Grípirinn í grasinu

Titill dagsins er raunar ekki léleg tilraun til að þýða heiti vinsællar skáldsögu J.D. Salinger enda er ég einn þeirra allt of fáu sem tel að íslenska eigi að vera annað og meira en þýðing á ensku. En það væri þó hægt að þýða þennan fræga titil svona bókstaflega því að nafnið Grípir er til í íslensku, í eddukvæðinu Grípisspá sem er fyrsta kvæðið um Sigurð Fáfnisbana í Konungsbók eddukvæða, á undan Reginsmálum, Fáfnismálum og Sigurdrífumálum. Grípir er framsýnn konungur og frændi hins unga Sigurðar Fáfnisbana sem leitar til hans til að þekkja eigin örlög og þessi vísi höfðingi segir Sigurði og lesendum eða áheyrendum allt sem á eftir að gerast í öllum þessum kvæðum og hefði það verið kallað „Höskuldarviðvörun“ á skammvinnu blómaskeiði þess orðs.

Kvæðið er meðal þeirra léttari að þýða þó að í því séu einstaka torskildir staðir eins og þegar Grípir segir að Sigurður sé „gjöfull af gulli en glöggur flugar“ nema menn viti (eins og ég veit nú) að hvorugkynsorðið flug er líka til í karlkyni í sumum elstu textum. Það skýrir raunar ekki hvers vegna Grípir heldur að Sigurður sé góður að fljúga. Voru guðirnir kannski geimfarar? Gátu fleiri fornar hetjur flogið en Völundur? Eða er Grípir að benda frænda sínum á að það geti verið skynsamlegt að hlusta á fugla og skilja mál þeirra? Það síðastnefnda á aldeilis eftir að rætast þannig að kannski er það líklegasta skýringin. Ég er líka í og með að velta fyrir mér hvort það væri gaman að þýða „Enn skaltu hilmi í hugaðsræðu, framlyndur jöfur, fleira segja“ með því að vitna í þann ágæta söngleik Grease (ísl. Koppafeiti) [„Tell me more, tell me more …“) og enn ákafar hugleiði ég hvernig Sigurði tekst að klúðra sinni eigin ævi svo gjörsamlega eftir að hafa fengið þennan ofurnákvæma spádóm um hana — nógu illa stendur hann sig þótt Grípir hefði ekki verið búinn að segja honum þetta allt. Kannski er það þess vegna sem Wagner hafði takmarkaðan áhuga á að finna Grípi stað í höfundarverki sínu.

Fleiri torvelda staði er varla að finna í kvæðinu sem er með þeim léttari en vitaskuld vakna líka spurningar um örlagatrú og spennu. Hugmyndin um „spillinn“ sem margir nútímamenn aðhyllast er auðvitað heimskuleg vegna þess að mesta spennan er alls ekki fólgin í því hvað gerist næst í sögunni eða hvernig fer að lokum og allra síst getur það verið þegar um er að ræða sögulega frásögn sem meira og minna allir þekktu. Eins og Alfred Hitchcock sagði felst engin spenna í að maður detti skyndilega niður holu í jörðinni, fyrst þarf að sýna holuna og svo manninn og þar fram eftir götunum (sbr. vesling Steve í Sabotage sem ég ræddi á þessari síðu á dögunum). Frægð Sigurðar Fáfnisbana hefur auðvitað verið slík á dögum Konungsbókar að það gat aðeins magnað spennuna að leyfa Grípi að skýra fyrst fyrir hinum unga konungi hvernig allt færi og síðan áheyrendum að sjá það allt gerast og á þetta við um drjúgan hluta hins sögulega arfs sem öðru fremur höfðaði til miðaldaáheyrandans.

Previous
Previous

Brekekekex (öðruvísi bókmenntasaga)

Next
Next

Prinsar í fantasíu og í raun