Streatfeild og fagmennskan
Þegar ég var barn voru bækurnar um Emmu til á heimilinu, í skáp systur minnar sem leyndist í norðvesturhorni stofunnar og ég las oft þó að þær væru augljóslega ætlaðar stelpum. Þetta var á 8. áratugnum og stöðug umræða um muninn á strákum og stelpum sem þótti mikilvægt að innprenta öllum krökkum rækilega; venjan var þá að lesa stelpubækur líka en segja engum utan heimilis frá því. Síðan féllu þessar bækur til mín þegar við skiptum þeim fáu barnabókum sem enn voru til í Álfheimum vorið 2012 (mamma hafði tröllatrú á að grisja bókakostinn reglulega) og ég las þær þá og aftur í sumar mér til skemmtunar enda auðlesnar. Við áttum þrjár af fjórum bókum en þá seinustu greip ég á bókaborði til að fullkomna safnið og hún heitir „Emma verður ástfangin“ þó að bókin fjalli raunar ekki sérstaklega mikið um það og draumaprinsinn sjáist varla í bókinni. Bækurnar eru eftir Noel Streatfeild (1895–1986) sem skrifaði mikinn fjölda bóka, flestallar um börn og ungmenni í listum og skemmtanaiðnaðinum. Emmubækurnar skrifaði hún á gamalsaldri og þær hafa aldrei þótt sérstaklega góðar. Þess vegna mun ég skrifa stutta málsvörn.
Á frummálinu heitir Emma raunar Gemma og bækurnar fjórar eru kallaðar Gemmu-serían, komu út 1968–1969 en á íslensku 1973–1976, þýddar af Jóhönnu Sveinsdóttur og Iðunni Reykdal. Það má gefa gagnrýnendum það að stíllinn í bókunum er ekki tilþrifamikill og söguþræðir afar einfaldir, í sumar las ég allar fjórar á sama kvöldi ef ég man rétt. Söguþráðurinn fjallar um Emmu sem var barnastjarna í kvikmyndum en fær ekki lengur hlutverk og móðir hennar Regína (Rowena í frumtextanum) sem var um hríð í sama vanda fær nú hlutverk í Bandaríkjunum. Mamman sendir Emmu því til eldri systur sinnar Aldísar (Alice) sem býr í Headstone sem mun vera tilbúinn bær ekki óralangt frá Lundúnum. Systirin er gift fv. fiðluleikara sem fékk gigt og börnin þeirra eru öll listræn: syngja, dansa og leika á hljóðfæri. Emma gengur undir dulnefninu Robinson en hún þolir ekki vel að vera núll og nix í þessum Garðabæ og fer fljótlega að slá í gegn í skólaleikritum. Að lokum kemst upp hver hún er en þau lifa það af og Emma ákveður að gerast menntuð leikkona og fara í listaskóla.
Aðalumfjöllunarefni bókaflokksins er munurinn á fagmönnum og amatörum í listinni. Þó að frændfólk Emmu, Robinsonfjölskyldan, séu listræn og hæfileikarík eru þau amatörar en Emma er fagmaður og þetta er ítrekað nefnt í senum bókarinnar. Noel Streatfeild hafði kannski ekki fram að færa mikilvægan boðskap um tilvist mannsins en þetta er greinilega eitthvað sem hana langar að koma á framfæri og ég man að ég lærði talsvert á þessu á sínum tíma og í daglegu lífi rekst ég enn á muninn á fagmanninum og amatörnum. Auðvitað skiptir hann máli fyrir alla sem vinna í skólakerfinu og kannski ekki minnst í hugvísindum því að enn skilja margir ekki mun á fagmönnum og amatörum á því sviði. Annað gagn sem ég hef haft af Emmu-bókunum er að þær höfðuðu til mín á sínum tíma vegna þess að þær voru nýjar en margar barnabækur voru það ekki og af því má draga lærdóm. Frægt er að foreldrar vilja gjarnan að börnin lesi sömu barnabækur og þau og auðvitað þurfa krakkar að kynnast því sem er sígilt en það er líka mikilvægt fyrir börn að lesa nýjar bækur um það samfélag sem er núna við lýði, jafnvel þó að það sé á Englandi og allir séu í skólabúningum.
Eitt atriði bókanna snýst um hæfileikakeppni í sjónvarpi og ég var mjög handgenginn sjónvarpi á bernskuárunum (fékk þó aldrei að koma fram í sjónvarpi fyrr en óvænt þegar ég var sextán ára). Svo að ég nefni fleiri rök er mikil áhersla í bókaflokknum á empatíu og samstöðu með öðrum. Noel Streatfeild þekkti marga listamenn og var greinilega sannfærð um að eigingirni og sjálfselska væru eitthvað sem þeir ættu á hættu og þyrftu að varast en eru samt líka stundum nauðsynlegir eiginleikar fyrir þann sem vill ná árangri í list sinni og um þessar andstæður er fjallað í Emmubókunum. Bældar tilfinningar eru óhjákvæmilega talsvert til umræðu í bókum sem gerast á Bretlandseyjum og styrkur bókanna liggur í því að þó að persónurnar séu allar einfaldar eru þær samt trúverðugar og sannfærandi (sömu gáfu hafði Agöthu Christie) og auðvelt að standa með þeim öllum, jafnvel sjálfri Emmu sem fær mestu athyglina en kannski er samt erfiðast að átta sig á. Ég hef líklega ekki lesið meira eftir Noel og sjálfsagt eru ýmsar aðrar bækur hennar vandaðri, en Emmubækurnar eru henni ekkert til skammar og eru alveg þess virði að lesa einu sinni (og oftar ef maður er gamall lesandi að komast í samband við eigin bernsku).