Núningur á Nautaflötum

Þetta sumar réð ég ekki við að lesa margar nýjar bækur eins og lesendur þessarar síðu hafa eflaust uppgötvað (hef samt ekki skrifað um þær sem ég þó las en fannst ekki góðar) en hef í staðinn gripið gamlar bækur úr hillunum og velt þeim nánar fyrir mér. Bókmenntafræðingur er ævinlega í vinnunni, a.m.k. við lestur og áhorf og jafnvel í laxveiðum því að veiðar geta verið texti líka. Ég eignaðist Dalalíf Guðrúnar frá Lundi fyrir mörgum árum, 2000-útgáfuna. Margir reyndu síðan að ná henni af mér þegar hún hafði selst upp nokkrum árum síðar en ég ætlaði mér að lesa hana aftur og gerði það einu sinni enn í sumar. Þessi hvalkynjaða skáldsaga í fimm bindum (alls um 2200 blaðsíður) kom fyrst út árin 1946-1951 og var Guðrún um sextugt þegar hún hóf sinn feril sem útgefinn höfundur. Eftir að fyrsta bindi Dalalífs kom út lifði Guðrún frá Lundi í ein 29 ár og gaf út 27 skáldsögur. Árin 1969 og 1974 voru semsé einu árin sem Guðrún sendi ekki frá sér skáldsögu og þessar bækur voru ekkert sérstaklega litlar að vöxtum. Fyrir utan Dalalíf í fimm bindum eru þetta Utan frá sjó í fjórum bindum (1970-1973), Tengdadóttirin í þremur bindum (1952-1954) og Stýfðar fjaðrir í þremur (1961-1963). Þá skrifaði hún tvær „trílógíur“ þar sem hvert bindi hefur sitt nafn (Svíður sárt brenndum 1958, Á ókunnum slóðum 1959 og Í heimahögum 1960, og Sólmánaðardagar í Sellandi 1965, Dregur ský fyrir sól 1966 og Náttmálaskin 1967). Fyrir þá sem eru seinir að telja þá eru þetta alls 21 bækur. Tvær bækur standa svo saman (Þar sem brimaldan brotnar 1955 og Römm er sú taug 1956) og fjórar eru stakar (Afdalabarn 1950, Ölduföll 1957, Hvikul er konuást 1964, Gulnuð blöð 1968). Þetta eru alls nálægt 7000 bls. af skáldskap og fáir hafa lesið allt en ég hef lesið allar bækurnar sem hún gaf út fyrir 1955 og nokkrar yngri sem eru engan veginn jafn góðar. Umræða um Guðrúnu hefur verið á þá leið að hún sé vanmetin, meðal annars í ljósi kellingabókahugtaksins sem Sigurður A. Magnússon dró fram árið 1964, en það á varla við lengur þegar hún er einn örfárra höfunda frá miðri 20. öld sem er enn gefinn út. Ég man að á sínum tíma las ég Dalalíf ekki hratt heldur staldraði við, gerði ættartölur og skráði niður nöfn persóna (og bæjanna sem þær voru iðulega kenndar við) eins og þegar ég var barn. Dalalíf er raunræisleg samfélagslýsing og þar er fjallað um stéttskiptingu, stöðu kvenna og alls kyns samfélagsmein, s.s. sjálfsmorð og geðveiki (síðar má minna á neftóbaksfíkn húsfreyjunnar í Tengadótturinni). Hún er auðlesin fyrir utan umfangið enda ekki ætlun höfundar að vera avant garde.

Dalalíf er að sumu leyti eins og Buddenbrooks þó að væntanlega sé Jón Trausti meiri áhrifavaldur en Nóbelsskáldið Mann. Hrútadalurinn er lagskipt samfélag. Miðdepill þess er hreppstjórabærinn Nautaflatir en hreppstjóratignin gengur þar í arf. Þar búa í fyrstu bindunum hjónin Jakob og Lísibet en næsta kynslóð á eftir er í aðalhlutverki í sögunni, einkum sonurinn Jón Jakobsson (sá hrútur sem öðrum fremur setur svip sinn á dalinn) sem er auðvitað ekki blóðsonur beggja (rangfeðranir voru helsta umræðuefni Íslendinga öldum saman og fram á minn dag). Þetta er gefið í skyn fljótlega og sagan er full af frásagnartvísæi: reyndur lesandi skilur eitthvað sem sögupersónurnar vita ekki og getur þar með engst um í mörghundruð blaðsíður og beðið eftir því að upp komist um rangfeðrun Jóns Jakobssonar. Aðalpersónan í þessari fléttu er Lísibet á Nautaflötum sem ríkir eins og drottning í dalnum fyrstu tvö bindin. Aðrar sögupersónur líta upp til hennar svo að jaðrar við tilbeiðslu (og ekki síður eftir að hún er fallin frá) en hvað á lesendum að finnast? Einnig hér skapar Guðrún frá Lundi frásagnartvísæi með því að gefa lesendum færi á að meta Lísibet sjálfir. Er hún góð móðir? Hvað með afstöðu hennar til áfengis? Hún elur son sinn upp sem gleðimann sem hefur litla stjórn á eigin fýsnum. Sem kemur ekki að sök í fyrstu en hefur sín áhrif á hjónaband Jóns og hinnar pasturslitlu Önnu þegar tekur að líða á söguna. Í fyrstu bindunum tveimur erum við einnig kynnt fyrir konu sem við getum dáðst að: Þóru frá Hvammi. Hún ann Jóni Jakobssyni en er ekki ætlað að giftast honum. Það er aldrei skýrt til fulls hvers vegna. Það er stéttarmunur á þeim á meðan Anna kemur úr kaupstaðnum. Svo er Þóra skapmikil og sjálfráð og hentar kannski illa þeim vínhneigða kvennamanni sem Jón hefur verið alinn upp til að vera. Milli Lísibetar og Þóru ríkir gagnkvæm virðing en þær eru andstæðingar þar sem önnur kemur í veg fyrir hjónabandssælu hinnar.

