsir kavalérar og björgunarsveitarmenn sem reynast þó hafa illt í hyggju og hún fer með þeim heim en hættir svo snögglega að leika sig fulla og þá bregður þeim illa, afhjúpaðir sem misnotarar og væntanlegir nauðgarar. Margir þessara manna þykjast vera góðir gaurar og eru jafnvel sannfærandi í því hlutverki. Með leiknum afhjúpar Cassie aftur á móti þeirra rétta eðli og glímir síðan við afsakanayfirklór þeirra og krókódílatár auk þess sem hún leitar í smiðju Thelmu og Louise og hefnir sín eitt sinn á dólgslegum bílstjóra sem veitist að henni í umferðinni (en lærir ekki neitt í myndinni, einn fárra).
Þetta er í stuttu máli eins konar hefndarfantasía, bókmennta- og ekki síst kvikmyndaform sem er vel þekkt síðan á 8. áratugnum en öfugt við aðrar slíkar sögur hefst þessi á hefndinni og síðan kynnumst við forsendum hennar og öllum flækjunum sem af henni stafa. Cassie hefur enga sérstaka nautn af iðju sinni sem er augljóst trámaviðbragð og þjáist raunar talsvert á vegferðinni þó að hún hafi ríka þörf fyrir að afhjúpa þessa náunga sem þykjast vera góðir og kannski karlkynið yfirleitt sem kemur alls ekki vel út úr þessari mynd. Cassie er öðrum þræði knúin áfram af sektarkennd vegna vinkonunnar Ninu sem framdi sjálfsmorð fyrir löngu en annars er ekki alveg skýrt hvað rekur hana áfram í þessi átök (enda þarf ekki allt að vera skýrt og er það ekki í raunheiminum) og hún virðist raunar ekki hafa minni þörf fyrir að hefna sín á konunum (öðrum en henni sjálfri) sem brugðust Ninu en karlkyninu yfirleitt og pyntar þær á hátt sem minnir á það sem Ninu var gert sem gerir að verkum að það er erfitt að hafa óblandna samúð með henni.
Að lokum fáum við að sjá sjálfan nauðgarann sem er leikinn af hinum afar sakleysislega Chris Lowell sem ég man eftir úr ótal góðragaurahlutverkum fyrir 15-20 árum og það sama gildir raunar um marga leikarana í hlutverkum vinalegu árásarmannanna (Seth úr The OC er einn). Augljóslega hefur Fennell vandað sig að finna alla gæðalegustu leikara sinnar kynslóðar til að skýra boðskapinn um karlmenn sem flögð undir fögru skinni (hún hefur greinilega hlustað á Friedkin sem ég ræddi um daginn og segir að öll list leikstjórans felist í að „kasta“ rétt — en í þessu tilviki gegn hefðum). Mjög óvænt reynist hinn frægi skúrkaleikari Alfred Molina vera eini karlmaðurinn sem hefur séð að sér og skilur verkefni Carrie fullkomlega (eins og í kaþólskri trú kemst hann hjá refsingu með iðruninni) og önnur sympatísk aðalpersóna er leikin af sjálfum kúrganinum Clancy Brown (en konan hans af hinni óborganlegu Jennifer Coolidge). Sagan tekur síðan fleiri óvænta snúninga og þróast alls ekki í þá átt sem maður á von á. Um leið er eini náunginn sem maður hefur bundið einhverja von við (leikinn af uppistandaranum Bo Burnham sem mér skilst að hafi líka sterka góðsgaursímynd) afhjúpaður sem meðsekur í ofbeldiskerfi hinna karlmannanna og verður þannig hálfgerður Lúsífer sögunnar en aumkunarverðari þó en sú goðsagnavera.
Refsninornin Cassie vinnur oftast ein og fær lítinn sem engan stuðning í myndinni, viðbrögðin við hegðun hennar einkennast ýmist af áhyggjum, reiði eða undanfærslum og hún rekst stöðugt á klisjuvegg sem allir kannast við úr umræðum um kynferðisglæpi. Hennar viðhorf eru líka stundum blandin efa en þó heldur hún áfram að snúa öllu á rönguna og okkur býðst ekki annað en að standa með henni þó að mörgum finnist eflaust eins og ýmsum persónum myndarinnar að hún gangi ansi langt í viðleitni sinni til að kalla samfélagið til ábyrgðar. Það verður ekki heldur sagt að þetta fari allt vel, endirinn skilur mann eftir hálfdasaðan og eftir stendur efinn um hvaða vit sé í hlutskiptinu sem Cassie valdi sér, blönduð ánægjunni yfir því hversu mörg dusilmenni hún neyddi til að horfast í augu við sjálfa sig.