Prinsar í fantasíu og í raun

Amazon Prime-myndin Red, White and Royal Blue er froða og ég ætlaði fyrst ekkert að skrifa um hana fremur en alla bresku leikjaþættina sem ég hef horft á í sumar (heilu syrpurnar af Mock the Week, Only Connect, Never Mind the Buzzcocks og það versta, Virtually Famous, ég stenst ekki breskt sjónvarpsgrín) en svo fór ég að hugsa um hana sem fantasíu sem nær utan um ákveðið sögulegt móment sem rétt sé að hafa orð á. Hún er gerð eftir bók sem ég hef ekki lesið (fremur en bókina Heartstopper sem ég skrifaði um fyrir mánuði) og fjallar um ástarsamband ensks prins og sonar Bandaríkjaforseta sem er kona gift innflytjanda frá Mexíkó (hefur enn ekki gerst í raun en ég get ekki ímyndað mér að forseti þess ágæta heimsveldis í nútímalegri mynd væri Chester A. Arthur). Í upphafi virðist þessum tveimur ungu fínu mönnum í nöp hvorum við hinn en þegar þeim er báðum hrint inn í kústaskáp vegna öryggishættu uppgötva þeir að undir fæðinni búa jákvæðari kenndir og eftir mikil samskipti í símanum (sem þeim virðist leyfast að nota þrátt fyrir allar öryggisreglur) hittast þeir á nýársnótt og enski prinsinn kyssir þá ameríska forsetasoninn óvænt og eftir það verður ekki aftur snúið. Mjög froðukennt auðvitað eins og allar ástarmyndir um prinsa og frægt fólk hljóta að vera (ég hélt fyrirfram að myndin væri einkum ætluð þeim sem hafa séð allar myndirnar um Karl og Díönu en því miður er ég einn þeirra!) en leikararnir eru sjarmerandi og engum ætti að leiðast að horfa á þá. Hver veit nema að vinsælu sænsku þættirnir Young Royals séu áhrifavaldur en þar má þó finna stéttaumræðu sem er fjarri í þessari mynd og önnur aðalpersónan er með (að vísu mjög lítilfjörleg) bóluör.

Íslendingar eru kannski manna minnst uppnæmir fyrir prinsum eins og sést best á því að íslenskar stúlkur muna stundum ekki einu sinni hvort draumaprinsinn heitir Benóný eða Benjamín. Í hinum stóra heimi lifir þó enn goðsögnin sem þessi mynd þrífst á. Líklega er mesta fantasía myndarinnar sú að enski prinsinn er aðlaðandi, sympatísk og mennsk persóna — eftir að hafa óskiljanlega horft á langa og illa gerða heimildaþætti um nafna hans Harry hertoga af Sussex sem er raunverulegur prins og voru gerðir af heilum her auglýsinga- og áróðursmanna fyrir þau Sussexhjónin þá get ég fullyrt að þetta er engan veginn raunsætt. Maður sér prinsinn þannig ekki fyrir sér í nasistabúningi eða við manndráp í Afganistan en hann er fangi í gullbúri, dreymir um að vera ósýnilegur og hefur það mest á móti forsetasyninum að hans metnaður er þvert á móti að láta að sér kveða opinberlega, auðvitað til að hjálpa fólki. Forsetasonurinn er opnari týpa enda bandarískur og mesta fantasían um hann er að það sjást engin peningaöfl á bak við hann eða fjölskyldu hans. Þar að auki vinnur stráksi forsetakosningarnar fyrir mömmuna með því að breyta öllu Texas í Austin á einu sumri (þennan draum skiljum við sem höfum verið í þeirri sjarmerandi borg) og verða aðrir að meta hversu líklegt það er.

Eins og ég nefndi um daginn í grein um Alan Hollinghurst var ein helsta bylting hans að leyfa kynlífi án kvenna að vera með í allri sinni dýrð í verkum sínum og þessi mynd fetar þá braut (enda merkt á Amazon Prime með „nudity, foul language and sexual content“). Við fáum jafnvel að vita að prinsinn er „botn“ og þrátt fyrir að vera almennt feimnari og innhverfari en ameríkaninn er hann samt reyndari í kynferðismálum enda vita allir að Bretar eru graðnaglar. Það er sannarlega öldin önnur þegar senur með fallegum mönnum að r**a séu taldar í himnalagi í mynd sem er að flestu öðru leyti afar meginstraumsleg, ætluð ungu fólki og full af ástarmyndaklisjum. Í raun og veru er samt ekki mikill eða eftirminnilegur söguþráður í myndinni, hún reiðir sig algerlega á sjarma aðalleikaranna og síðan er gallerí af sympatískum aukapersónum af ýmsum kynþáttum og Stephen Fry birtist í nokkar mínútur, heldur mæðulegur og hefur ekki æft sig mikið fyrir hlutverkið. Það er orðið æði langt síðan maður hefur séð gamla leika af sömu snilld og í BlackAdder forðum.

Þema myndarinnar sú staða prinsins að einkalíf hans sé almannaeign sem a.m.k. ættingjar stjórnmálamanna ættu að geta tengt við og hjálpar þar að hann er sýndur sem hugsandi manneskja öfugt við alvöru prinsa eins og Andrew og alla hina. Þessu tekst leikaranum Nicholas Galitzine furðu vel að koma á framfæri innan rammans því að sem leikari er hann heldur fremri en myndin og kannski helsta ástæðan til að horfa á hana.

Previous
Previous

Grípirinn í grasinu

Next
Next

Núningur á Nautaflötum