Mín eftirlætispersóna í Dalalífi birtist í þriðja bindi og í þetta sinn hlakkaði ég til öll fyrstu tvö bindin að hitta hana aftur. Það er Ketilríður frá Jarðbrú sem er eins konar hreyfiafl (katalysator eins og Ásfríður Svendsen kallaði það á sínum tíma) sögunnar og fulltrúi óreiðunnar. Ketilríður kemur á Nautaflatir eftir að heimili hennar hefur verið leyst upp vegna sauðaþjófnaðar og verður rógberi Nautaflata. Hún er fljót að komast að því hver sé veikur fyrir og líklegastur til að hlusta á söguburð. Oftast er það hin viðkvæma Anna húsfreyja á Nautaflötum. Hún er líka nösk á veikleika. Samband hjúanna Þórðar og Línu er brothætt og fer leynt. Ketilríður getur nýtt sér það til að ná tangarhaldi á Línu. Hún notar húsfreyju til að ná sér niður á Finni gamla sem í raun er hálfbróðir Jakobs heitins hreppstjóra og rekur þá fleyg milli þeirra Jóns og Önnu. Sjaldnast er það hins vegar þannig að Ketilríður baki vandræðin úr engu. Þvert á móti virðist ástandið iðulega eldfimt fyrir og Ketilríður verkar fremur sem púðurkerling en sjálft eldsneytið. Það á við um hegðun Jóns húsbónda. Hann duflar við Línu vinnukonu og það þefar Ketilríður uppi. Þannig nær hún tangarhaldi á Línu og um leið á Önnu húsfreyju sem er grunlaus um ótryggð mannsins síns. Skemmtanafíkn hans og drykkja stafa ekki heldur af Ketilríði þó að hún geti nýtt sér hegðun Jóns til að koma landskjálftum af stað á Nautaflötum. Þannig er Ketilríður stundum eins og Gregers Werle hjá Ibsen (dæmi Ásfríðar um „katalysator“ ef ég man rétt), kemur illu af stað með því að draga það fram sem satt er og rétt. Þannig hefur hún mun meiri áhrif en ef hún skapaði ófrið úr engu. Ketilríður hefur áhrif í sögunni með því að troða á kaunum sem eru fyrir hendi og henni verður ekki kennt um. Þannig kemur hún af stað óvæntri rás atburða.

Almannarómur er mikilvægur í verkum Guðrúnar frá Lundi og meðferðin á Ketilríði er gott dæmi um það. Strax í upphafi kemur fram hve óvinsæl hún er og raunar liggja aðrar persónur ekki á þeirri skoðun að Ketilríður sé til óþurftar, illa lynt og meinbæg. En sama hversu uppsigað öðrum sögupersónum er við Ketilríði er sanngirni alltaf gætt. Yfirleitt er henni ekki hallmælt án þess að það sé látið fylgja að hún sé vinnusöm, hamhleypa til verka, dugnaðarforkur. Þannig er innbyggð tvöfeldni í hvernig Ketilríði er lýst: hún kom illu til leiðar en vann fyrir sínu plássi. Hún er rógberi en verkmanneskja. Oft er þetta raunar sagt til að lúskra á Dísu dóttur Ketilríðar sem er aðalpersóna í 4. og 5. bók. Dísa hefur nefnilega erft margt illt frá móður sinni en ekki vinnugleðina. Ketilríður kemur aðeins við sögu í einu bindi af fimm. Í lok þriðja bindis deyr hún en iðrast fyrir andlátið og þegar hún er jarðsett flytur presturinn hjartnæma líkræðu sem skapar nýja tilfinningu fyrir Ketilríði sem er þó ekki alls kostar laus við íróníu: „Hann lýsti því, hvernig þessi stórlynda kona hefði í uppvextinum orðið að hrekjast milli manna; alls staðar hefði hún mætt kulda og kærleiksleysi, þar til hið góða frækorn, sem sáð væri í hverja barnssál, hefði kulnað að mestu, og hún orðið óblíð og tortryggin í viðbúð. Þá minntist hann á hið mikla vinnuþrek, sem hinni framliðnu hefði verið gefið“. Íbúar í Hrútadal tárfella undir ræðunni en sitt sýnist hverjum þegar þeir fara að vega og meta hina látnu að henni lokinni.

Previous
Previous

Prinsar í fantasíu og í raun

Next
Next

Streatfeild og fagmennskan