Brekekekex (öðruvísi bókmenntasaga)

„Βρεκεκεκὲξ κοὰξ κοάξ“ sungu titilpersónurnar í leikriti Aristófanesar og Aldous Huxley taldi að þar væri hæðst að gríska kórnum yfirleitt sem í huga skáldsins væri ekkert nema tvídýrakvak. Ég veit ekki til þess að þetta tiltekna leikrit Aristófanes hafi verið flutt á Íslandi en hann var hvorki fyrsti né seinasti höfundurinn til að átta sig á satírískum möguleikum Anura-ættbálksins því að Esóp mun hafa verið fyrr á ferð og saga 376 sem honum er eignuð (þær hafa allar verið númeraðar af Ben E. Parry, samtímamanni Stith Thompsons) fjallar um frosk sem blæs sig upp til að vera stærri en naut uns hann springur. Að sögn klassísista er skotspónn þessarar dæmisögu stéttaklifrarar sem vilja jafnast á við sér meiri menn og kunna sér ekki hóf en svo lítið er vitað um Esóp og hvað honum gekk til að dýrasögur hans eru flestar margræðar þó að hófleysi dýrsins í sögunni fari ekki milli mála.

Enn minna er kannski vitað um hina fornegypsku frjósemisgyðju Heqet sem ku hafa verið tignuð fyrir hartnær 5000 árum og enn mun vera deilt um vægi hennar í trúarlífi þess tíma. Mjög áhugavert er hversu mörg forn goðmögn voru eins konar finngálkn manns og dýrs og gengur þvert á þá yngri hugmynd að guðinn skapi manninn í sinni mynd (en samkvæmt henni er innsti kjarni mannsins ekki einstaklingseðlið heldur hinn guðlegi innsti kjarni, imago Dei). En Heqet er eitt örfárra dæma um svo virðulegt tvídýr í menningarsögunni; mun algengara er að froskar og körtur séu teknar til handargagns í ádeilu eins og hjá Aristófanes.

Þegar ég var barn (kannski árið 1982) fór pabbi til Englands vegna vinnu og sneri aftur með skáldsöguna The Wind in the Willows (Þytur í laufi) sem hann las síðan fyrir okkur börnin en þetta var skömmu áður en sagan gekk í endurnýjun lífdaga í sjónvarpinu og var m.a. sýnd í Sjónvarpinu á gamlársdag 1983, fjölskyldu minni til óblandinnar ánægju. Sú persóna sem vakti mesta hylli okkar var Froskurinn (eða Mr Toad) en hann var meðal annars hinn mesti ökuníðingur og pabbi hrelldi okkur stundum við stýri eftir það með því að þykjast hafa breyst í froskinn. Af öllum dýrunum í sögunni er Froskurinn mesta paródían, yfirstéttarnáungi sem veit ekki aura sinna tal og kann ekki að hegða sér í samfélagi þar sem lög ná jafnt yfir alla en félagar hans (Moldvarpan, Vatnsrottan og Greifinginn) standa þó ávallt með honum. Ekki er þetta svo ólíkt fíflalega frosknum í dæmisögu Esóps sem Grahame hefur sjálfsagt vel þekkt því að Esóp var í tísku í upphafi 20. aldar; Þytur í laufi kom út árið 1908 en þá hafði Esóp jafnvel ratað á íslensku, þýðing skáldsins Steingríms Thorsteinssonar kom út árið 1904, sama ár og hann varð rektor MR.

Arfur Esóps hlaut allt aðra meðferð hjá Arnold Lobel (1933–1987) sem var barnabókahöfundur og teiknari. Árið 1981 sendi hann frá sér verðlaunabókina Fables (1981) sem mér var bent á fyrir löngu; sannarlega er hún tilbrigði við stef Esóps en laus við alla predikun sem hugsanlega er að finna hjá Esóp. Fables vakti strax mikla aðdáun og er orðin sígild en einnig fjórar aðeins eldri myndabækur um froskinn og körtuna, Frog and Toad (1970–1979), og vináttu þeirra sem seinna hefur verið skilgreind sem hómóerótísk og hefur vakið endurnýjaðan áhuga á Lobel sem höfundi sem á sínum tíma lifði tvöföldu lífi og dó úr eyðni í blóma lífsins.

Á svipuðum tíma og Lobel starfaði og verk Grahame gekk í endurnýjun lífdaga í sjónvarpi lagði sjálfur Paul McCartney hönd á plóg fyrir froskdýrin með laginu „We All Stand Together“ sem mörgum finnst vera eitt hans furðulegasta uppátæki og var raunar hluti af teiknimynd um hinn virðulega enska Róbert bangsa (Rupert Bear) sem Mary Tourtel (1874–1948) skapaði á sínum tíma fyrir rúmri öld eða svo en kom til Íslands í Stundinni okkar upp úr 1970. Eins og við sem sátum límd við Listapopp Gunnars Salvarssonar munum eflaust öll náði þetta ágæta lag með froskakórnum 3. sæti á breska vinsældalistanum og hefði kannski náð hærra ef það hefði ekki slegið í gegn á svipuðum tíma og „Last Christmas“ með Wham og Band Aid lagið þar sem Bono sagði okkur að þakka fyrir að þau væru að svelta en ekki við. Myndina sá ég löngu síðar (hún er steikt) en átta mig ekki á því hvort hún eigi að vera svar við Aristófanes.

Á 9. áratugnum voru höfundar ófeimnir við að segja það með froskum og kannski var það þess vegna sem börn þeirra tíma nýttu sér froska í uppreisnartilgangi þegar þau uxu úr grasi eins og þegar meðlimir málfundafélags Oxfordháskóla völdu Kermit frosk sem hátíðarræðumann í stað Margaret Thatcher í október 1994 (sjá mynd að neðan) og að sögn komu fleiri að hlusta á þann græna en Ronald Reagan nokkrum árum fyrr. Ég gæti talað lengi um Jim Henson, arfleifð hans og áhrif en enginn vafi er á að Kermit vann þessa kosningu vegna þess að engin „prúða“ úr Prúðuleikurunum er sami holdgervingur Hensons og hann. Þar sem Kermit er grænn fjallaði erindi hans ekki síst um mikilvægi umhverfismála sem hafa verið mál málanna seinustu hálfu öldina og þó fyrr hefði verið. Aristófanes hefði eflaust glaðst.

Previous
Previous

Skilnaðargremjan

Next
Next

Grípirinn í grasinu