Skilnaðargremjan

Þegar frænka mín Guðný Jónsdóttir frá Klömbrum lést skrifaði faðir hennar, Jón Jónsson, forfaðir minn sem var bæði prestur á Grenjaðarstað en hafði einnig lækningaleyfi frá landlækni, í kirkjubókina: „Dó af sjúkdómi, orsökuðum af skilnaðargremjunni, á Raufarhöfn 11. jan. 1836“. Það er einmitt vegna læknisfræðiþekkingar þessa forföður míns sem þessi setning er sérstaklega áhugaverð þó að við fyrstu sýn hljómi hún eins og hin alræmda setning úr „sorglegu blöðunum“ sem Guðrún Helgadóttir skemmti þjóðinni með á 8. áratugnum: „Unnusti minn dó úr kynþokka“. Bræðurnir skildu ekki hvers vegna foreldrum þeirra fannst fyndið að ungi maðurinn hefði dáið en foreldrarnir hlógu vegna þess að það er fyndið að deyja úr kynþokka (og verður bara fyndnara með aldrinum, ég get enn hlegið upphátt að því núna).

Guðný á Klömbrum varð vitaskuld fræg fyrir þennan skilnað enda var hún uppi á öld þar sem bókmenntasaga snerist að verulegu leyti um „hina ævisögulegu rannsóknaraðferð“ sem stundum fór að líkjast slúðri ansi mikið og vissulega þótti hann harkalegur á sínum tíma þegar ástlaust hjónaband eða persónuleikar sem ekki pössuðu saman voru ekki gild ástæða skilnaðar. Auk heldur var eiginmaður Guðnýjar prestur, séra Sveinn Níelsson, en ekki stóð skilnaðurinn í vegi fyrir frama hans því að hann varð síðar prófastur — og að lokum afi fyrsta forseta Íslands sem fæddist 10 dögum eftir andlát afa síns og nafna.

Skáldfrægð Guðnýjar snýst þó ekki um þessa dularfullu dánarorsök heldur kvæðið „Endurminningin er svo glögg“ sem strákagengi Jónasar, Tómasar, Konráðs og Brynjólfs þótti svo gott að það birtist í 3. árgangi Fjölnis 1837 innan um bókmenntalega aftöku Jónasar á Sigurði Breiðfjörð og stafsetningarþráhyggju Konráðs (á að skrifa ekki með j-i, þ.e. ekkji?) og þar með varð frænka mín fyrsta íslenska konan sem birti kvæði um veraldlegt efni á prenti, að vísu látin, 13 árum áður en langalangafi minn sendi frá sér fyrstu íslensku skáldsöguna og raunar er næsta kvæði við kvæði Guðnýjar eftir annan forföður minn, séra Ólaf Indriðason á Kolfreyjustað (sem hangir á mynd á veggnum heima). Ekki skrifa ég þetta þó til þess eins að sýna fram á að ég sé kúltúrbarn allra kúlturbarna og það á tímum sem kúltur skiptir engu máli lengur heldur er ég afar stoltur af tengslunum við Guðnýju og allt hennar kyn.

Upphaflega sendi hún systur sinni Kristrúnu ljóðið í bréfi. Það er 11 erindi í hefðbundnu formi síns tíma en formið tekur aldrei völdin af tjáningunni sem er tær og einföld þannig að það er ekki erfitt að skilja að sjálfur Jónas hafi verið tilbúinn að stimpla það. En eflaust er það opinská lýsing hennar á eigin aðstæðum og líðan sem hefur heillað Fjölnismenn og alla lesendur síðan, kvæðið er Díönuviðtal síns tíma, ruddi brautina fyrir alla sem þráðu frelsið til að tjá eigin líðan vafninga- og tilgerðarlaust. Þótt ekki væri fyrir annað ætti Guðnýju að bera hátt í íslenskri bókmenntaumræðu.

Previous
Previous

Hvar kaupir maður dingalinga?

Next
Next

Brekekekex (öðruvísi bókmenntasaga)